Burrito

Ef Jóhannes fær að ráða hvað eigi að vera í matinn (hann fær stundum að ráða) þá segir hann án undantekningar „mmmm burritos”. Honum finnst þessi réttur sem sagt verulega góður enda einfaldur (sko rétturinn), bragðgóður og léttur. Ég geri alltaf tvöfaldan skammt svo ég geti haft líka haft burrito í matinn daginn eftir en einnig má frysta matinn og hita upp síðar (eða borða kalt í nesti).

Þessi uppskrift er:

  • Án eggja
  • Án hneta

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Vegan (fyrir jurtaætur)

Burrito

Fyrir 3-4 (8 kökur)

Innihald

  • 250 g maískorn, án sykurs (gott að nota frosið)
  • 1 rauð paprika, skorin í mjóa strimla
  • 2 tómatar, skornir í sneiðar (má sleppa)
  • 8 tortillakökur (heimatilbúnar eða úr heilsubúð)
  • 1 dós baunamauk (enska: refried beans), helst úr heilsubúð
  • 10 sveppir, sneiddir þunnt og steiktir upp úr vatni
  • 0,5 tsk svartur pipar
  • Lambhagasalat, nokkur blöð
  • 200 g magur ostur, rifinn
  • Um 200 g salsa (heimatilbúið eða úr heilsubúð)
  • Um 200 g guacamole (heimatilbúið eða úr heilsubúð)
  • Um 150 g sýrður rjómi (5%, án gelatíns) frá Mjólku eða jógúrt/AB mjólk

Aðferð

  1. Útbúið tortilla kökurnar, salsa og guacamole.
  2. Skerið paprikuna í helming, fræhreinsið og skerið þær í mjóar sneiðar.
  3. Skerið tómatana í mjóar sneiðar og svo í helminga.
  4. Skolið salatið.
  5. Hellið vatninu af maískorninu (eða látið það þiðna).
  6. Sneiðið sveppina þunnt og steikið þá upp úr vatni og pipar.
  7. Rífið ostinn.
  8. Setjið papriku, tómata, salatblöð, maískorn, sveppi, baunamauk og ost í skálar fyrir framan ykkur á borðið.
  9. Leggið tortilla kökurnar á borðið og skiptið hráefninu jafnt á milli tortilla kakanna. Byrjið á baunamaukinu, setjið svo salat, papriku, tómata, maískorn og sveppi á kökurnar og endið svo á osti.
  10. Pakkið kökunum varlega saman (rúllið þeim upp og brjótið endana undir kökurnar). Setjið bökunarapappír á bökunarplötu og leggið kökurnar varlega ofan á plötuna (snúið samskeytunum niður). Einnig má setja kökurnar í eldfast mót.
  11. Það þarf ekki endilega að brjóta endana undir kökurnar en þannig helst osturinn örugglega inni (lekur ekki út). Stundum er erfitt að brjóta endanda þannig að þeir fari undir kökurnar og ef tortilla kökurnar molna er best að sleppa því.
  12. Hitið í ofni við 180°C í 15-20 mínútur.

Gott að hafa í huga

  • Setjið salsa, guacamole og sýrðan rjóma í sér skálar þannig að allir geti sett á sitt burrito.
  • Nota má jógúrt eða AB mjólk í staðinn fyrir sýrðan rjóma.
  • Best er að kaupa salsa, guacamole, baunamauk og tortilla kökur í heilsubúð. Það sem selt er í matvöruverslunum er oft hlaðið aukaefnum, sykri og fleira drasli.
  • Maturinn hentar vel til að frysta (eftir að búið er að matreiða hann) og má hita upp í ofni síðar. Einnig er maturinn góður í nestisboxið (líka kaldur).
  • Nota má sojaost og sojajógúrt í staðinn fyrir venjulegan ost og sýrðan rjóma.
  • Nota má maís-, eða spelt tortilla kökur.