Bakaðar sætar kartöflur með osti og tómatsalsa

Þessi uppskrift er nánast beint upp úr ofsalega góðri bók sem ég á og heitir Gluten-free Cooking. Mæli með henni fyrir þá sem þurfa að passa glútein í mat. Þó ég þurfi þess nú ekki þá finnst mér samt mjög gaman að pæla í alls kyns uppskriftum. Þessi uppskrift hentar sem sagt fyrir þá sem hafa glúteinóþol eða ofnæmi og er góð að auki. Auðvelt er að skipta út venjulegum osti fyrir sojaosti ef þið viljið. Þessi réttur er hrikalega hollur, fullur af vítamínum, flóknum kolvetnum og trefjum og hentar vel sem létt máltíð. Gefið ykkur a.m.k. klukkustundar fyrirvara fyrir þennan rétt því kartöflurnar þurfa að vera í næstum því klukkustund í ofninum (þið getið búið til salsa á meðan).


Sætar kartöflur með salsa og rifnum osti

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án eggja
 • Án hneta

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

 • Án mjólkur
 • Vegan (fyrir jurtaætur)

Bakaðar sætar kartöflur með osti og tómatsalsa

Fyrir 2

Innihald

 • 2 sætar kartöflur (275 grömm hvor)
 • 2 stórir tómatar, saxaðir smátt
 • Hálfur rauðlaukur, saxaður smátt
 • Smá klípa salt (Himalaya eða sjávarsalt)
 • 1 sellerístilkur, saxaður smátt
 • Lófafylli ferskt coriander, saxað (má sleppa)
 • 2 mtsk límónusafi
 • 2 tsk agavesíróp
 • 50 g magur ostur, rifinn

Aðferð

 1. Hitið ofninn í 200°C.
 2. Stingið mörgum sinnum í kartöflurnar með gaffli, allan hringinn og leggið þær svo á bökunarpappír.
 3. Bakið kartöflurnar í um 50 mínútur eða þangað til miðjan verður mjúk (stingið með beittum, mjóum hnífi inn í, viðnámið á að vera lítið). Hún má þó ekki vera bökuð í mauk.
 4. Afhýðið rauðlaukinn og saxið smátt. Setjið í skál með vatni og klípu af salti. Látið rauðlaukinn liggja í vatninu í a.m.k. 30 mínútur.
 5. Saxið tómatana, selleríið og coriander mjög smátt.
 6. Rífið ostinn á rifjárni.
 7. Hellið vatninu af rauðlauknum.
 8. Blandið saman tómötum, rauðlauk, selleríi, coriander, límónusafa og agavesírópi.
 9. Takið kartöflurnar úr ofninum (ekki slökkva á honum).
 10. Skerið kartöflurnar í tvennt, langsum og notið gaffal til að mauka kartöfluna aðeins að innan (gera þær mjúkar). Gætið þess að skemma ekki hýðið.
 11. Setjið kartöflurnar aftur á bökunarplötuna, dreifið ostinum yfir og stingið aftur í ofninn. Bakið í um 10 mínútur eða þangað til osturinn bráðnar.
 12. Takið kartöflurnar úr ofninum, kælið í nokkrar mínútur og dreifið salsanu yfir.
 13. Saltið örlítið (Himalaya eða sjávarsalt) og piprið ef þið viljið.
 14. Berið fram strax.

 

Gott að hafa í huga

 • Ekki þarf að útvatna laukinn eins og ég geri hér en mér finnst annars svolítið sterkt bragð af lauknum.
 • Gera má salsa með nokkurra daga fyrirvara.
 • Nota má sojaost í staðinn fyrir venjulegan ost.

Ummæli um uppskriftina

santa
16. apr. 2011

uuummm! var að enda við að sporðrenna einni og hálfri svona niður. Rosalega gott með grillkjötinu og ég hlakka til að bera þetta fram með góðum grilluðum fiski, það verður örugglega snilld saman. Þetta er svo ferskt og gott :)

sigrun
16. apr. 2011

Frábært að heyra og já kartöflurnar passa vel með fiski líka :)