Banana-, döðlu- og möndlustangir

Ef þessar orkustangir koma ykkur ekki upp síðustu metrana upp fjallið þá veit ég ekki hvað gerir það. Þær eru stútfullar af próteinum, flóknum kolvetnum, hollri fitu og meira að segja kalki! Þær eru líka gott og hollt nesti í vinnuna svona þegar maður er orðinn svangur þegar líða fer á daginn og langar í eitthvað í sætari kantinum. Mér finnst þessar orkustangir algjört æði og Jóhannesi finnst það líka, ekki síst vegna þess að þær komu honum síðustu metrana upp Kilimanjaro.

Athugið að þið þurfið matvinnsluvél til að útbúa þessa uppskrift.

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Vegan
  • Hráfæði

Banana-, döðlu- og möndlustangir

Gerir 20 stangir

Innihald

  • 460 g þurrkaðir bananar (EKKI bananaflögur), saxaðir gróft
  • 120 g döðlur, saxaðar gróft
  • 200 g möndlur 
  • 4 msk appelsínusafi

Aðferð

  1. Malið möndlurnar í matvinnsluvél í um 10 sekúndur eða þangað til þær eru orðnar nokkuð fínmalaðar án þess að þær verði olíukenndar. Setjið í stóra skál.
  2. Saxið banana og döðlur gróft og setjið í matvinnsluvélina með appelsínusafanum. Blandið í 30 sekúndur eða þangað til vel saxað án þess að verði maukað. Bætið við meiri appelsínusafa ef ykkur finnst þurfa. Blandan ætti ekki að vera að algjöru mauki samt heldur meira eins og þétt deig.
  3. Blandið öllu saman með höndunum og hnoðið vel eða notið hrærivél og deigkrók.
  4. Mótið stangir (ég miða við 40 grömm) og pakkið hverri og einni inn í plast.
  5. Það má auðvitað móta kúlur, kubba o.s.frv. allt eftir smekk.

Gott að hafa í huga

  • Það er góð tilbreyting að setja eins og 1 tsk af kanil saman við.
  • Þurrkaðir bananar eru dökkbrúnir, litlir og mjóir og seigir undir tönn. Þeir fást í heilsubúðum og í heilsudeildum stærri matvöruverslana. Þurrkaðir bananar eru EKKI það sama og hunangshúðuðu bananaskífurnar sem fást víða.

Ummæli um uppskriftina

Hulda Stefanía
25. nóv. 2010

Er eitthvað hægt að nota í staðinn fyrir döðlur í þessa uppskrift??

sigrun
25. nóv. 2010

Þú getur notað sama magn af aprikósum og jafnvel aðeins af rúsínum í staðinn.

Baldvin
19. jan. 2011

Hvað geymist þetta lengi?

sigrun
19. jan. 2011

Geymist í nokkrar vikur í kæli en nokkra mánuði í frysti.

Kv.

Sigrún

valgerður karlsdóttir
15. feb. 2011

þessir bananar sem þú talar um þarna ég hef ekki fundið þá veistu til þess að þeir fáist hér á landi?

sigrun
15. feb. 2011

Ég keypti þá alltaf í Yggdrasli (gott ef þeir voru ekki frá Rapunzel merkinu) en þeir fengust líka í heilsudeild Hagkaups í Kringlunni.

Kv.

Sigrún

ragga03
09. mar. 2011

girnilegt

María
07. apr. 2011

Má nota venjulega banana í staðinn? :)

sigrun
08. apr. 2011

Sæl María

Nei þeir eru of mjúkir. Þú getur notað þurrkaðar aprikósur í staðinn en stangirnar verða auðvitað ekki alveg eins. Þú getur prófað þig áfram með hálfan banana kannski en ég hugsa að stangirnar verði of mjúkar/blautar.

GESTUR
22. jún. 2011

Maðurinn minn er með ofnæmi fyrir sítrus ávöxtum, hverju myndir þú mæla með að nota í staðinn í stangirnar ?

sigrun
22. jún. 2011

Notaðu sama magn af vatni í staðinn :)

Kv.
Sigrún

gestur
15. jan. 2013

Er aðeins að pæla í þessum þurkuðu bönunum, er hægt að þurka þá heima og veistu hvernig það er gert?

sigrun
15. jan. 2013

Þú getur það ef þú átt þurrkofn fyrir hráfæði (eða bakar bananana við 50°C í um sólarhring eða lengur og hefur sleif á milli stafs og hurðar á ofninum). Bananarnir fást í heilsubúðum sem og í Hagkaupum Kringlunni (síðast þegar ég vissi) ef þú átt leið þar hjá.