Appelsínu- og engiferkaka

Þessi kaka er án glúteins og hentar því vel fólki sem þolir glútein illa eða hefur ofnæmi fyrir því. Kakan er mjög góð með kaffinu og er frískleg á bragðið. Ekki hafa áhyggjur af því þó að það sé tofu í kökunni, það finnst ekkert bragð af því! Kakan þarf að bakast í rúma klukkustund svo gerið ráð fyrir því ef þið eruð að fá fólk í kaffi! Þessi uppskrift kemur úr bók sem ég á sem heitir The gluten-free cookbook. Kakan er bæði próteinrík sem og kalkrík og hentar sérlega vel í lautarferðina af því hún er svo sumarleg og frískandi.

Athugið að í upprunalegu uppskriftinni áttu að vera 250 g af hvítum sykri en ég minnkaði hlutfallið í 150 g af rapadura hrásykri. Athugið einnig að þið þurfið 20 sm bökunarform til að baka kökuna í og einnig þurfið þið matvinnsluvél til að mala hneturnar og möndlurnar.


Appelsínu- og engiferkaka, glúteinlaus

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur

Appelsínu- og engiferkaka

Gerir 1 köku

Innihald

  • 150 g tofu (stíft), vatninu hellt af
  • 200 g brasilíuhnetur, malaðar
  • 100 g möndlur, malaðar
  • Hýði af 2 appelsínum
  • 325 g ferskur ananas, afhýddur og saxaður gróft
  • 40 g ferskt engifer, afhýtt og saxað smátt
  • 150 g rapadura hrásykur (eða annar hrásykur)
  • 4 egg
  • 2 eggjahvítur
  • 1,5 tsk vínsteinslyftiduft
  • 125 g kartöflumjöl

Aðferð

  1. Hellið vatninu af tofuinu og myljið í stóra skál.
  2. Rífið appelsínubörkinn á rifjárni. Gætið þess að rífa einungis börkinn en ekki hvíta hlutann.
  3. Afhýðið engiferið og saxið smátt.
  4. Afhýðið ananasinn, hreinsið kjarnann úr og saxið gróft.
  5. Setjið brasilíuhneturnar og möndlurnar í matvinnsluvél og malið í 20 sekúndur eða þangað til hneturnar fara að líkjast fínni brauðmylsnu.
  6. Bætið kartöflumjölinu og lyftiduftinu saman við og blandið í 2 sekúndur.
  7. Bætið appelsínuberkinum saman við og blandið í 5 sekúndur.
  8. Bætið nú innihaldi matvinnsluvélarinnar saman við tofuið í stóru skálinni.
  9. Setjið ananasinn, engiferið og rapadura hrásykurinn í matvinnsluvélina (þarf ekki að þrífa hana á milli) og blandið í 10-15 sekúndur eða þangað til allt er orðið svolítið maukað (svona eins og gróft marmelaði).
  10. Blandið saman við tofuið og hneturnar.
  11. Hrærið saman eggjahvítunum og eggjunum og blandið saman við deigið í skálinni.
  12. Klæðið 20 sm kringlótt smelluform (eða lausbotna form) með bökunarpappír. Hellið deiginu í smelluformið.
  13. Bakið við 180°C í um 1 klukkustund og 20 mínútur.
  14. Ekki vera stressuð yfir því að deigið sé eins og súrmjólk (þ.e. blautt) því það mun þéttast mjög í bakstri.
  15. Til að athuga hvort kakan er tilbúin er gott að stinga prjóni í hana miðja. Ef prjónninn kemur hreinn út er kakan tilbúin. Ef hún er ekki tilbúin er gott að baka í 10 mínútur í viðbót og prófa svo aftur. Ef þið bakið kökuna lengur er gott að setja álpappír ofan á hana til að hún bakist of mikið að ofan.
  16. Skreytið kökuna með þunnum appelsínsneiðum.

Gott að hafa í huga

  • Kakan lyftist ekki mikið heldur verður hún frekar þétt og blaut og er einstaklega góð með t.d. með þeyttum rjóma, cashewhneturjóma eða hollum ís. Sérstaklega ef hún er borin fram heit.
  • Nota má ananas úr dós en gætið þess að hann sé ekki sykurbættur (í sírópi).
  • Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.