Thailensk núðlusúpa með rækjum

Þessi súpa er ægilega góð. Þetta er svolítill svindlmatur og ég kaupi yfirleitt ekki tilbúnar (hollar auðvitað) sósur en svona í miðri viku, eftir vinnu þá er maður bara svo oft upptekinn. Allavega þá er þessi súpa mjög saðsöm og það er hægt að setja endalaust af dóti í hana t.d. meira grænmeti, tofu, kjúkling og fleira. Einnig má sleppa rækjunum alveg og nota t.d. einungis tofu í staðinn. Það er hægt að nota alls kyns grænar karrísósur auðvitað og ætti alltaf að reyna að kaupa lífrænt framleiddar/ræktaðar vörur! Yfirleitt má finna fínar sósur í heilsubúðum. Þeir sem hafa glúteinóþol, mjólkuróþol eða hnetuofnæmi ættu að skoða innihaldslýsinguna. Úff þetta eru nú meiri boðin og bönnin! Mætti halda að maukgreyið væri eitrað!

Athugið að MJÖG mikilvægt er að nota milt thailenskt, grænt, kryddmauk. Ef þið fáið einungis venjulegt, grænt, thailenskt mauk þá er það yfirleitt mjög sterkt. Þá getið þið einungis notað nokkrar matskeiðar af því og best að bæta við 1 msk agavesírópi og meira af vatni ásamt 100 ml sojamjólk, kókosmjólk eða hrísmjólk til að fylla upp í súpuna.


Saðsöm, einföld og bragðgóð súpa

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja

Thailensk núðlusúpa með rækjum

Fyrir 2-3

Innihald

  • 200 g Pak Choi (kínverskt kál, fæst í stærri matvöruverslunum)
  • 400 ml vatn
  • 1-2 gerlausir grænmetisteningar
  • 50 g strengjabaunir (enska: green beans, baunalengjur sem má borða heilar), skornar í 1 sm bita
  • 1 rauð paprika, skorin í mjóar, stuttar ræmur
  • 5-6 msk grænt, thailenskt kryddmauk, milt (það er mjög mikilvægt að það sé milt)
  • 125 g þykkar hrísgrjónanúðlur, (einnig má nota aðrar núðlutegundir) 
  • 100 g rækjur, (einnig má nota stíft tofu (firm) eða kjúkling)
  • 400 ml kókosmjólk

Aðferð

  1. Skerið hvíta hlutann af Pak Choi kálinu í mjóar ræmur og setjið í skál. Saxið grænu blöðin í litla búta.
  2. Setjið grænmetiskraftinn og vatn í pott og látið sjóða.
  3. Skerið grænu baunirnar í 1 sm bita.
  4. Skerið paprikuna langsum, fræhreinsið og skerið í mjóar, stuttar ræmur.
  5. Bætið grænu baununum og paprikunni út í pottinn. Sjóðið í 2 mínútur eða þangað til grænmetið er farið að linast.
  6. Bætið græna kryddmaukinu saman við ásamt hvítu ræmunum af Pak Choi kálinu en geymið grænu blöðin.
  7. Bætið kjúklingi saman við hér ef hann er notaður. Hægt að setja hráan kjúkling út í (annað hvort í ræmum eða í stórum bitum) en þarf að passa vel að hann hitni í gegn.
  8. Hitið þangað til fer að krauma í pottinum og kjúklingurinn er orðinn nánast eldaður í gegn.
  9. Setjið núðlurnar út í og hrærið. Hitið í um 3-4 mínútur eða þangað til núðlurnar eru orðnar mjúkar
  10. Bætið við rækjunum, grænu Pak Choi blöðunum og kókosmjólkinni, (tofuinu og öðru grænmeti ef það er notað) og hitið í nokkrar mínútur.
  11. Berið fram í djúpum skálum með djúpum skeiðum og prjónum.

Gott að hafa í huga

  • Athugið að ef þið eigið afganga af súpunni þá er líklegt að núðlurnar drekki í sig vökvann af súpunni og því ágætt að bæta við smávegis af grænmetiskrafti og heitu vatni daginn eftir.
  • Í staðinn fyrir hrísgrjónanúðlur, getið þið notað soba núðlur (úr bókhveiti) eða udon núðlur (innihalda hveiti). Einnig má nota spelt núðlur.
  • Best er að gera sitt eigið kryddmauk sjálfur en stundum er ekki alveg tími! Athugið bara að maukið sé ekki sykurbætt, sé með lítilli fitu og að ekki sé MSG (Monosodium Glutamate) eða önnur E-600 efni ásamt öðrum aukaefnum. Reynið að kaupa lífrænt framleitt mauk úr heilsubúð.
  • Ef ekki fæst milt mauk, má nota 3 msk venjulegt grænt, thailenskt kryddmauk, 1 msk agavesíróp og 100 ml sojamjólk eða aðra mjólk.
  • Ef kjúklingur er notaðar kaupið þá „hamingjusaman kjúkling” (þ.e. free range).
  • Ef þið finnið ekki Pak Choi getið þið notað spínat eða grænkál í staðinn.
  • Gerlausir grænmetisteningar fást í heilsubúðum og stærri matvöruverslunum.
  • Ef þið eruð ekki viðkvæm fyrir geri getið þið notað venjulega, lífrænt framleidda grænmetisteninga.
  • Ef afgangur er af kókosmjólkinni má frysta hann í ísmolabox og nota í drykki (smoothie) eða út í súpur.