Banana- og döðlu skyrdrykkur

Eitt kvöldið þegar ég var ein heima hérna í London (Jóhannes var í viðskiptaferð í Portúgal), var ekkert til í ísskápnum nema skyr (ótrúlegt en satt því skyr fæst jú ekki hér) og jógúrt. Ég átti líka banana og döðlur og ákvað að gera tilraun. Hún heppnaðist mjög vel og þetta varð kvöldmaturinn minn það kvöldið (verulega saðsamur drykkur get ég sagt ykkur). Mér leiðist nefnilega að elda fyrir mig eina og þessi drykkur (smoothie) var því fín lausn.

Athugið að þið þurfið blandara til að útbúa drykkinn.


Seðjandi og próteinríkur drykkur

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án eggja
  • Án hneta

Banana- og döðlu skyrdrykkur

Fyrir 2

Innihald

  • 10 Medjool döðlur (eða þurrkaðar döðlur lagðar í bleyti í klukkustund)
  • 2 vel þroskaðir bananar
  • 120 ml jógúrt
  • 200 ml hreint skyr
  • 1 tsk vanilludropar (úr heilsubúð)

Aðferð

  1. Saxið döðlurnar gróft og setjið þær í blandara ásamt bönunum. Blandið í um 10 sekúndur.
  2. Setjið skyr, jógúrt og vanilludropa út í blandarann og blandið í um 20 sekúndur eða þangað til silkimjúkt.
  3. Berið fram strax.

Gott að hafa í huga

  • Það má þynna blönduna með sojamjólk, hrísmjólk, möndlumjólk, haframjólk eða undanrennu ef þarf.
  • Medjool döðlur fást stundum í matvöruverslunum og/eða heilsubúðum. Þær eru mýkri en þurrkaðar döðlur og þær þarf ekki að leggja í bleyti.
  • Ef þið hafið mjólkuróþol getið þið notað sojajógúrt í staðinn fyrir jógúrt og skyr.