Austur-afrísk grænmetissúpa með hnetum og sætum kartöflum
Þessi súpa er rosa fín og matarmikil. Ég held að það sé ekki til fullkomnari haustsúpa, svei mér þá. Súpan er einstaklega holl því hún inniheldur tómata, engifer, sætar kartöflur, hnetur og margt fleira hollt og gott. Þar sem ég er nýkomin frá Afríku þegar þetta er skrifað þá langar mig helst að elda bara afrískan mat. Maturinn sem við fáum í Kenya er alltaf góður og bragðmikill án þess að vera of sterkur eða kryddaður. Hann er ekkert ósvipaður indverskum mat að sumu leyti þ.e. miðað við notkun á sumum kryddum eins og kanil, cumin og svo kartöflum, spínati og fleiru. Það þægilega við súpuna er að maður getur skorið grænmetið mjög gróft því það fer allt saman í matvinnsluvél! Súpan er því sérlega fljótleg í undirbúningi.
Súpan er mjólkurlaus, glúteinlaus og hentar jurtaætum (enska: vegan).
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án eggja
- Vegan
Austur-afrísk grænmetissúpa með hnetum og sætum kartöflum
Innihald
- 1 msk kókosolía
- 1 laukur, saxaður gróft
- 2 hvítlauksgeirar, saxaðir gróft
- 2 g ferskt engifer, saxað smátt
- 0,5 msk cumin (ekki kúmen)
- 1 msk coriander
- 1 tsk kanill
- 1 tsk negull
- 250 g tómatar, saxaðir gróft
- 450 g sætar kartöflur, saxaðar gróft
- 1 stór gulrót, söxuð gróft
- 750 ml vatn
- 1 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
- 1 gerlaus grænmetisteningur
- 20 g cashew hnetur, þurrristaðar á pönnu
- 1 tsk cayenne pipar (má sleppa)
- 1 msk hnetusmjör (hreint og án viðbætts sykurs)
- Nokkur corianderlauf (má sleppa)
Aðferð
- Afhýðið laukinn, hvítlaukinn, engiferið, gulræturnar og sætu kartöflurnar og saxið allt gróft.
- Saxið tómatana einnig gróft.
- Hitið kókosolíuna í stórum potti. Hitið laukinn í um 7 mínútur eða þangað til hann er orðinn mjúkur. Ef vantar meiri vökva á pönnuna, notið þá vatn.
- Bætið hvítlauk, engiferi, cumin, coriander, kanil og negul saman við.
- Bætið tómötunum, sætu kartöflunum og gulrótinni saman við. Hitið í um 5 mínútur.
- Hellið 750 ml af vatni út í pottinn ásamt grænmetisteningnum.
- Látið suðuna koma upp og leyfið þessu að malla í um 30 mínútur eða þangað til grænmetið er orðið mjúkt.
- Takið súpuna af hellunni og látið kólna í nokkrar mínútur.
- Á meðan skuluð þið hita pönnu (án olíu) og þurrrista hneturnar í um 2 mínútur.
- Hellið súpunni í matvinnsluvél ásamt þurrristuðu hnetunum og hnetusmjörinu og blandið þangað til allt er orðið vel maukað. Áferðin fer eftir smekk ykkar þ.e. ef þið viljið hafa grænmetisbita í súpunni getið þið blandað hana skemur en maukið lengur fyrir mýkri áferð. Einnig má nota töfrasprota eða blandara.
- Hellið súpunni nú í pottinn og hitið vel.
- Saltið og piprið eftir smekk.
- Dreifið nokkrum corianderlaufum yfir súpuna áður en hún er borin fram.
Gott að hafa í huga
- Berið fram með snittubrauði eða öðru góðu brauði.
- Súpan er enn þá betri daginn eftir.
- Ef þið viljið hafa súpuna grófari, má mauka grænmetið minna.
- Frysta má súpuna og hita upp síðar.
- Nota má ósaltaðar jarðhnetur í staðinn fyrir cashewhnetur.
- Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
- Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.
- Gerlausir grænmetisteningar fást í heilsubúðum og stærri matvöruverslunum.
- Ef þið eruð ekki viðkvæm fyrir geri getið þið notað venjulega, lífrænt framleidda grænmetisteninga.
Ummæli um uppskriftina
23. feb. 2011
Þessi súpa er svakalega bragðgóð, ég var mjög hrifin af samspili kryddanna.
23. feb. 2011
Gaman að heyra Sigríður og takk fyrir að deila :)
19. jún. 2011
Þessi er alveg fáránlega góð! jiddúdamía!!! Meira segja kallinn sagði "vá hvað ég hlakka til að fá afganginn af súpunni í kvöldmatinn á morgun!"
hér er bloggfærsla um súpuna :)
http://barbietec.com/subpage2.php?BloggID=3536
25. ágú. 2011
Mér fannst þessi súpa æðislega góð. Ég sleppti tómötunum því þeir komust ekki í pottinn og samspil sætu kartöflunnar og kryddana var yndisleg. Ég hreinlega elska síðuna þína. Hef prófað ýmislegt. Álfheiður
26. ágú. 2011
Gaman að heyra Álfheiður, takk fyrir að deila með okkur :)
01. sep. 2011
Nú er haustið komið og ætla að elda þessa í kvöld, hún er æðislega góð.
