Djúsí kaka með hnetum
Þessi kaka er afar ljúffeng og holl með öllum hnetunum og þurrkuðu ávöxtunum. Hún er ekki hráfæðiskaka því hneturnar eru ristaðar og súkkulaðið er ekki hrátt en auðvelt er að leysa hvoru tveggja. Í hnetunum er holl fita og í þurrkuðu ávöxtunum eru bæði vítamín og trefjar. Kosturinn við þessa köku er líka sá að ekki þarf að baka hana og er því hægt að skella henni á borð t.d. í sumarbústaðnum ef maður er með hneturnar tilbúnar og malaðar. Nú eða í hestaferð á miðju hálendi Íslands, eins og ég gerði eitthvert skiptið, við mikinn fögnuð. Ég held að ég geti sagt án efa að þetta sé ein uppáhaldskakan mín.
Ég hef notað bæði carob án sykurs og svo dökkt súkkulaði með hrásykri. Athugið innihaldslýsingar ef grunur er um mjólkuróþol/ofnæmi.
Athugið að þið þurfið matvinnsluvél til að útbúa þessa uppskrift.
Notið endilega lífrænt ræktaðar þurrkaðar aprikósur (ekki þessar appelsínugulu).
Djúsí hnetukaka, borin fram með þeyttum rjóma
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án eggja
- Vegan
Djúsí kaka með hnetum
Innihald
- 100 g þurrkaðar apríkósur (þessar brúnu, lífrænt ræktuðu)
- 100 g döðlur
- 100 g cashewhnetur (50 g í kökuna og 50 g ofan á)
- 100 g heslihnetur (50 g í kökuna og 50 g ofan á)
- 50 g möndlur
- 2 hrískökur
- 30 g kókosmjöl
- 2 vel þroskaðir og stórir bananar (1 ofan í kökuna og 1 ofan á)
- 1 tsk vanilludropar (úr heilsubúð)
- 100 g carob eða dökkt (eða lífrænt framleitt súkkulaði, með hrásykri) + 50 g til að setja ofan á
- Fersk ber og ávextir til að skreyta kökuna með (má sleppa ef notaðar eru hnetur)
Aðferð
- Saxið döðlur og aprikósur smátt og leggið í bleyti í 15 mínútur.
- Ef þið notið heilar heslihnetur með hýði, þurrristið þá hneturnar á heitri pönnu. Hitið pönnuna á næstum fullum hita og ristið hneturnar í 2-3 mínútur eða þangað til hýðið fer að losna. Hristið pönnuna öðru hverju. Kælið og nuddið lausa hýðinu af með fingrunum (ekki reyna að taka fasta hýðið, þið yrðuð í nokkur ár að því!).
- Ristið cashewhneturnar í 2-5 mínútur við næstum fullan hita eða þangað til þær fara að ilma. Hristið pönnuna öðru hverju. Takið frá 50 g af cashewhnetum og 50 g af heslihnetum og saxið gróft. Setjið söxuðu hneturnar til hliðar.
- Setjið 50 g cashewhnetur, 50 g heslihnetur og möndlur í matvinnsluvél. Malið í 10-20 sekúndur eða þangað til vel malað en ekki alveg orðið að dufti.
- Bætið kókosmjöli og hrískökum í matvinnsluvélina og malið áfram í nokkrar sekúndur. Setjið í stóra skál.
- Hellið öllu vatninu af apríkósunum og döðlunum (gott að frysta vatnið í klakabox fyrir smoothie!). Setjið þurrkuðu ávextina út í matvinnsluvélina og blandið í nokkrar sekúndur eða þangað allt hefur blandast vel saman en þó án þess að sé alveg maukað.
- Bætið banana út í ásamt vanilludropum og blandið í 3-5 sekúndur. Setjið út í stóru skálina og hrærið vel.
- Bræðið carob eða súkkulaði yfir vatnsbaði. Hitið vatn í potti (bara botnfylli) á vægum hita. Setjið skál ofan í sem situr á brúnum pottsins og brjótið carobið/súkkulaðið ofan í. Fylgist með því og hrærið öðru hvoru þangað til nánast bráðnað, takið þá af hitanum. Gætið þess að carobið/súkkulaðið ofhitni ekki og að ekki fari vatnsdropi ofan í skálina. Hellið út í stóru skálina og hrærið vel.
