Avocado-, ananas- og rauðlaukssalat
Þetta salat er frísklegt og gott meðlæti með t.d. grillmat. Það minnir mikið á Afríku en uppskriftin er þó bara úr hausnum á mér (en undir miklum afrískum áhrifum). Avocado, ananas og rauðlaukur er þó mikið notað hráefni þarna suður frá enda passar þetta allt vel saman. Salatið er líka mjög hollt enda er avocado fullt af K vítamíni og einómettuðum fitusýrum (oleic acid) sem þýðir að það hefur góð áhrif á hjartað í okkur og getur hjálpað til við að lækka blóðþrýsting. Einnig er avocado fullt af trefjum og fólinsýrum sem er B vítamín og nauðsynlegt konum sem eru ófrískar (á fyrstu mánuðum) því það stuðlar að heilbrigðum þroska fóstra. Ananas er góður fyrir meltinguna því fyrir utan að vera trefjaríkur inniheldur hann meltingarensímið Bromelain sem er gott fyrir meltinguna. Hann inniheldur líka Thiamin og C vítamín ásamt steinefninu Manganese sem hefur andoxunareiginleika. Laukur á svo að hjálpa til við að sporna gegn krabbameini, inniheldur C vítamín og hefur andoxunareiginleika. Svo er salatið ljómandi frísklegt og fallegt á litinn ..og hefur því jákvæð áhrif á andlega heilsu (a.m.k. mína)!
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án eggja
- Án hneta
- Vegan
- Hráfæði
Avocado-, ananas- og rauðlaukssalat
Innihald
- Fjórðungur ananas, skorinn í bita (skerið hýði af og fjarlægið miðjuna)
- Hálfur rauðlaukur (1 ef hann er lítill), saxið smátt
- 1 vel þroskað avocado, saxað í bita
- 0,5 tsk tabasco sósa
- 3-5 fersk basilblöð, klippt í ræmur (má sleppa en gefur gott bragð)
- Salt (Himalaya eða sjávarsalt)
- Pipar
Aðferð
- Setjið saxaða laukinn í vatn ásamt smá klípu af salti og geymið í 30 mínútur. Mér finnst gott að hafa hann ekki of bragðsterkan en ef þið viljið hafa hann sterkari, skuluð þið ekki setja hann í vatn.
- Hellið vatninu af og setjið laukinn í stóra skál.
- Skerið hýði af ananasnum, skerið miðjuna úr og saxið gróft.
- Afhýðið avocadoið og saxið frekar gróft.
- Bætið ananas, avocado og tabasco sósunni út í skálina og veltið varlega til.
- Kryddið með salti og pipar.
- Klippið eða rífið basilblöð yfir salatið.
Gott að hafa í huga
- Undirbúa má allt salatið deginum, fyrir utan avocadoið, betra er að skera það ekki fyrr en rétt áður en bera á salatið fram (verður annars brúnt). Ef þið undirbúið allt salatið (og avocadoið) með einhverjum fyrirvara er best að dreypa sítrónudropum yfir salatið að pakka því vel inn í plastfilmu.
- Nota má hunangsmelónu í staðinn fyrir ananas.
Ummæli um uppskriftina
23. feb. 2014
Þetta fannst mér frábært og fleirum sem smökkuðu hjá mér.
23. feb. 2014
Gaman að heyra Ása!!!