Avocado- og ananasdrykkur
Þessi drykkur (smoothie) er frábær fyrir alla fjölskylduna. Ananasinn inniheldur ensímið Bromelain sem er frábært fyrir meltinguna og avocado er stútfullt af hollustu því það inniheldur m.a. einómettaða fitu, mikið af E vítamíni og ekki nóg með það þá inniheldur það oleic sýru sem er talin sporna gegn brjóstakrabbameini. Avocado er stundum kölluð „krókódílapera” vegna áferðarinnar en það er alveg örugglega ekkert krókódílakjöt í þessarri uppskrift! Drykkurinn er góður fyrir krakka en ef þið gefið mjög ungum börnum drykkinn, sleppið þá sítrónusafanum. Drykkurinn er nokkuð þykkur en hann má þynna með því að setja aðeins meiri ananassafa. Þið þurfið blandara til að útbúa drykkinn en ekki er nauðsynlegt að nota safapressu (ef þið kaupið ananassafa í fernu) en auðvitað er alltaf betra að nota ferska ávexti.
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án eggja
- Án hneta
- Vegan
- Hráfæði
Avocado- og ananasdrykkur
Innihald
- 400 g ananas (eftir verkun) eða 300 ml hreinn ananassafi
- 1 vel þroskað avocado, afhýtt og saxað gróft
- Safi úr 1 sítrónu
Aðferð
- Afhýðið ananasinn og kjarnhreinsið. Skerið 400 g af ananas og setjið hann í safapressuna. Þið þurfið um 300 ml af ananassafa. Ananas er misjafnlega safaríkur svo kannski þurfið þið eilítið meira af ananas.
- Afhýðið avocado og saxið gróft. Setjið í blandara ásamt sítrónusafanum og maukið í um 10 sekúndur eða þangað til silkimjúkt. Bætið ananassafanum út í og maukið í um 5 sekúndur.
- Hellið í könnu og berið fram strax.
- Ef notaður er ananassafi úr fernu má setja hann beint út í blandarann og mauka með avocadoinu.
- Berið fram strax í stórum glösum með ísmolum.
Gott að hafa í huga
- Ef drykkurinn er of þykkur má bæta svolítilli sojamjólk eða meiri ananassafa út í.
- Ef drykkurinn er ekki nógu sætur (hann ætti að vera það með þroskuðum ávöxtum), má setja um 2 msk af agavesírópi út í.