Banana-, möndlu- og jógúrtsalat

Þetta salat er mjög hollt og bragðgott og er einkar fljótlegt í undirbúningi. Það passar vel með krydduðum mat eins og þeim sem maður fær stundum frá Indlandi og Mexico. Salatið er gott til að kæla bragðlaukana og er góð viðbót við t.d. grillmat. Gott er að láta salatið standa í kæli í nokkrar klukkustundir áður en það er borið fram en það er þó ekki nauðsynlegt.


Kælandi og hressandi salat sem passar við kryddaðan mat

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án mjólkur
 • Án eggja
 • Vegan

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

 • Án hneta

Banana-, möndlu- og jógúrtsalat

Fyrir 3-4 sem meðlæti

Innihald

 • 2 msk möndluflögur
 • 2 msk rúsínur
 • 500 ml hrein mjólkurlaus jógúrt (soja/hafra/kókos)
 • 3 msk agavesíróp
 • Smá klípa kardimommuduft
 • 1 meðalstór þroskaður banani, afhýddur og skorinn í sneiðar

Aðferð


 1. Setjið rúsínurnar og möndlurnar í litla skál og setjið um 125 ml af sjóðandi vatni út á.

 2. Látið standa í 15 mínútur og látið vatnið svo renna af (setjið í sigti).

 3. Blandið möndlunum og rúsínunum, jógúrti, agavesírópi og kardimommudufti saman í skál.

 4. Bætið bananasneiðunum út í og hrærið varlega.

 5. Setjið plast yfir skálina og kælið í nokkra tíma.

Gott að hafa í huga

 • Gott er að gera salatið deginum áður en á að bera það fram.
 • Gott er að dreifa svolitlu af söxuðum möndlum yfir salatið rétt áður en maður ber það fram. Það gefur skemmtilega áferð. Það er ekki verra ef möndlurnar eru þurrristaðar á pönnu í nokkrar mínútur.
 • Nota má venjulega jógúrt ef þið neytið mjólkurvara.