01. sep. 2011
Er ekki bara upplagt að henda í súpuna í kvöld ;) Hún hlýjar og nærir :)
11. nóv. 2011
Þessi súpa er alveg rosalega góð. Eldaði hana á köldu haustkvöldi hér í Berlín.
Ég notaði hokkaido grasker í stað sætra kartaflna, því það flæðir allt í graskerum núna. Hlakka til að prófa hana með sætum kartöflum.
Takk kærlega fyrir mig Cafe Sigrún, hef mikið notað uppskriftirnar frá þér.
11. nóv. 2011
Gaman að heyra Júlía og takk fyrir að deila. Mér líst vel á graskerið! Um að gera að nota 'in season'.
06. feb. 2012
Þessi súpa er í alla staði alveg dásamleg! Kryddin eru algjört yndi og ilmurinn í íbúðinni minnti mig óneitanlega á piparkökur og jólin :)
06. feb. 2012
Ha ha piparkökur eru óneitanlega ekki eitthvað sem ég tengdi við austur-afríska súpu en ég veit hvað þú meinar :) Gott að súpan var góð. Ég mæli með að gera heilan helling af henni og frysta svo til að hita upp síðar...hún verður ekki síðri með smá geymslu.
10. jún. 2012
Sæl Sigrún,
Frábær súpa! Hvað heldurðu að næringarhlutföllin (kaloríur, prótein, kolvetni, fita) séu í henni, svona sirka?
10. jún. 2012
Sæl Embla
Úff ég hef algjörlega enga hugmynd um næringarhlutföllin og vil ekki giska. Kíktu á þennan tengil hér, þú ættir að geta reiknað út hlutföllin :) http://caloriecount.about.com/
20. jún. 2013
Sæl Sigrún.
Þessa súpu ætla ég sko að prófa í kvöld, hlakka mikið til. Takk kærlega fyrir síðuna þína og allar þessar dásamlegu uppskriftir. Ég hef talsvert eldað af þeim, á t.d. alltaf linsu- og kjúklingabaunabuff í frystinum, elda oft súpur og finnst allt sem ég hef eldað af síðunni æðislegt!
Takk enn og aftur og ég hvet þig til að halda áfram að deila með okkur uppskriftum og fróðleik.
20. jún. 2013
Takk Ágústa, mér þykir reglulega vænt um að heyra það.
23. júl. 2013
Gerði þessa í kvöld. Við kallinn vorum svolítið lengi að venjast bragðinu og vorum sammála um að hún væri góð en það væri svona "nýtt og öðruvísi" bragð. Þegar við hættum að smjatta á hverjum bita og fórum að borða eðlilega vandist hún vel:) Mjög góð, geri hana pottþétt aftur:)
23. júl. 2013
Ha ha ég hefði viljað vera fluga á vegg í kvöldmatnum ykkar :) Gott að ykkur þótti hún góð samt :)
19. sep. 2013
Unadslega god, naut hennar i botn ein heima a fallegu haustkvøldi:) Takk fyrir frabærar uppskriftir, annars!
01. jún. 2014
Þessi er góð! Maðurinn minn rambaði á súpuna sjálfur við kvöldmatargerðina "hún er sko þarna af Soffíu kaffi" hahaha ;) Eina sem ég sagði honum var að fara varlega í negulinn, ég var hrædd um að of mikið af honum yrði eitthvað skringilega jólakökulegt, en hún varð bara æði og börnin hámuðu súpuna í sig. Sú eins og hálfs skammaði mig þegar diskurinn minn var tómur og sagði bara "meira nammi mamma" og gaf sig ekki fyrr en ég hafði sett ríkulega aftur á diskinn ;)
Takk takk!
01. jún. 2014
Ha ha dásamlegt. Þið fáið alveg verðlaunin fyrir krúttlegasta kommentið so far 2014 ;)
14. des. 2014
Langar að elda þessa annað kvöld, en mig langar að vita hver er munurinn á kúmen og cumin? :)
14. des. 2014
Cumin er broddkúmen, stundum kallað jeerah seeds (notað mikið í indverskri matargerð) en kúmen er kryddið sem er meðal annars notað í kringlurnar íslensku. Broddkúmen fæst í flestum stærri matvöruverslunum. Vona að súpan heppnist vel!!!
16. apr. 2018
ég er 8 ára og ég er að hjálpa mömmu minni að búa til súpuna og ilmurinn er mjög góður.
16. apr. 2018
Vá en þú dugleg að aðstoða við súpugerðina! Ég er ofsalega glöð að heyra að ilmurinn sé góður og ég vona að súpan bragðist vel líka!
Bestu kveðjur
Sigrún