Thailensk laksa (ekki laxa) súpa

Súpan virkar kannski flókin en er það í raun ekki. Það er samt ágætt að útbúa súpuna þegar maður er ekki á hraðferð. Maður getur sparað hellings tíma með því að vera búinn að útbúa kryddmaukið deginum áður. Maður nefnilega byrjar á kryddmaukinu. Svo býr maður til kókossúpugrunninn. Maður getur svo bætt við til dæmis meira grænmeti eða fiski, kjúklingi, tofui, núðlum, eða hverju sem maður vill.

Laksa þýðir 10 þúsund (og hefur ekkert með fiskategundina „lax” að gera) svo það má segja að grunnurinn sé ansi góður fyrst maður getur sett 10 þúsund mismunandi hráefni út í og súpan er alltaf jafn góð. Ok hef ekki prófað það en þessi súpa er æðisleg og ekki of sterk, meira svona sætsúr. Fyrir grænmetisætur eða jurtaætur (enska: vegan) þarf að sleppa fiskisósunni og rækjumaukinu (nota t.d. tamari sósu í staðinn eða það sem hentar). Fyrir þá sem vilja kjúklingasúpu má nota kjúklingakraft og ef maður notar fisk, þá er gott að nota fiskikraft auðvitað. Þó ég segi sjálf frá þá er súpan ekki síðri en þær sem maður fær á góðum thailenskum veitingastöðum! Athugið að tamarindmauk er ekki það sama og tamarisósa. Tamarisósa er svipuð sojasósu (en án hveitis) en tamarindmauk er unnið úr tamarind fræjum af tamarind tréinu. Tamarind mauk fæst í asísku matvörubúðunum. Súpan hentar vel fyrir þá sem hafa glúteinóþol sem og mjólkuróþol.

Athugið að til þess að gera kryddmaukið þarf matvinnsluvél eða töfrasprota.


Súpa með 10 þúsund hráefnum, eða þar um bil

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

  • Vegan (fyrir jurtaætur)

Thailensk laksa (ekki laxa) súpa

Fyrir 5-6

Innihald

Kryddmaukið:

  • 4 stilkar sítrónugras (enska: lemongrass). Takið ytra hýðið utan af. Saxið gróft
  • 4 rauðir chili pipar, fræhreinsaðir og saxaðir gróft
  • 2 sm bútur ferskt engifer, saxað gróft
  • 1 tsk rækjumauk (enska: shrimp paste) fæst í asískum búðum og stundum í stærri matvöruverslunum
  • 3 skallot laukar, saxaðir gróft
  • 3 stór hvítlauksrif, söxuð gróft
  • Væn lúka ferskt coriander
  • 1 tsk turmeric
  • 3-5 dropar hreint stevia eða 3 msk agavesíróp (mér finnst gott að hafa súpuna nokkuð sæta á móti þessu súra)
  • 1 dl hreint tamarind mauk (má í versta falli sleppa og nota eplamauk í staðinn)
  • 1 tsk kókosolía

Súpan sjálf:

  • 1 msk kókosolía
  • Allt kryddmaukið (sem þið eruð búin að útbúa)
  • 750 ml - 1 lítri vatn
  • 2-3 gerlausir grænmetisteningar
  • Væn lúka ferskt coriander, saxað gróft
  • Væn lúka ferskt basil, saxað gróft
  • 100 ml fiskisósa (Nam Plah)
  • 1 dós kókosmjólk
  • 1 lítill haus spergilkál (brokkolí), skorinn í smáa bita
  • 100 g sveppir, saxaðir gróft
  • 150 g shiitake sveppir, ferskir ef þeir eru til, annars 20 g þurrkaðir
  • 150 g brúnar hrísgrjónanúðlur 

Aðferð

Aðferð - Kryddmaukið:

  1. Setjið sítrónugras, chilli, engifer, rækjumauk, scallotlauk, hvítlauk og kókosolíu í matvinnsluvél og maukið mjög vel.
  2. Bætið corianderlaufunum, turmerici, stevia eða agavesírópi og tamarindmaukinu við og maukið vel þangað til blandan er orðin vel maukuð og litrík. Setjið í glerkrukku eða skál (ekki plast, plastið mun litast) og geymið í ísskáp þangað til á að nota maukið.