- Takið til stóran disk, hellið deiginu á diskinn og mótið kökuna eins og þið viljið, með sleikju. Deigið á að vera frekar blautt og klesst og kakan á að vera frekar þunn (eða um um 1,5 cm). Skerið hinn bananann í þunnar sneiðar og raðið ofan á kökuna. Dreifið söxuðu hnetunum ofan á.
- Bræðið 50 g af carob/súkkulaði og hellið yfir kökuna (má sleppa). Einnig má skreyta með alls kyns ávöxtum og berjum.
- Geymið kökuna í ísskáp og takið hana út 30 mínútum áður en á að borða hana, svo að bragðið njóti sín sem best.
Gott að hafa í huga
- Notið þessar brúnu, þurrkuðu aprikósur, þær sem eru lífrænt framleiddar. Þessar appelsínugulu eru meðhöndlaðar með brennisteinsdíoxíð til að þær líti betur út.
- Athugið að dökkt carob/súkkulaði inniheldur stundum mjólk, lesið ávallt innihaldslýsingu ef þið eruð með óþol/ofnæmi.
- Nota má vel þroskaðar perur, eða mangó í stað banana.
- Gott er að bera fram cashewhneturjóma með kökunni (eða venjulegan, þeyttan rjóma).
Ummæli um uppskriftina
24. feb. 2012
hvar get ég keypt carob? og hvað er íslenska heitið yfir það?
24. feb. 2012
Hér eru upplýsingar um carob http://cafesigrun.com/ordalisti#carob og þú finnur mörg svör við álíka spurningum undir Orðalistanum.
08. júl. 2013
Hvað endist þessi kaka lengi í ískáp ? :) Er að leita mér að köku sem getur verið í ískápnum eða frysti í nokkra daga sem ég get gætt mér smávegis á, á hverjum degi.
08. júl. 2013
Þessi er akkúrat svoleiðis :) Þú getur geymt hana í ísskápnum í 3-4 daga og í frysti í marga mánuði. Hafðu samt í huga að ef þú ætlar að geyma hana þá er betra að hafa fersku ávextina með "on the side" heldur en að geyma þá ofan á kökunni.
08. jún. 2014
Þessi kaka er æðisleg, ég sleppti að setja hneturnar ofan á og saxaði súkkulaðið í staðinn fyrir að bræða það svo hafði ég vínber, jarðarber og gríska jógúrt með. Svo var hún borðuð í morgunmat!
08. jún. 2014
Dásamlegt Sigurbjörg :)
13. nóv. 2017
Sæl Sigrún, ég er að gera þessa köku núna í morgunsárið á mánudegi :-) Saumó í kvöld. Ég hef ekki ristað hnetur fyrr, cashnew hneturnar urðu strax svartar eftir 1 mín á pönnunni, eiga þær að verða þannig? Kær kv. Ragnheiður
13. nóv. 2017
Sæl Sigrún, ég er að gera þessa köku núna í morgunsárið á mánudegi :-) Saumó í kvöld. Ég hef ekki ristað hnetur fyrr, cashnew hneturnar urðu strax svartar eftir 1 mín á pönnunni, eiga þær að verða þannig? Kær kv. Ragnheiður
13. nóv. 2017
Hæ. Það fer svolítið eftir hnetunum, pönnunni og eldavélinni/hellunni sem þú ert með. Það þarf alltaf að stilla aðeins af. Á þeim hellum sem ég hef haft í gegnum tíðina hafa 5 mínútur yfirleitt verið passlegar og ég hef alltaf verið með frekar stórar hnetur. Ég hef notað bæði gas og rafmagn og frekar þykkbotna pönnu. Ef þú ert með þunnbotna pönnu og smáar hnetur, gæti það verið ástæðan. Ég held samt að það sé öruggara að ég bæti inn í leiðbeiningarnar 2-5 mínútur við næstum fullan hita og muna að hrista pönnuna reglulega! Vona að gangi betur næst, hneturnar eru nóg fj.... dýrar án þess að maður sé að henda þeim í ruslið!