Biscotti með möndlum

Þetta er nokkuð holl útgáfa af ítalska biscotti kexinu. Eina fitan í þessari uppskrift kemur úr möndlunum en það er holl fita svo við skulum ekkert fá svo mikið samviskubit. Það er líka mikið af kalki í þessu kexi þar sem möndlur eru mjög kalkríkar. Þessu kexi er upplagt að dýfa í kaffi eða te eða jafnvel bara mjólk. Athugið að best er að nota eins fínmalaðan hrásykur og þið komist í. Yfirleitt nota ég rapadura hrásykur í allan minn bakstur en fyrir biscotti finnst mér betra að nota venjulegan hrásykur, helst fínmalaðan. Eins finnst mér henta betur að nota fínmalað spelti heldur en grófmalað.

Athugið að biscotti þarf að baka tvisvar.


Biscotti með möndlum, dásamlegt með kaffinu

Þessi uppskrift er:

  • Án mjólkur

Biscotti með möndlum

Gerir 10-12 sneiðar

Innihald

  • 240 g spelti, fínmalað
  • 2 tsk vínsteinslyftiduft
  • 110 g hrásykur (fínmalaður ef þið finnið svoleiðis)
  • 1 egg
  • 75 g möndlur, saxaðar gróft
  • 1 tsk möndludropar (úr heilsubúð)
  • 2 msk kalt vatn

Aðferð

  1. Saxið möndlurnar gróft.
  2. Sigtið saman spelti og lyftidufti í stóra skál.
  3. Í aðra skál skuluð þið blanda saman eggi, möndludropum og hrásykri. Hrærið vel. Bætið vatninu út í svo að sykurinn leysist vel upp.
  4. Bætið eggjablöndunni saman við speltið og hrærið þangað til allt blandast vel saman. Hér gæti þurft að bæta við svolitlu af köldu vatni (matskeið í einu) til að blandan verði nægilega blaut. Hún má samt ekki vera klístruð heldur þarf að vera þannig að hægt sé að hnoða deigið án þess að það klessist við allt. Mér finnst gott að miða við að deigið sé eins og leir.
  5. Bætið söxuðu möndlunum saman við og hnoðið deigið vel. Einnig má nota deigkrók og hrærivél.
  6. Setjið bökunarpappír á bökunarplötu og fletjið deigið út þannig að þið fáið u.þ.b. 12 sm breiðan og 22 sm langan hleif sem er um 1-1.5 sm á hæð.
  7. Bakið hleifinn við 160°C í um 30-40 mínútur eða þangað til hleifurinn er orðið nógu harður til að hægt sé að skera hann.
  8. Takið hleifinn úr ofninum, kælið í 5 mínútur og skerið hleifinn á ská í þunnar sneiðar (1 sm) með flugbeittum brauðhníf. Skerið varlega til að möndlurnar brotni ekki úr deiginu.
  9. Dreifið sneiðunum á bökunarpappírinn, setjið aftur inn í ofn og bakið í 10-15 mínútur.
  10. Snúið sneiðunum við og slökkvið á ofninum og leyfið þeim að kólna inni í ofninum (ef þið eruð ekki með blástursofn er gott að opna ofninn).
  11. Gætið þess að biscottiið brenni ekki á þessum tímapunkti og takið það út ef sneiðarnar eru orðnar mjög dökkar.
  12. Athugið að sneiðarnar eru mjúkar á þessum tímapunkti en munu harðna við að kólna. Ef þær harðna ekki má baka þær í nokkrar mínútur til viðbótar.
  13. Geymið í lokuðu íláti.

Gott að hafa í huga

  • Það er líka hægt að setja 2 msk kakó út í deigið til að fá „súkkulaði biscotti”. Einnig má setja saxað súkkulaði (dökkt, lífrænt framleitt með hrásykri), þurrkuð kirsuber o.fl.
  • Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.

Ummæli um uppskriftina

barbietec
03. júl. 2011

Fólk er að missa sig hérna yfir þessu Biscotti-i....

Búin að gefa ÖLLUM sem hafa komið í heimsókn og fólk *mmm*-ar og *mmm*-ar

Hentar ótrúlega vel að skella í Biscotti eftir kvöldmatinn og láta kólna yfir nótt í ofninum

sigrun
03. júl. 2011

Það er svo sniðugt að eiga biscotti með kaffinu, geymist vel og er alltaf gott til að dýfa í kaffibollann (eða tebollann) :)

Lísa Hjalt
22. júl. 2011

tæki þessa með mér á eyðieyju ... fæ ég ekki örugglega kaffi þar til að dýfa þeim ofan í?!!

sigrun
23. júl. 2011

Iss við myndum útbúa okkar eigið kaffi....rækta einhverjar eyðieyjubaunir og gera eitthvað rosa gott kaffi úr því :)

gestur
26. apr. 2014

Takk fyrir góða síðu.
Frábær uppskrift, mjög bragðgott og ekki síðri en á kaffihúsum. Er að smella í aðra umferð.
Kv. Linda

sigrun
26. apr. 2014

Kærar þakkir Linda. Er glöð að heyra að uppskriftin tókst vel :)