Þorskur í ofni

Ég hef ekki borðað þorsk síðan sumarið 2003 þegar ég lenti í „„atvikinu”. Við vorum með matarboð úti í garði í London í æðislegu veðri. Íslensku gestirnir borðuðu matinn með bestu lyst en fannst dáldið skrítið að ég væri með spaghetti í matnum, sögðu að sjálfsögðu ekki neitt þar sem þau voru voða kurteis. Þeim fannst líka dáldið skrítið þegar ég öskraði og henti allt í einu öllum matnum af diskinum mínum aftur fyrir mig, í brjálæðiskasti, beint á plómutréð í garðinum!!! Það var sem sagt á þessum tímapunkti sem ég kom auga á spaghettiið=ormana í þorskinum, vel eldaða og stinna. Ég er dáldið viðkvæm fyrir svona ógeði í mat, hef mjög lágan ógeðsþröskuld og borða ALDREI þorsk aldrei.nokkurn.tímann.aftur.á ævinni (reyndar ekki steinbít heldur). Það er sem sagt ástæðan fyrir því að rétturinn heitir Þorskur í ofni og að í uppskriftinni er ýsa. Andskotans ormar.

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án eggja
 • Án hneta

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

 • Án mjólkur

Þorskur í ofni

Fyrir 3-4

Innihald

 • 1 tsk kókosolía og vatn til viðbótar ef þarf
 • 1 stk laukur, sneiddur þunnt
 • 2 stk hvítlauksrif, söxuð smátt
 • 1 rauð paprika, sneidd frekar þunnt
 • 1 græn paprika, sneidd frekar þunnt
 • 350 g niðursoðnir tómatar, saxaðir
 • 2 msk tómatmauk (puree)
 • 2 msk fersk basil eða steinselja, saxað
 • 300 ml vatn
 • 1 gerlaus grænmetisteningur
 • 2 msk af fiskisósa (Nam Plah)
 • 2 tsk kartöflumjöl blandað saman við 2 msk kalt vatn
 • 8 svartar ólifur, skornar í hálft
 • 600 g ÝSUfillet, roðlaust og beinlaust 
 • Smá klípa salt (Himalaya eða sjávarsalt)
 • Svartur pipar eftir smekk
 • 100 g magur ostur, rifinn (má sleppa)

Aðferð

 1. Afhýðið lauk og hvítlauk. Saxið smátt.
 2. Skerið paprikurnar langsum, fræhreinsið og skerið í sneiðar.
 3. Sneiðið ólífurnar og saxið basilblöðin.
 4. Hitið kókosolíu á stórri pönnu og steikið laukinn og hvítlaukinn í u.þ.b. 2-3 mínútur, hrærið stöðugt.
 5. Setjið út á pönnuna; paprikurnar, tómatana, ólifurnar, grænmetisteninginn, vatnið, tómatmaukið og næstum öll basilblöðin. Hrærið öllu vel saman og látið suðuna koma upp.
 6. Hrærið saman kartöflumjöli og vatni og hellið út á pönnuna. Látið sjóða í um 2 mínútur eða þangað til þykknar í vökvanum á pönnunni, hrærið stöðugt í.
 7. Skerið fiskinn í 4 bita og setjið hann í eldfast mót (óþarfi að smyrja mótið). Látið allt af pönnunni ofan á hann.
 8. Rífið ostinn og dreifið honum yfir.
 9. Dreifið afganginum af söxuðu basilblöðunum yfir.
 10. Hitið í um 20-30 mínútur við 180°C.

Gott að hafa í huga

 • Berið fram með t.d. hýðishrísgrjónum, byggi, salati og snittubrauði.
 • Það má að sjálfsögðu nota þorsk frekar en ýsu (eða jafnvel steinbít eða lúðu) ef ykkur finnst það betra.
 • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
 • Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.
 • Gerlausir grænmetisteningar fást í heilsubúðum og stærri matvöruverslunum.
 • Ef þið eruð ekki viðkvæm fyrir geri getið þið notað venjulega, lífrænt framleidda grænmetisteninga.

Ummæli um uppskriftina

Eyrún Oddsdóttir
05. des. 2011

Sæl. Kannski svona fyrst þá vil ég þakka fyrir síðuna þína. Ég nota hana stundum bæði í matinn fyrir fjölskylduna og einnig fyrir litlu börnin mín. Mig langaði aðeins að benda þér á að það eru líka ormar í ýsu. ;) ....og í mörgum tegundum af hvítum fiski. Ég var að leita að góðri uppskrift fyrir þorskinn sem ég á í ísskápnum og sem betur fer er ég ekki það klígjugjörn að ég láti svona orð stoppa mig, en ég er viss um að færri hafi notað þessa uppskrift heldur en hinar sem þú hefur sett hérna inn sökum lýsingarinnar. Hehe. Ég ætla samt að prófa! ;) Takk takk!

sigrun
05. des. 2011

Æ já...ég er ekki búin að borða neinn fisk að ráði í 2 ár....ég er svakalega klígjugjörn. Mér skilst að mesta magnið af ormunum sé í þorski en ég hef aldrei séð orma í ýsu (en þeir geta alveg verið í henni eins og öðrum fiski) þrátt fyrir að ég hafi grandskoðað í hvert skipti....það hjálpar mér að sjá þá allavega ekki he he. Vonandi heppnast kvöldmaturinn vel....

Skrifa ný ummæli

Vinsamlegast athugið að reiti merkta með * þarf að fylla út.
 
Innihald þessa svæðis verður ekki sýnilegt almenningi.
Þessi spurning hér að neðan er til að varna því að spamvélar geti sett inn sjálfvirkar færslur.
Vinsamlegast leggðu saman tölurnar og skrifaðu niðurstöðurnar. T.d. fyrir einn plús þrír, skaltu skrifa 4.
ellefu plús sex eru