Bananabrauð

Þetta er afskaplega einföld og fljótleg uppskrift að bananabrauði. Mikilvægt er að nota vel þroskaða banana, helst þannig að þeir séu orðnir svartir og það er ekkert sem betra er að nota svoleiðis banana í, heldur en svona brauð. Ég man ekki alveg hvaðan þessi uppskrift er, hún gæti verið blanda úr mörgum. Ég man bara að það áttu að vera 100 g af smjöri en ég skipti því nú út strax fyrir 1 aukabanana og 1 msk af kókosolíu. Það er svaðalega gott að setja svolítið af söxuðum valhnetum út í deigið og eykur það mikið á hollustuna enda innihalda valhnetur holla fitu.

Athugið að þið þurfið brauðform sem tekur a.m.k. 1 kg fyrir þessa uppskrift.

Þessi uppskrift er:

 • Án mjólkur
 • Án hneta

Bananabrauð

Gerir 1 brauð

Innihald

 • 70 g rapadura hrásykur (eða annar hrásykur)
 • 10 dropar stevia (eða 20 g hrásykur til viðbótar)
 • 4 bananar, mikið þroskaðir 
 • 2 egg
 • 2 msk kókosolía
 • 200 g spelti
 • 2 tsk vínsteinslyftiduft
 • 1 tsk salt (Himalyaya eða sjávarsalt)
 • 25 g haframjöl
 • 25 g haframjöl til að strá yfir

Aðferð

 1. Þeytið eggin lauslega og bætið hrásykrinum saman við í smáum skömmtum (nokkrar matskeiðar í einu eða svo).
 2. Merjið bananana með gaffli og hrærið saman við eggin ásamt kókosolíunni og stevia dropunum.
 3. Sigtið saman í stóra skál; spelti, lyftidufti og salt og hrærið vel. Bætið 25 g af haframjöli út í.
 4. Hellið bananablöndunni út í stóru skálina og hrærið mjög varlega (rétt veltið deiginu til þangað til það blandast saman). Deigið á að vera það blautt að það leki af sleif í stórum kekkjum og ekki t.d. það þurrt að hægt sé að hnoða það.
 5. Klæðið brauðform með bökunarpappír og hellið deiginu í formið. Gætið þess að það fari vel í öll horn.
 6. Dreifið afganginum af haframjölinu yfir bananabrauðið.
 7. Bakið í 180°C í 40-45 mínútur.
 8. Brauðið verður mjög klessulegt þegar það er nýkomið úr ofninum. Látið brauðið kólna í a.m.k. 30 mínútur áður en þið skerið það í sneiðar.

Gott að hafa í huga

 • Það er mjög gott að setja um 2 tsk af kanil í uppskriftina, sérstaklega fyrir jólin!
 • Gott er að bæta við söxuðum hnetum í uppskriftina (t.d. pecanhnetum eða valhnetum).
 • Það er mjög gott að frysta bananabrauðið og hita upp síðar. Það er líka sniðugt að skera brauðið í sneiðar og pakka inn þannig. Þannig getur maður hitað eina sneið í einu og tekið með sér í nestið!
 • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
 • Í staðinn fyrir 5 banana má nota 4 banana + 125 ml lífrænt framleiddan barnamat.
 • Ef afgangur er af barnamatnum má frysta hann í ísmolabox og nota í drykk síðar (smoothie).
 • Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.

Ummæli um uppskriftina

Magnea
09. maí. 2011

Uppáhaldið mitt að fá mér með síðdegiskaffinu - set reyndar minni sykur og blanda spelti við hveiti :) namm

sigrun
09. maí. 2011

Gaman að heyra Magnea :)

Lee Ann
14. júl. 2011

Nammi namm - bakaði þetta í fyrsta skipti áðan og þetta er alveg himneskt brauð :)

sigrun
14. júl. 2011

Gott að heyra Magnea og takk fyrir að deila með okkur :)

Ægir G
24. sep. 2011

Mmm, baka þetta reglulega. Ég hef alltaf með kanil í deiginu, finnst það gefa alveg ómótstæðilegan keim :) Gæti hugsað mér að setja smá negul fyrir jólin með.

sigrun
24. sep. 2011

Líst vel á negulinn Ægir :)

