Ástaraldin- og mangodrykkur

Þessi drykkur er Afríka í glasi (eða að minnsta kosti Tanzanía og Kenya í glasi). Það er ekkert sem hefur minnt mig jafn mikið á þessa staði eins og fyrsti sopinn sem ég tók af þessum drykk þegar ég var að búa hann til. Hann er alveg hreint dásamlega frískur og góður, mitt á milli þess að vera súr og sætur og er upplagður sem sumardrykkur. Á ferðalögum okkar um þessar slóðir kaupum við gjarnan ferska safa hvers konar, og það er fátt betra en að koma t.d. úr morgunsafaríi, svolítið syfjaður en upprifinn eftir ævintýri morgunsins (t.d. eftir að hafa séð ljón, fíla eða blettatígur!!!) og koma beint í morgunmat þar sem svalandi ávaxtadrykkur bíður manns. Fyrir utan að vera frískandi þá er safinn afar hollur því mango er fullt af andoxunarefnum, trefjum, A, K og E vítamíni og inniheldur kalíum (potassium) eins og bananar en kalíum leikur stórt hlutverk í að halda blóðþrýstingi í lagi o.fl. Ástaraldin (sem heitir á ensku Passion Fruit inniheldur svipaða vítamínbombu.

Athugið að þegar þið veljið ástaraldin, á ávöxturinn að virka svolítið þungur miðað við stærð og hýðið á að vera svolítið krumpað (virkar ekki girnilegt en þannig er það þroskað). Ef ykkur finnst steinarnir í ástaraldinum ekki góðir (þeir eru ætir) má láta safann renna fyrst í gegnum sigti.

Blandara þarf til að útbúa þennan drykk.


Hreint út sagt dásamlega frískandi drykkur

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta
  • Vegan
  • Hráfæði

Ástaraldin- og mangodrykkur

Fyrir 2

Innihald

  • Nokkrir ísmolar
  • 1 mango (lítið), vel þroskað
  • 6 ástaraldin (brún/vínrauð), vel þroskuð
  • 200 ml hreinn appelsínusafi

Aðferð

  1. Afhýðið mangoið og skerið í litla bita (þó þeir fari í blandara er best að skera það í litla bita vegna trefjanna sem eru í mangoi).
  2. Skerið ástaraldin í helminga.
  3. Setjið ísmolana í blandarann og hellið svolitlu af safanum út á. Blandið í nokkrar sekúndur.
  4. Setjið mangobitana í blandara ásamt afganginum af appelsínusafanum og blandið í 10 sekúndur eða þangað til allt er vel maukað. Bætið meiri appelsínusafa út í ef ykkur finnst þurfa.
  5. Skafið kjötið úr ástaraldin helmingunum með skeið ofan í blandarann.
  6. Blandið áfram í 2 sekúndur og berið fram strax.

Gott að hafa í huga

  • Einnig má nota ananassafa eða eplasafa.
  • Nýpressaðan safa borgar sig að drekka strax og hann er tilbúinn því annars nær hann að oxast.