Súrsæt (sweet & sour) núðlusúpa
28. febrúar, 2003
Þetta er eiginlega svona núðlusúpuréttur þ.e. bæði núðlusúpa og núðluréttur. Upphafleg uppskrift inniheldur ekki soba núðlur (úr bókhveiti) en það er hrikalega gott að hafa þær með. Ég nota líka stundum hrísgrjónanúðlur en nota má hvaða núðlutegund sem er í þennan rétt. Maður getur í raun ákveðið hvort maður vill hafa uppskriftina „súpulega" eða „núðlulega" með því að hafa meira eða minna soð! Afskaplega seðjandi og góð. Upplögð súpa til að drýgja það sem er til í niðursuðudósunum og grænmetisskúffunni. Svo er mjög fínt að gera stóra uppskrift og borða í 2 daga og jafnvel í nesti. Mjög góð með rifnum kjúklingi líka er mér sagt og gerir hana auðvitað matarmeiri (en er þá að sjálfsögðu ekki vegan).

Ódýr, einföld, bragðgóð og vegan núðlusúpa
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án eggja
- Án hneta
- Vegan
Súrsæt (sweet & sour) núðlusúpa
Fyrir 3-4
Innihald
- 5 sveppir
- 125 g stíft tofu (e. firm)
- 60 g litlir maískólfar í dós (e. baby sweet corn) (eða bambussprotar)
- 60 g frosnar, grænar baunir (e. peas)
- 600-1000 ml vatn (eða meira vatn ef þið viljið meiri vökva á móti núðlunum)
- 2-3 gerlausir grænmetisteningar t.d. frá Rapunzel
- 2 msk tamarisósa
- 2 msk hvítvínsedik (e. white wine vinegar) eða hrísgrjónaedik (e. rice vinegar)
- 2 msk maísmjöl (e. cornflour) eða örvarrót (e. arrow root)
- Salt (Himalaya- eða sjávarsalt) og svartur pipar eftir smekk
- 1-2 msk sesamolía
- 4 steviadropar án bragðefna
- 250 g sobanúðlur eða hrísgrjónanúðlur
Aðferð
- Sjóðið núðlurnar samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum. Kælið undir rennandi, köldu vatni, sigtið vatnið frá og setjið núðlurnar til hliðar.
- Skerið sveppina í sneiðar og tofu í strimla (2 cm x 5 cm). Steikið á pönnu í 1 matskeið tamarisósu og nokkrum matskeiðum af vatni.
- Setjið grænmetiskraftinn í pott ásamt vatninu og látið suðuna koma upp. Bætið sveppum, tofu, maís og baunum út í. Sjóðið í 2 mínútur og hrærið mjög varlega til að brjóta ekki tofouið.
- Blandið saman afgangnum af tamarisósunni, edikinu og maísmjölinu ásamt 2 matskeiðum af vatni og hrærið þangað til kekkjalaust. Bætið þessu út í súpuna og hrærið aðeins. Látið súpuna sjóða í nokkrar mínútur og kryddið með salti og pipar ef þarf. Bætið steviadropum og sesamolíu út í súpuna og hrærið aðeins.
- Skiptið núðlunum á milli nokkurra djúpra súpuskála. Hellið súpunni varlega yfir.
Gott að hafa í huga
- Í staðinn fyrir grænar baunir er hægt að nota frosið maískorn.
- Það má sleppa tofuinu og nota meira af grænmeti í staðinn t.d. gulrætur, baunaspírur, papriku o.s.frv.
- Nota má rækjur eða kjúkling í súpuna í staðinn fyrir tofu (en þá er hún ekki lengur vegan).
- Stíft tofu fæst í stærri matvöruverslunum og heilsubúðum.
- Gerlausir grænmetisteningar fást í heilsubúðum og stærri matvöruverslunum. Ef þið eruð ekki viðkvæm fyrir geri getið þið notað venjulega, lífrænt framleidda grænmetisteninga.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2025