Berglind Jóhanns
11. ágú. 2012

Alveg frábært bananabrauð! Ég hef sett slatta af möndlum og finnst mér það núna alveg ómissandi og það sama á við um kanilinn.

sigrun
11. ágú. 2012

Takk Berglind, gaman að heyra :) Möndlur og kanill er góð blanda :)

Þóra Dögg
23. okt. 2012

Hvenær á að setja ávaxtamaukið út í? Með bönununum?

sigrun
23. okt. 2012

Já með bönununum en þú getur líka notað 1 aukabanana í staðinn fyrir barnamatinn

Anita
20. jan. 2013

Sá að þú tekur fram að það þurfi form sem taki 1kg. fyrir uppskriftina. Ef maður býr ekki svo vel - er þá í lagi að skipta henni í tvö minni form? :)

sigrun
20. jan. 2013

Já já það er allt í lagi, brauðin verða reyndar minni auðvitað og þú þarft að athuga tímann þ.e. athugaðu með brauðin eftir 25 mínútur til að sjá hvort að þau séu nokkuð að verða ofbökuð. Minni brauð þurfa jú styttri tíma!

gestur
14. mar. 2013

Er hægt að nota egglíki í staðin kv, Margrét

sigrun
14. mar. 2013

Ég hugsa að það sé hægt (án þess að ég hafi prófað)....ef pakkningarnar gefa uppskrift af kökubrauði eða muffinsum þá geturðu pottþétt notað það í þetta brauð.

Ragnheiður Jóna Grétarsdóttir
01. sep. 2013

Vá sjúklega gott brauð sem ég bakaði í dag. Átti ekki barnamauk eða eplamauk. En vá þetta verður baka mun oftar en einu sinni. Takk fyrir!

sigrun
01. sep. 2013

Gleður mig að heyra Ragnheiður, takk fyrir að láta mig vita :)

Ágústa
15. mar. 2014

Hrikalega gott!! takk fyrir frábæra síðu :)

sigrun
15. mar. 2014

Æ takk Ágústa :) Fallegt af þér að láta vita :)

Becky
24. jan. 2016

Þetta er uppáhalds bananabrauðið okkar í öllum heiminum :) Við höfum búið í London í mörg mörg ár og þrátt fyrir svakalega góð brauð í hollustubúðunum hér (þú þekkir þau) er ekkert sem toppar þetta bananabrauð þitt. Getur þú hjálpað mér með uppskrift af hrísgrjónabrauði.... er búin að leita í mörg ár hér en hér er enginn bakarí Grímsbæ...... með gulrótarhrísgrjónarbrauð! sykur og hveitilaust ..... lumar þú á einhverju slíku ?

sigrun
24. jan. 2016

Awwww falleg orð. Jú ég hef nokkrum sinnum keypt bananabrauð í heilsubúðunum :) Mæli með því að grilla sneiðar í samlokugrilli, ferlega gott (oft gert á kaffihúsunum og flestir setja smjör og jafnvel kanil út á). Ég þekki ekki til brauðsins sem þú nefnir. Er þetta savoury eða sætt brauð?

Becky
24. jan. 2016

úff þú verður að koma þar við (á þri eða fim) og prófa hrísgrjónabrauð...... hægt að kaupa það með og/eða án gulróta. Það er ekkert hveitidæmi í því, bara hýðishrísgrjón og svoooooo brjálæðislega gott að það eru mörg ár síðan það hætti að vera fyndið....... trúðu mér, það er ekki sætt bara svoooo æðislega hollt og gott :) ég kaupi stundum tíu og stundum 20 slík brauð, tek með mér til London, sker í sneiðar og frysti :) algert dúndur með hnetu- eða möndlusmjöri. Ef þér dettur í hug hvernig ég get gert þetta þá skal ég alveg kaupa af þér uppskriftina :) :) btw elska síðuna þína, held ég hafi prófað flest allt.... nema barnamatinn hehe.......

sigrun
24. jan. 2016

Ég skil, en áhugavert! Nú langar mig mikið að fara að njósna og gera tilraunir :) Sendu mér línu á netfengið sigrun@cafesigrun.com svo ég hafi netfangið þitt :)