Aðferð - Súpan sjálf:

  1. Hitið kókosolíuna á stórri pönnu eða í potti.
  2. Hrærið kryddmaukinu (úr ísskápnum) á pönnunni, látið brúnast aðeins en ekki brenna (ætti að koma góð lykt á þessum tímapunkti).
  3. Bætið við grænmetisteningunum ásamt 750 ml af vatni (bætið við meira síðar ef þið viljið þynnri súpu).
  4. Látið suðuna koma upp og lækkið svo hitann.
  5. Bætið við fersku kryddjurtunum og fiskisósunni, látið malla í um 5 mínútur.
  6. Saxið sveppina og skerið spergilkálið í litla bita.
  7. Bætið grænmetinu út á pönnuna og látið malla í um 10 mínútur (hér má bæta tofui, kjúklingi, rækjum eða fiski (hann má vera hrár) út í fyrir þá sem vilja).
  8. Bætið hrísgrjónanúðlunum (ósoðnum) saman við og látið malla í nokkrar mínútur eða þangað til núðlurnar eru soðnar og (ef notað) kjúklingur/fiskur heitur í gegn. Hrærið varlega til að brjóta þær ekki né mauka.

Gott að hafa í huga

  • Nota má gulrætur, maís, blómkál, gúrkur, ferskar baunaspírur og margt, margt fleira í staðinn fyrir grænmetið sem er talið hér að ofan enda segir sagan að allt að 10 þúsund hráefni geti verið í súpunni! Það má líka hafa bara sveppi eða bara spergilkál. Einnig má setja tofu út í súpuna. Nota skal firm tofu og gott er að marinera það í smástund í engiferi, tamarísósu og hvítlauk áður en því er bætt út í.
  • Tamarindmauk fæst í verslunum sem sérhæfa sig í austurlenskri matvöru. Athugið að tamarind mauk er ekki það sama og tamarisósa. Nota má eplamauk í staðinn fyrir tamarindmaukið.
  • Ef maður vill súpuna þynnri þá setur maður bara aðeins meira vatn út í hana. Kjúklingakraftur er notaður fyrir kjúklingasúpu og fiskikraftur ef notaður ef er fiskur í súpuna.
  • Gætið þess að kókosmjólkin sé hrein og lífræn framleidd, án allra aukaefna.
  • Maður á að sjálfsögðu aðeins að nota "hamingjusamar hænur" (organic og free range). Best er að grilla en annars má steikja bringurnar upp úr 1 tsk kókosolíu og vatni. Gott að steikja í litlum bitum eða strimlum.
  • Ef fiskur er notaður er hann skorinn í smáa bita og settur til hliðar þangað til í lokin
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.
  • Gerlausir grænmetisteningar fást í heilsubúðum og stærri matvöruverslunum.
  • Ef þið eruð ekki viðkvæm fyrir geri getið þið notað venjulega, lífrænt framleidda grænmetisteninga.
  • Nota má sojasósu í staðinn fyrir tamarisósu en athugið að sojasósan inniheldur hveiti.
  • Nota má aðrar núðlutegundir í staðinn fyrir hrísgrjónanúðlur t.d. soba núðlur (úr bókhveiti) eða udon núðlur (innihalda hveiti).

Ummæli um uppskriftina

Kristjana
21. jún. 2011

Var að enda við að útbúa þessa súpu - og verð ég bara að segja að ég varð fyrir virkilegum vonbrigðum. Eyddi mest allan daginn í að undirbúa hana og hlakkaði svoooo til að fá loks að bragða á þessari dýrindis súpu sem ég hef heyrt margt um.

Svo endaði hún bara sem mesti gleðispillir dagsins. :( Hún var svo súr .. að ég missti bara lystina á að borða þetta kvöld!
Skil ekki hvað það var sem gerði hana svona súra .. ég notaði meira að segja ekki nema 3 stilka af sitrónugrasi þannig að ekki gæti það verið það. Er alveg miður mín eftir alla þessa vinnu og svo ekki sé minnst á peninginn sem þetta kostaði. :/

Ótrúlegt hvað svona getur eyðilagt fyrir manni allan daginn.

Kv.
Kristjana súra ...

sigrun
21. jún. 2011

Æ Kristjana, leiðinlegt að heyra og ekki gaman þegar eitthvað eyðileggur fyrir manni daginn...

Ég veit ekki hvað gæti valdið því að súpan varð svona súr...mér dettur helst í hug að tamarind maukið hafi verið svona súrt (ég nota bara venjulegt tamarind mauk). Maukið getur verið misjafnlega súrt og alltaf best að smakka súpuna til (og allan mat auðvitað, ekki bara þessa súpu) svona á meðan maður er að malla hana saman. Ég hef gert súpuna margoft og hún hefur alltaf heppnast vel, annars hefði ég nú ekki sett uppskriftina á vefinn. Hins vegar veit ég hversu leiðinlegt það er þegar eitthvað misheppnast, það eru jú yfir 600 uppskriftir á vefnum og ég hef gert hverja einustu a.m.k. þrisvar sinnum og milljón sinnum fer eitthvað í ruslið. Þú getur rétt ímyndað þér hráefniskaupin við að halda úti vefnum mínum!!!

Kv.

Sigrún&;