Töfradrykkur fyrir krakka

Þessi er heldur betur upplagður fyrir krakka. Litirnir eru svo skemmtilegir og ef maður hrærir í drykknum þá breytast litirnir eins og fyrir töfra. Drykkurinn er fullur af vítamínum og andoxunarefnum ásamt kalki úr mjólkinni. Ef börnin þola illa mjólk má auðveldlega skipta út venjulegu mjólkinni fyrir þá mjólk sem barnið drekkur venjulega t.d. sojamjólk, haframjólk, möndlumjólk eða hrísmjólk

Athugið að þið þurfið blandara til að útbúa þennan drykk.
 

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án eggja
 • Án hneta

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

 • Vegan (fyrir jurtaætur)

Töfradrykkur fyrir krakka

Fyrir 2-3 krakka

Innihald

 • 2 stórir ísmolar
 • 150 ml mjólk
 • 100 g bláber
 • 1 vel þroskaður banani
 • 1 vel þroskuð pera, kjarnhreinsuð og skorin í bita

Aðferð

 1. Kjarnhreinsið peruna og skerið í bita.
 2. Setjið ísmolana í blandarann, setjið 1 msk af vatni yfir ísmolana og blandið í nokkrar sekúndur.
 3. Setjið bananann og peruna út í blandarann ásamt 100 ml af mjólkinni. Blandið í um 10 sekúndur eða þangað til vel maukað, blandan á að vera nokkuð þykk. Hellið í könnu.
 4. Skolið blandaraskálina.
 5. Setjið bláberin í blandarann og afganginn af mjólkinni. Blandan á að vera mjög þykk en ef hún blandast illa, blandið þá nokkrum matskeiðum af mjólk saman við.
 6. Hellið nú bananablöndunni í stórt glas, fyllið aðeins meira en helminginn af glasinu.
 7. Hellið nú bláberjablöndunni ofan á (notið stóra matskeið og hellið bláberjablöndunni varlega ofan á bakhliðina á skeiðinni. Bláberjablandan á nefnilega að liggja ofan á bananablöndunni svo það þarf að vanda sig svolítið).
 8. Leyfið drykknum að standa í 5 mínútur.
 9. Berið fram með mjórri teskeið og hrærið í drykknum áður en hann er drukkinn. Hann verður ofsalega fallegur á litinn!!! Hver veit nema maður geti galdrað eitthvað með honum líka!

Gott að hafa í huga

 • Nota má hunangsmelónu í stað peru.
 • Athugið að mjög ung börn ættu ekki að drekka sojamjólk nema í samráði við lækna eða næringarfræðinga. Hið sama gildir um hrísmjólk, möndlumjólk og haframjólk.
 • Drykkurinn er mjög góður fyrir fullorðna líka!!!