Bláberja- og súkkulaðiís

Ohhh ég slefa við tilhugsunina. Bláber og súkkulaði…, nammi namm. Þessi ís ætti eiginlega að heita andoxunarís með cashewhnetum. Ísinn er bæði hollur og bragðgóður og stútfullur af andoxunarefnum sem og járni, hollri fitu úr pecan- og cashewhnetunum og svo er hann svo dæmalaust mjúkur og góður líka. Þessi er ekta fyrir haustið í bláberjauppskerunni en er auðvitað frábær vetur, sumar, vor, og haust (og jól líka). Athugið að úr uppskriftinni fást um 8-10 stykki af litlum ístertum (um 400 g í heildina).

Athugið að nauðsynlegt er að eiga matvinnsluvél til að útbúa þessa uppskrift.


Bláber og kakó....ein hollasta samsetning heims!

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án mjólkur
 • Án eggja
 • Vegan

Bláberja- og súkkulaðiís

Gerir um 8-10 stykki af litlum ístertum (um 400 g í heildina)

Innihald

 • 125 g cashewhnetur
 • 2,5 msk kókosolía
 • 1 banani
 • 100 g bláber
 • 125 ml sojamjólk eða önnur mjólk
 • 75 ml agavesíróp
 • 30 g kakó

Aðferð

 1. Setjið cashewhnetur í matvinnsluvél og malið í um 1 mínútu á fullum krafti.
 2. Bætið 1 msk af kókosolíu út í og látið vélina vinna þangað til hneturnar eru orðnar kekkjóttar og olíukenndar.
 3. Bætið agavesírópinu, sojamjólkinni og banananum út í matvinnsluvélina og maukið vel.
 4. Bætið afgangnum af kókosolíunni út í og látið vélina vinna í nokkrar sekúndur. Maukið í a.m.k. 30 sekúndur.
 5. Skiptið blöndunni í tvo hluta og setjið annan helminginn í skál og hinn aftur í matvinnsluvélina.
 6. Setjið bláberin út í afganginn af blöndunni sem er í matvinnsluvélinni og blandið mjög vel eða í um 30 sekúndur. Setjið bláberjablönduna svo í skál.
 7. Setjið hinn helminginn af cashewblöndunni í matvinnsluvélina ásamt kakóinu, blandið mjög vel eða í um 30 sekúndur.
 8. Notið lítil form úr siliconi eða einhver önnur form (og klæðið þá með plastfilmu). Fjöldi formanna fer eftir stærð þeirra. Ég notaði t.d. 10 form sem voru breiðari en muffinsform en lægri.
 9. Hellið súkkulaðiblöndunni í botninn á formunum, dreifið vel yfir botninn.
 10. Frystið eða kælið í 30 mínútur.
 11. Hellið bláberjablöndunni út í eða notið sprautupoka til að sprauta fyllingunni ofan á súkkulaðibotninn.
 12. Setjið í frysti í nokkrar klukkustundir og berið fram frosið.

Gott að hafa í huga

 • Einnig má setja blönduna alla í eitt form þ.e. súkkulaði á botninn og bláberjablönduna ofan á.
 • Nota má önnur ber en bláber.
 • Nota má undanrennu, hrísmjólk, haframjólk eða möndlumjólk í staðinn fyrir sojamjólk.
 • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
 • Auðvelt er að gera þessa uppskrift að hráfæðisuppskrift með því að nota heimatilbúna hnetu- eða möndlumjólk.

Ummæli um uppskriftina

Hugrún Óladóttir
23. jan. 2011

Mig langar að profa þessa uppskrift, en ég er með einn sem ekki þolir glúten og ekki banana. Er hægt að nota eitthvað annað sem kemur i stað bananans hér?
Takk annars fyrir frábærar uppskriftir og flotta síðu.

sigrun
23. jan. 2011

Sæl Hugrún

Þú gætir notað mjög vel þroskaða peru (skrælda og maukaða) eða mjög vel þroskað mango (skrælt og maukað). Ávextirnir þurfa að vera mikið þroskaðir en ef þeir eru það ekki þarftu að bæta aðeins við af agavesírópi.

Vonandi bragðast ísinn vel hjá þér :)

Kv.

Sigrún

Bjarnhildur Ólafsdóttir
29. ágú. 2011

Þessi ís er minn uppáhaldsís. Ég er mikið fyrir ís og er búin að prófa mjög margar ís-uppskriftir en þessi slær öllu við :)
Unglingunum mínum og manninum finnst ísinn líka æði svo það er ekki verra :)

sigrun
29. ágú. 2011

Gaman að heyra Bjarnhildur :)