Vanilluís

Þetta er ansi holl útgáfa af jóla-vanilluís. Það er enginn rjómi, engin egg og enginn hvítur sykur í ísnum. Ég notaði kókosolíu, agavesíróp og möndlumjólk. Döðlurnar gefa líka sætt bragð. Vanillubragðið er nokkuð áberandi en mér finnst það mjög gott. Þið getið notað 1 vanillustöng ef þið eruð ekki eins hrifin og ég af vanillubragðinu. Hægt er að bæta dökku súkkulaði út í en einnig má setja myntu, kakó/carob, hnetur, ber o.fl. út í ísinn. Það er ekki oft sem maður getur sagt að ísinn sem maður er að borða sé trefjaríkur, próteinríkur, kalkríkur og með hollri fitu! Ég notaði vanillustangir sem ég keypti í kryddskóginum á Zanzibar en þið þurfið ekki að fara svo langt sem betur fer því vanillustangir fást bæði í heilsubúðum og öðrum búðum. Ég mæli samt með því að þið farið einhvern tímann til Zanzibar enda dásamleg eyja! Möndlumjólk má kaupa í flestum verslunum.

Athugið að ekki er nauðsynlegt að nota ísvél til að útbúa þessa uppskrift en nauðsynlegt er að nota blandara eða matvinnsluvél.


Hollur og góður vanilluís án mjólkur, rjóma eða eggja

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta
  • Vegan

Vanilluís

Fyrir 5-6

Innihald

  • 1,25 lítri sæt möndlumjólk (eða önnur mjólk), við stofuhita
  • 2 vanillustangir, skafið fræin úr
  • 120 g döðlur, saxaðar gróft
  • 125 ml agavesíróp
  • 4 msk kókosolía

Aðferð

  1. Saxið döðlurnar gróft og setjið þær í blandara ásamt 250 ml af möndlumjólk. Blandið af fullum krafti í um 30 sekúndur eða þangað til döðlurnar eru farnar að maukast. Bætið agavesírópi og kókosolíu út í og blandið áfram í 30 sekúndur.
  2. Skerið vanillustangirnar í helming, langsum og skafið fræin út í blandarann.
  3. Hellið í stóra skál og bæti afganginum af mjólkinni saman við.
  4. Bætið afgangnum af mjólkinni saman við og hrærið vel.
  5. Ef notuð er ísvél: Setjið blönduna í ísvél í um 30 mínútur og setjið svo í plastbox. Setjið boxið í frystinn og frystið í nokkrar klukkustundir eða þangað til ísinn er tilbúinn.
  6. Ef ekki er notuð ísvél:
  7. Hellið blöndunni í grunnt plastbox og setjið í frystinn. Takið út frystinum á um hálftíma - klukkustundar fresti og brjótið ískristallana ef þeir myndast. Endurtakið þangað til erfitt er orðið að hræra í blöndunni.
  8. Látið ísinn þiðna í ísskáp í um 30-40 mínútur áður en hann er borinn fram. Þannig verður auðveldara að skafa úr boxinu.

Gott að hafa í huga

  • Gott er að nota dökkt, lífrænt framleitt súkkulaði, með hrásykri út í ísinn. Saxið það mjög smátt og setjið út í.
  • Nota má léttmjólk, hrísmjólk, haframjólk eða sojamjólk í staðinn fyrir möndlumjólk. Ef notuð er ósætt mjólk, þarf að bæta um 2 msk af agavesírópi út í ísinn til viðbótar.
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Nota má hreint hlynsíróp (enska: maple syrup) í staðinn fyrir agevesíróp.
  • Gott er að geyma vanillustangirnar sem búið er að skafa fræin úr, í krukku með hrásykri. Eftir nokkrar vikur verðið þið komið með þennan líka fína vanillusykur!

Ummæli um uppskriftina

gestur
05. mar. 2012

hvar getur maður fengið vanillustangir???

sigrun
05. mar. 2012

Í flestum stærri matvöruverslunum (bakstursdeildinni) sem og heilsubúðum.

Sóley E
12. okt. 2012

Eg a til vanilluduft, hvad myndir thu setja mikid af thvi i stadin fyrir stangirnar?

sigrun
12. okt. 2012

Hmmm fer alveg tegundinni. Ég myndi giska á 1/4 til 1/2 teskeið?

Sóley E
12. okt. 2012

Þetta er rapunzel bourbon vanilluduft.

Þegar ég hef notað þetta finnst mér oft vera frekar lítið vanillu bragð.

sigrun
12. okt. 2012

Það er spurning um að prufa 1 - 1,5 tsk og láta blönduna standa í um 30 mínútur og smakka svo til. Það á að vera frekar einkennandi vanillukeimur af ísnum.

Sóley E
12. okt. 2012

prófa það takk