Blómkáls- og kartöflusúpa

Þessi súpa er fullkominn að hausti þegar maður getur notað fínu nýju kartöflurnar og ef maður býr svo vel að eiga blómkál úr garðinum þá er það sko ekki verra. Súpan er mild og fín, afar mögur þannig að hún hentar vel fólki sem vill létta máltíð en seðjandi. Hún hentar líka blönkum námsmönnum sérlega vel því hún er jú mjög ódýr, einföld og hana má frysta. Mér finnst rosalega gott að setja smávegis af rifnum osti og jafnvel rifnum parmesan út í til að fá meira bragð en það er allt eftir smekk hvers og eins auðvitað. Ég veit fátt betra á köldum haustdegi en að borða súpu úr fersku, nýuppteknu grænmeti. Þessi uppskrift kemur upprunalega úr litlum ítölskum bæklingi sem ég átti en ég er þó aðeins búin að breyta uppskriftinni og gera hana hollari.

Athugið að best er að nota matvinnsluvél, blandara eða töfrasprota til að mauka súpuna.


Blómkáls- og kartöflusúpa, fínasta uppskerusúpa

Þessi uppskrift er:

  • Án eggja
  • Án hneta

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Vegan (fyrir jurtaætur)

Blómkáls- og kartöflusúpa

Fyrir 2-3

Innihald

  • Hálfur stór blómkálshaus
  • Hálf stór kartafla, skorin í teninga
  • 375 ml léttmjólk 
  • 500 ml vatn
  • 2 gerlausir grænmetisteningar
  • 3 vorlaukar
  • 1 msk kókosolía
  • 1 msk spelti (einnig má nota kartöflumjöl eða maísmjöl)
  • 20 g magur ostur, rifinn
  • 2 msk parmesan, rifinn (má sleppa)
  • Smá klípa salt (Himalaya eða sjávarsalt)
  • Svartur pipar eftir smekk

Aðferð

  1. Skerið hvíta hluta vorlauksins í stóra bita. Skerið græna hluta vorlauksins skáhallt í sneiðar.
  2. Skerið kartöfluna í teninga og brjótið blómkálið í sprota.
  3. Setjið kartöflur og blómkál í stóran pott ásamt mjólkinni, vatninu, grænmetisteningunum og hvíta hluta vorlauksins.
  4. Sjóðið allt í 20 mínútur eða þangað til grænmetið er orðið mjög mjúkt.
  5. Síið vökvann í stóra skál og geymið grænmetið í annarri skál.
  6. Hitið kókosolíuna í stóra pottinum og bætið speltinu saman við. Hrærið allan tímann og mjög hratt í 1 mínútu eða svo (þangað til að úr verður smá grautur).
  7. Bætið vökvanum (sem var síaður frá) hægt saman við, smátt og smátt þangað til allt blandast vel saman.
  8. Látið suðuna koma upp og látið malla í 2-3 mínútur.
  9. Bætið grænmetinu saman við og smakkið til með salti og pipar.
  10. Notið nú töfrasprota til að mauka súpuna eða setjið í nokkrum skömmtum í matvinnsluvél eða blandara (kælið hana aðeins áður). Blandið þangað til súpan er orðin silkimjúk (þið getið geymt nokkra bita af blómkálinu til að hafa grófari áferð ef þið óskið).
  11. Rífið ostinn og bætið honum saman við. Hrærið þangað til hann bráðnar.
  12. Rífið parmesan ostinn og dreifið honum yfir súpuna.
  13. Dreifið græna hluta vorlauksins yfir súpuna.
  14. Berið fram strax.

Gott að hafa í huga

  • Gott er að bera fram nýbakað snittubrauð með súpunni.
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.
  • Gerlausir grænmetisteningar fást í heilsubúðum og stærri matvöruverslunum.
  • Ef þið eruð ekki viðkvæm fyrir geri getið þið notað venjulega, lífrænt framleidda grænmetisteninga.
  • Nota má hrísmjólk, möndlumjólk, sojamjólk eða haframjólk í staðinn fyrir venjulega mjólk.
  • Nota má maísmjöl, hrísmjöl eða kartöflumjöl í staðinn fyrir spelti.

Ummæli um uppskriftina

mk
30. nóv. 2011

Sæl, ég er að velta því fyrir mér hvort það sé í lagi að gera bara skref 1-4?

sigrun
30. nóv. 2011

Ætti að vera í lagi en súpan gæti orðið svolítið þunn svo ef þú átt maísmjöl eða kartöflumjöl myndi ég nota það í staðinn fyrir speltið.