Ávaxtasalat frá Afríku
Á öllum hótelum sem ég hef komið á í Austur Afríku (og þau eru mörg) er borið fram einhvers konar ávaxtasalat í bland við kökur og pönnukökur og fleira góðgæti fyrir svanga ferðamenn. Ég fer að sjálfsögðu alltaf beinustu leið í ávaxtaskálina enda lítið fyrir mig að hafa á hinum svæðunum. Það gerir þó ekkert til því ávaxtasalötin eru alltaf góð. Reyndar veiði ég alltaf papaya ávöxtinn úr því mér finnst hann aaaaaalgjör viðbjóður og ég nota því mango í staðinn í mitt salat. Mango er þó mikið notað í Afríku svo ég er ekkert að svindla. Eina svindlið í mínu salati er að ég nota vínber en vínber eru sjaldséðir gestir á þessum slóðum. Ástaraldin er ómissandi í þetta salat en það er einmitt afríski punkturinn yfir i-ið. Það er fátt betra en að enda viðburðarríkan og heitan ævintýradag í Afríku á ávaxtasalati og tebolla (sumir reyndar kjósa kökusneið og koníak!). Það er bara ein regla sem ég hef með svona salöt. Hún er: ALDREI, ALDREI skilja eftir steina í melónum eða vínberjum. Það er fátt leiðinlegra en að bíta í gómsætt salat til þess eins að skyrpa út úr sér bragðvondum steinum. Steinar úr ástaraldinum sleppa fyrir horn því þá á að borða. Þetta salat er pakkfullt af vítamínum og trefjum og er sérlega sumarlegt.
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án eggja
- Án hneta
- Vegan
- Hráfæði
Ávaxtasalat frá Afríku
Innihald
- Fjórðungur ananas, vel þroskaður
- Fjórðungur vatnsmelóna, vel þroskuð
- 1 mango, vel þroskað. Nota má papaya ef þið viljið í staðinn
- 3 ástaraldin (enska: passion fruit), (veljið þunga og krumpaða ávexti)
- 1 banani, ágætlega þroskaður
- 1 lúka græn, steinalaus vínber (bara upp á litinn, má sleppa)
Aðferð
- Gott er að miða við að hafa alla bitana jafn stóra eða álíka og sykurmola að stærð.
- Skerið ananasinn í bita.
- Skerið vatnsmelónuna í bita og fræhreinsið.
- Skerið mangoið í bita (sneiðið meðfram steininum með löngum hnífi, afhýðið og notið svo bara það sem þið getið skorið í jafna bita. Afganginn má frysta og nota síðar).
- Skerið vínberin í helminga, fræhreinsið ef þarf.
- Skerið banana í frekar grófar sneiðar.
- Blandið öllu saman í stóra skál. Til að merja ekki ávextina er gott að setja lúku af hverjum ávexti ofan í skálina og fylla hana þannig. Þannig þarf maður ekki að hræra mikið.
- Skerið ástaraldinin í helminga og skafið allt úr þeim yfir salatið.
- Setjið plast yfir skálina ef ekki á að bera salatið fram strax.
- Ef salatið er ekki nægilega sætt (t.d. ef ananasinn er ekki nægilega vel þroskaður) má setja eins og 50 ml af hreinum appelsínusafa yfir salatið.
Gott að hafa í huga
- Til að velja þroskaðan ananas: ef þið potið í botninn á honum ætti hann að gefa aðeins eftir, lyktin af botninum ætti að vera sæt og þung ananaslykt og þið ættuð að geta plokkað blað úr krónunni auðveldlega.
- Til að velja þroskaða melónu: prófið að ýta á endana á melónunni, þeir ættu að gefa aðeins eftir. Melónan á að virka mjög þung miðað við stærð ef þið haldið á henni og ef þið bankið í hana ættuð þið að finna smá hreyfingu í kjötinu (ekki gott að útskýra ha ha).
- Til að velja þroskað ástaraldin: ávöxturinn á að virka þungur eða álíka eins og tómatur. Hýðið á að vera krumpað.