Sveppasósa
Úff ég lenti aldeilis í því haustið 2002. Ég var búsett í London og var að fá Elvu vinkonu og mömmu hennar í mat. Mér hafði verið gefnar lambalundir og ég hafði aldrei eldað úr lambakjöti áður og hvað þá meðlæti með því!!! Mér finnst lambakjöt nefnilega algjör viðbjóður og hefur fundist það frá því ég man eftir mér. Ég er hvort sem er grænmetisæta svo það er nú heppilegt. Ég hafði frétt eftir áreiðanlegum heimildum að Sigrún Ása vinkona væri mikil sósugerðarkona þannig að það þurfti að kalla eftir bráðri neyðaraðstoð í Sigrúnu og veitti hún fúslega hjálpina. Viti menn, sósan var æði, ég hefði getað drukkið hana eintóma (ég smakkaði líka aaaaaansi oft á henni meðan ég var að elda og ég sagði mmmmmmm í hvert skipti). Ég hugsa líka að þessi sósa passi með ansi mörgu eins og kjúklingi og kartöflum. Ég gerði sósuna aðeins léttari en hún átti að vera (átti að vera venjulegur rjómi) og notaði léttmjólk og matreiðslurjóma.
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án eggja
- Án hneta
Þessa uppskrift er auðvelt að gera:
- Án mjólkur
- Vegan (fyrir jurtaætur)
Sveppasósa
Innihald
- 500 ml magur rjómi (t.d. matreiðslurjómi) eða hafrarjómi
- 50 ml léttmjólk
- 5-10 sveppir, sneiddir þunnt
- 1 gerlaus grænmetisteningur
- 1 tsk dijon sinnep
- 1 msk tamarisósa
- 1 tsk agavesíróp
- Smá sletta salt (Himalaya eða sjávarsalt) og svartur pipar eftir smekk
- 1 tsk maísmjöl eða kartöflumjöl blandað saman í léttmjólkina svo úr verði sósa
- 1 tsk sinnespfræ (enska: mustard seeds), brún eða gul (má sleppa)
Aðferð
- Blandið saman sinnepi, tamarisósu, agavesírópi og kartöflumjöli, setjið til hliðar.
- Léttsteikið sveppina upp úr svolitlu vatni, salti og pipar.
- Bætið grænmetisteningi saman við og svolitlu vatni.
- Setjið sinnepsblönduna úti og kryddið vel.
- Bætið sinnepsfræjum út í sem og pipar.
- Hellið matreiðslurjómanum (eða hafrarjómanum) út í ásamt léttmjólkinni.
- Hitið að suðumarki en látið ekki sjóða.
- Smakkið til með tamarisósu og agavesírópi
Gott að hafa í huga
- Ef þið bakið eða steikið lambalundir eða kjúkling eða eitthvað annað kjöt má nota „kraftinn" sem verður til í sósuna. Setjið smá vatn út á pönnuna eða í pottinn, leysið upp og hellið út í sósuna. Minnkið þá aðeins magn grænmetisteningsins.
- Ég nota hafrarjómann frá Oatly sem ég er mjög hrifin af.
- Ef þið hafið glúteinóþol getið þið nota sojarjóma.
- Nota má sojasósu í staðinn fyrir tamarisósu en athugið að sojasósan inniheldur hveiti.
- Gerlausir grænmetisteningar fást í heilsubúðum og stærri matvöruverslunum.