Bláberjaísterta

Hafið þið einhvern tímann spáð í hvort að bláber haldi fegurðarsamkeppni? Ég gat ekki annað eftir einn berjamóinn. Ég valdi þátttakendur í keppnina og við Jóhannes dæmdum. Það voru mjög margir keppendur sem áttu skilið að vinna en sigurvegararnir sitja stoltir ofan á bláberjaístertunni á myndinni. Þetta er algjörlega dásamleg ísterta og fullkomin ef maður á nýtýnd bláber. Svo er kakan alveg svakalega holl því í henni eru hnetur og auðvitað bláber en hneturnar stuðla að heilbrigðu hjarta og æðakerfi en bláberin eru stútfull af andoxunarefnum og járni. Það eru engar mjólkurvörur og engin egg í ísnum og hentar því þeim sem hafa mjólkur- og/eða eggjaóþol. Ísinn hentar einnig þeim sem eru vegan.

Athugið að best er að leggja hnetur, möndlur og döðlur í bleyti í nokkrar klukkustundir.

Athugið einnig að þið þurfið 20 sm kökuform og matvinnsluvél til að útbúa þessa uppskrift.


Bláberjaísterta, fagurblá og holl

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Vegan
  • Hráfæði

Bláberjaísterta

Gerir 1 tertu

Innihald

Botn:

  • 85 g cashewhnetur
  • 85 g möndlur
  • 50 g döðlur
  • 2 msk hlynsíróp

Ísfylling:

  • 160 g cashewhnetur
  • 100 g Brasilíuhnetur
  • 375 ml möndlumjólk (ef mjólkin er ósæt þarf að bæta við 2 msk af hlynsírópi)
  • 140 g bláber
  • 70 ml hreint hlynsíróp
  • 4 msk kókosolía
  • 1 tsk vanilludropar (úr heilsubúð)
  • 0,5 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)

Aðferð

  1. Leggið döðlur, hnetur og möndlur fyrir botninn í bleyti í klukkustund eða lengur.
  2. Leggið hnetur fyrir fyllinguna í bleyti í klukkustund eða lengur.
  3. Hellið vatninu af hnetum, möndlum og döðlum. Setjið hnetur og möndlur í matvinnsluvél og blandið þangað til fínkornótt (en ekki maukað).
  4. Setjið döðlur og 2 msk hlynsíróp í matvinnsluvélina og blandið vel (ekki samt þannig að verði að mauki heldur mjög smátt saxað).
  5. Setjið plastfilmu innan í lausbotna, djúpt 20 sm kökuform. Þrýstið því sem var í matvinnsluvélinni vel niður í formið og jafnið botninn vel út. Setjið botninn í frysti á meðan þið undirbúið fyllinguna.
  6. Nú skuluð þið undirbúa fyllinguna:
  7. Hellið vatninu af hnetunum og setjið í matvinnsluvél ásamt vanilludropum. Maukið í a.m.k. 30 sekúndur eða þangað til hneturnar eru nokkuð maukaðar. Skafið hliðar matvinnsluvélarinnar og bætið bláberjum, salti og hlynsírópi saman við. Maukið í 1 mínútu eða þangað til fyllingin er orðin mjúk.
  8. Skafið hliðar matvinnsluvélarinnar og kveikið á henni. Á meðan vélin vinnur skuluð þið hella kókosolíunni í mjórri bunu út í matvinnsluvélina, ásamt möndlumjólkinni. Látið vélina vinna í um 1 mínútu eða þangað til blandan er flauelismjúk. Ef  ykkur finnst blandan mega vera sætari, bætið þá aðeins meira af hlynsírópi út í.
  9. Takið botninn úr frystinum og hellið fyllingunni yfir. Setjið ístertuna í frystinn og frystið í 4-5 klukkustundir eða þangað til ísinn er frosinn í gegn.
  10. Fjarlægið plastið undan kökunni þegar þið berið hana fram og setjið hana á disk. Látið kökuna standa í ísskáp í nokkrar klukkustundir eða þangað til hún er orðin nægilega mjúk til að skera hana en ekki of þiðin til að hún leki niður strax.
  11. Skreytið með bláberjum en einnig er krydduð bláberjasulta algjört sælgæti með.

Gott að hafa í huga

  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Nota má agavesíróp í staðinn fyrir hlynsíróp.
  • Nota má undanrennu, hrísmjólk, haframjólk eða sojamjólk í staðinn fyrir möndlumjólk.
  • Ef ístertan á að vera hráfæðisterta, er best að gera sína eigin möndlumjólk.
  • Nota má macadamiahnetur í staðinn fyrir Brasilíuhnetur og cashewhnetur í fyllingunni.

Ummæli um uppskriftina

Melkorka
30. mar. 2011

Þessi vinnur fegurðarsamkeppnina!

Guðrún_
05. jún. 2011

Sæl Sigrún,
ég er að velta fyrir mér hvenær ísfyllingin er sett á botninn?

sigrun
06. jún. 2011

Góð spurning Guðrún. Ég er búin að uppfæra uppskriftina með 'réttum' leiðbeiningum :)

Kv.

Sigrún