Sveitamuffins með eplum og hveitiklíð

Þessi uppskrift var aftan á snepli úr einhverjum stórmarkaði hér í London. Oft getur maður fundið góðar uppskriftir eða fengið hugmyndir að þeim ef maður nennir að skoða uppskriftirnar, breyta þeim aðeins og gera þær hollari. Þetta eru stórgóðir muffins og meinhollir líka, fullir af trefjum og vítamínum.


Hollir og trefjaríkir muffinsar

Þessi uppskrift er:

  • Án mjólkur
  • Án hneta

Sveitamuffins með eplum og hveitiklíð

Gerir 10-12 muffins

Innihald

  • 375 g spelti
  • 75 gr hveitiklíð
  • 3 tsk vínsteinslyftiduft
  • 2 tsk kanill
  • 0,25 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
  • 2 epli, skræld, og bútuð niður í mjög litla bita 
  • 100 g rúsínur
  • 2 egg
  • 2 eggjahvítur
  • 1 tsk vanilludropar (úr heilsubúð)
  • 80 g rapadura hrásykur (eða annar hrásykur)
  • 125 ml lífrænt framleiddur barnamatur án sykurs; epla-, peru-, eða aprikósumauk
  • 125 ml sojamjólk (eða önnur mjólk)
  • 1 msk kókosolía

Aðferð

  1. Sigtið saman í stóra skál: spelti, lyftiduft, kanil og salt. Hrærið hveitiklíðinu saman við.
  2. Skrælið eplin og kjarnhreinsið, og skerið í litla bita (minni en sykurmola). Setjið í stóru skálina ásamt rúsínunum og hrærið vel.
  3. Í annarri skál skuluð þið hræra saman: eggjum, eggjahvítum, vanilludropum, rapadura hrásykri, barnamat, sojamjólk og kókosolíu. Hrærið vel og hellið út í stóru skálina.
  4. Hrærið varlega í deiginu (rétt veltið því til án þess að hræra of mikið).
  5. Takið til silicon muffinsform. Setjið nokkra dropa af kókosolíu í eldhúsþurrku og strjúkið holurnar að innan.
  6. Fyllið hverja holu nánast upp að rönd með deigi. Gott er að nota ískúluskeið.
  7. Hitið ofninn í 200°C. Bakið í 20-25 mínútur eða þangað til muffinsarnir eru orðnir gullbrúnir.

Gott að hafa í huga

  • Ef maður notar ekki olíu eða smjör í deigið þá getur maður hvorki notað venjuleg muffins pappírsform, né muffinsbökunarplötu úr járni. Það fást sem sé ekki muffins pappírsform sem maður getur bakað í án þess að þurfa að nota smjör eða olíu í deigið. Það sem þið getið gert er að sníða hringi úr bökunarpappír. Strikið með penna utan um undirskál og klippið út. Setjið svo í hverja muffinsholu. Það er hægt að nota muffinspappírinn í allt að sex skipti. Ef þið notið silicon muffinsform þurfið þið ekki bökunarpappír.
  • Nota má döðlur í staðinn fyrir að nota rúsínur.
  • Nota má undanrennu, hrísmjólk, haframjólk eða möndlumjólk í staðinn fyrir sojamjólk.
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Ég nota Hipp Organic, Organix eða Holle barnamat. Þessi merki eiga það sameiginlegt að vera lífrænt framleidd og eru ekki með viðbættum sykri.
  • Í staðinn fyrir barnamat má nota eplamauk (enska: Apple sauce) úr heilsubúð eða heilsudeildum matvöruverslana.
  • Ef afgangur er af barnamatnum má frysta hann í ísmolabox og nota í drykk síðar (smoothie).
  • Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.
  • Gott er að setja saxaðar valhnetur eða pecanhnetur í deigið.