Sultukaka með carobkremi

Þessi kaka er holl og góð og sérlega sniðug ef maður þarf að útbúa köku með góðum fyrirvara því hún geymist í margar vikur, innpökkuð í ísskáp og verður bara betri þannig. Best er að útbúa kökuna fyrst og setja kremið á, stuttu áður en kakan er borin fram því kremið stífnar á nokkrum dögum og er betra frekar þunnt og lint (hmm, krem sem er „brúnt, þunnt og lint” hljómar ekki vel :) Einnig má frysta kökuna og blönduna má nota í konfekt eða orkustangir því hún er algjörlega pakkfull af hollri fitu, vítamínum, flóknum kolvetnum, andoxunarefnum o.fl.

Athugið að matvinnsluvél og lítið, lausbotna kökuform (um 15 sm) þarf til að útbúa þessa uppskrift.

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án mjólkur
 • Án eggja
 • Vegan

Sultukaka með carobkremi

Gerir eina köku

Innihald

Kakan:

 • 20 g möndluflögur
 • 20 g kókosmjöl
 • 90 g cashewhnetur
 • 50 g puffed rice (eða hrískökur)
 • 250 g gráfíkjur, snúið litla stubbinn á endanum af, saxið fíkjurnar gróft
 • 60 g döðlur, saxaðar gróft
 • 120 g rúsínur
 • 2-4 msk hreinn appelsínusafi
 • 1-2 msk hreint hlynsíróp (enska: maple syrup) eða agavesíróp
 • 3 msk carob (eða kakó)
 • 285 g sulta án sykurs (t.d. hindberjasulta eða jarðarberjasulta)

Carobkremið:

 • 50 g carob eða kakó
 • 1 vel þroskaður banani, stappaður
 • 60 ml hlynsíróp (enska: maple syrup)

Aðferð

 1. Byrjið á kreminu: Blandið saman hlynsírópi, carobi og stöppuðum banana og hrærið mjög vel. Látið kremið stífna í ísskápnum á meðan þið útbúið kökuna. Kremið á að vera þannig að það leki hægt niður með hliðum kökunnar en ekki það þunnt að það dropi hratt af skeið.
 2. Gerið nú kökuna:
 3. Setjið möndlur, hnetur, kókosmjöl og puffed rice (eða hrískökur) í matvinnsluvél. Blandið í um 1 mínútu eða þangað til hneturnar eru fínt saxaðar. Bætið carobi út í og blandið í um 10 sekúndur. Setjið í stóra skál.
 4. Skerið stubbinn af gráfíkjunum af og saxið þær gróft ásamt döðlunum. Setjið í matvinnsluvél ásamt appelsínusafa. Blandið í um 1 mínútu eða þangað til gróft saxað. Bætið rúsínum saman við og blandið í 1 mínútu. Skafið hliðar matvinnsluvélarinnar, bætið hlynsírópinu út í og blandið í um 1 mínútu eða þangað til vel maukað. Setjið út í stóru skálina.
 5. Blandið öllu vel saman, jafnvel í hrærivél með deigkrók (gott að vera í þunnum plasthönskum ef þið notið hendurnar). Áferðin á deiginu á að vera nokkuð þétt, alls ekki blaut en deigið á samt að festast vel saman ef þið það saman með fingrunum.
 6. Skiptið deiginu í tvo hluta (gott er að vigta það til að vera með nákvæmlega jafn stóra hluta).
 7. Klæðið 15 sm lausbotna kökuform með plastfilmu. Þrýstið helmingnum af deiginu mjög vel ofan í botninn þannig að það sé um 1 sm að þykkt. Kælið í um 30 mínútur í frysti.
 8. Losið varlega yfir á stóran kökudisk.
 9. Dreifið sultunni í þykku lagi yfir kökubotninn.
 10. Klæðið kökuformið aftur með plastfilmu og endurtakið með afganginn af deiginu. Kælið í 30 mínútur í frysti. Leggið toppinn varlega ofan á sultuna svo að hún sprautist ekki út um allt.
 11. Takið kremið úr ísskápnum og smyrjið því ofan á kökuna. Kremið á að leka svolítið með hliðunum. Ef kremið er mjög þunnt eftir að það hefur staðið í ísskápnum, bætið þá aðeins af carobi við (ekki of mikið samt svo að kremið verði ekki beiskt).

Gott að hafa í huga

 • Puffed rice eru sprengd hrísgrjón og fást í heilsubúðum. Einnig má nota puffed spelt (inniheldur glútein) eða hrískökur.
 • Nota má heslihnetur og sólblómafræ í staðinn fyrir möndlur.
 • Nota má agavesíróp í staðinn fyrir hlynsíróp í kökuna en betra er að nota hlynsíróp í kremið því það stífnar betur en agavesírópið.
 • Frysta má kökuna og bera hálf frosna fram, hún er mjög góð þannig líka.
 • Blönduna (deigið) má nota í konfekt og orkubita.
 • Nota má kakó í stað carobs.
 • Carob hentar þeim sem eru viðkvæmir fyrir örvandi efnum kakósins og hentar því börnum vel. Carob fæst í heilsubúðum og heilsuhillum matvöruverslana. Það fæst bæði sem duft (eins og kakó) og í plötum (eins og súkkulaði).
 • Ég er hrifin af St. Dalfour sultunum sem og sultunum frá himneskri hollustu. Sulturnar fást í flestum matvöruverslunum en fást þær í heilsbúðum ásamt fleiri tegundum. Mikilvægt er að sultan sé ekki of þunn.
 • Nota má Brasilíuhnetur eða macadamiahnetur í staðinn fyrir cashewhnetur.