Austurlenskar fimm krydda grænmetisnúðlur
28. febrúar, 2003
„Fimm-krydda" hljómar kannski flókið, en er í raun er hægt að kaupa samnefnt krydd í flestum stærri matvöruverslunum og heitir þá yfirleitt „five spice" eða „chinese five spice". Þýðingin er hræðileg hjá mér, ég veit, tillögur eru vel þegnar :) Þetta er fínn svona „taka til í ísskápnum" réttur því það er hægt að setja fullt af mismunandi grænmeti í réttinn. Gott er að eiga Wok pönnu til að útbúa þennan rétt en nota má djúpa pönnu í staðinn. Athugið að svolítið maus er að útbúa svona rétti svo mér finnst best að útbúa mikið í einu og eiga fyrir a.m.k. 2 daga.
Soba núðlur eru glúteinlausar en nota má aðrar núðlur í þennan rétt. Athugið einnig að ég nota sesamolíu en ef þið hafið ofnæmi fyrir sesamfræjum má að sjálfsögðu sleppa henni.
Þessi uppskrift er:
- Án mjólkur
- Án eggja
- Án hneta en með fræjum
- Án hneta
- Vegan
Austurlenskar fimm krydda grænmetisnúðlur
Fyrir 3-4
Innihald
- 225 g soba núðlur (eða einhverjar aðrar núðlur sem ykkur finnst góðar)
- 1 msk kókosolía
- 1 tsk sesamolía
- 2 gulrætur, skornar í mjóa stöngla
- 1 sellerístöngull, skorinn í mjóa stöngla
- 1 lítill fennel haus, skorinn í mjóa stöngla
- 2 kúrbítar (enska: courgette), skornir í hálft og sneiddir (í litla hálfmána)
- 1 rauður chili pipar, saxaður smátt
- 2,5 sm biti engifer, ferskt, saxað mjög smátt
- 3 vorlaukar, saxaðir smátt
- 1 hvítlauksgeiri, marinn
- 1,5 tsk kínverskt krydd (Chinese Five-Spice Powder)
- 0,5 tsk kanill
- 50 ml heitt vatn
Aðferð
- Sjóðið núðlurnar samkvæmt leiðbeiningum, skolið með köldu vatni og setjið til hliðar.
- Skerið gulræturnar og selleríið í örmjóar ræmur, eins og tannstöngla.
- Skerið fennelhausinn í tvennt, takið út harða kjarnann og skerið svo í örmjóar ræmur, eins og tannstöngla.
- Skerið kúrbítinn í hálft og sneiðið í litla hálfmána.
- Afhýðið engiferið og saxið mjög smátt.
- Saxið vorlaukana smátt (báða enda).
- Afhýðið hvítlauksgeirann og merjið.
- Raðið grænmetinu í litlar skálar við eldavélina.
- Hitið wok pönnu eða djúpa pönnu þangað til hún er orðin brennandi heit. Hitið kókosolíu þangað til hún er orðin mjög heit.
- Hitið engifer, chili pipar og hvítlauk í nokkrar mínútur.
- Bætið öllu hinu grænmetinu við og steikið í 7-8 mínútur. Ef vantar meiri vökva, bætið þá svolitlu vatni út í.
- Bætið kanil og kínverska kryddinu saman við og steikið í 1 mínútu.
- Bætið vorlauknum út í og steikið í 1 mínútu.
- Hellið heita vatninu yfir og sjóðið í 1 mínútu.
- Bætið núðlunum við og hrærið vel.
- Hellið sesamolíunni yfir og berið fram strax.
Gott að hafa í huga
- Hægt er að nota sveppi, bambussprota, baunaspírur, egg, tofu, paprikur eða water chestnuts í staðinn fyrir eitthvað af ofan töldu grænmetinu.
- Nota má aðrar núðlutegundir í staðinn fyrir soba núðlur t.d. udon núðlur eða heilhveitinúðlur.
- Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
- Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2025