Ananas- og bláberjadrykkur

Þessi bláberjadrykkur (smoothie) er sannkallaður vítamíndrykkur. Í bláberjum eru sterk andoxunarefni, B og C vítamín ásamt kalín og kalki og fleira. Í ananas er hellingur af C vítamíni, fólinsýru, A vítamíni og B vítamínum, kalín og kalki, magnesíum og fleira. Ananas inniheldur einnig ensímið bromelain sem hjálpar við niðurbrot á próteinum og er því gott fyrir meltinguna. Svo er drykkurinn ansi bragðgóður í þokkabót!

Athugið að þið þurfið blandara til að útbúa þennan drykk.

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta
  • Vegan

Ananas- og bláberjadrykkur

Fyrir 2-3

Innihald

  • Nokkrir ísmolar
  • 200 ml hreinn ananassafi
  • 150 g fersk bláber
  • 100 ml sojajógúrt (eða hrein jógúrt/AB mjólk)
  • 1 vel þroskaður, stór banani
  • 1 msk hreint agavesíróp eða hlynsíróp (enska: maple syrup) ekki víst að þurfi

Aðferð

  1. Setjið ísmolana í blandarann og hellið svolitlu af safanum út á. Blandið í nokkrar sekúndur.
  2. Bætið banananum út í ásamt sojajógúrti og blandið vel í um 5 sekúndur.
  3. Bætið bláberjum og ananassafa saman við og blandið í um 5 sekúndur.
  4. Smakkið til með agavesírópi eða hlynsírópi ef þarf.
  5. Bætið við meira af jógúrti eða safa ef þarf.

Gott að hafa í huga

  • Fyrir þynnri útgáfu af drykknum má nota sojamjólk í stað sojajógúrts.
  • Nota má fersk eða frosin bláber.
  • Drykkinn er best að drekka strax.