Svalandi melónudrykkur frá Kenya

Ég gleymi aldrei þegar við komum til Mombasa vorið 2006 í kæfandi hita og fengum ískaldan melónudrykk í glasi þegar við komum á hótelið okkar. Nammmmmm. Það er fátt meira hressandi í sumarhita. Ananasinn inniheldur mikilvæg ensím fyrir meltinguna og vatnsmelónur eru fullar af C vítamíni. Hreinsandi og nærandi drykkur og afar svalandi. Í flestum ferðum okkar til Afríku hefur verið tekið á móti okkur með ávaxtadrykk (oftast ástaraldinsdrykk) en líka stundum með melónudrykk. Það er nóg til að ég dansi af gleði.

Athugið að þið þurfið blandara til að útbúa þennan drykk.
&;


Vítamín og hollusta í glasi

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta
  • Vegan
  • Hráfæði

Svalandi melónudrykkur frá Kenya

Fyrir 2

Innihald

  • Hálf, vel sæt vatnsmelóna, frælaus eða fræhreinsuð
  • 100 ml hreinn ananassafi
  • 4 ísmolar

Aðferð

  1. Afhýðið vatnsmelónuna, fjarlægið öll fræin og skerið melónukjötið í stóra bita.
  2. Setjið ísmolana í blandarann og hellið 50 ml af ananassafanum út á. Blandið í nokkrar sekúndur.
  3. Setjið vatnsmelónubitana út í ásamt afganginum af ananassafanum.
  4. Hellið í glös og berið fram strax.

Gott að hafa í huga

  • Gott er að setja nokkra dropa af límónusafa út í drykkinn.
  • Upplagt er að frysta þennan safa sem frostpinna fyrir börn.
  • Best er að pressa ananasinn sjálfur en nota má tilbúinn ananassafa.