Súkkulaði- og bananabúðingur

Sérlega sniðugur súkkulaðibúðingur (súkkulaðimús) með hollri fitu úr cashewhnetum sem er afar góð fyrir hjarta og æðar. Kakó inniheldur líka andoxunarefni og kakónibbur eru eitt það hollasta sem maður fær. Í þessum búðing er hvorki rjómi, egg, hvítur sykur, matarlím né nokkuð annað sem getur stíflað æðar eða farið illa með líkamann. Það er best að borða búðinginn við stofuhita því hann stífnar upp í kælinum. Athugið að bananarnir verða aðeins brúnir við að geymast svo best er að gera þennan eftirrétt samdægurs (eða undirbúa allt nema bananana fyrirfram). Gefið ykkur alveg 3 tíma áður en bera á búðinginn fram því blandan þarf að stífna á milli laga. Gott er að leggja cashewhneturnar í bleyti í sólarhring áður en þið maukið þær. Það er ekki nauðsynlegt en það verður auðveldara að mauka þær.

Athugið að nauðsynlegt er að nota matvinnsluvél til að útbúa þessa uppskrift.


Hollur og bragðgóður súkkulaðibúðingur

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Vegan

Súkkulaði- og bananabúðingur

Fyrir 2

Innihald

  • 100 g cashewhnetur, malaðar
  • 1 stór banani, vel þroskaður
  • 30 g kakó
  • 4 msk agavesíróp
  • Smá klípa salt (Himalaya eða sjávarsalt)
  • 60 ml sojamjólk (eða önnur mjólk)
  • 2 msk kókosolía
  • 0,5 tsk vanilludropar (úr heilsubúð)
  • 1 msk kakó (til að dusta yfir búðinginn)
  • 1 msk kakónibbur (cacao nibs), má sleppa en gefur skemmtilega áferð

Aðferð

  1. Leggið cashewhneturnar í bleyti í sólarhring (ef þið sleppið því þurfið þið að mauka þær lengur).
  2. Hellið vatninu af cashewhnetunum, setjið þær í matvinnsluvél og maukið alveg þangað til hneturnar fara að mynda kekki, gæti tekið nokkrar mínútur. Skafið hliðar matvinnsluvélarinnar og haldið áfram í 1 mínútu. Mikilvægt er að hneturnar séu mjög vel maukaðar.
  3. Bætið 1 tsk af kókosolíu út í skálina á meðan vélin vinnur.
  4. Setjið banana, salt, agavesíróp, vanilludropa og sojamjólk í matvinnsluvélina og blandið vel. Bætið afganginum af kókosolíunni saman við og maukið í 30 sekúndur eða þangað til silkimjúkt.
  5. Skiptið blöndunni þannig að hún sé 60/40 og geymið ljósa hlutann (og hafið hann minni þ.e. 40 á móti 60) í ísskáp með plasti yfir.
  6. Bætið kakóinu út í blönduna sem eftir er í matvinnsluvélinni (sem er 60 á móti 40 þ.e. stærri hluti en sá ljósi) og blandið vel.
  7. Hellið helmingnum af kakóblöndunni í tvö 100 ml glös (t.d. kokteilglös). Geymið afganginn af kakóblöndunni á borðinu.
  8. Látið kakóblönduna í glösunum stífna í ísskápnum í klukkutíma.
  9. Takið glösin úr ísskápnum og skiptið bananablöndunni í tvennt og hellið yfir kakóblönduna í glösunum.
  10. Látið stífna í glösunum í klukkutíma.
  11. Endið á afganginum af súkkulaðiblöndunnni sem er nú við stofuhita. Skiptið jafnt og hellið yfir bananablönduna.
  12. Dustið með kakói yfir súkkulaðiblönduna og skreytið með kakónibbum.
  13. Setjið plastfilmu yfir glösin og geymið í ísskápnum.
  14. Áður en bera á búðinginn fram er best að láta hana standa í stofuhita í 30 mínútur.

Gott að hafa í huga

  • Kakónibbur fást í flestum heilsubúðum. Einnig má saxa mjög dökkt súkkulaði og dreifa yfir búðinginn.
  • Nota má carob í stað kakós. Carob hentar þeim sem eru viðkvæmir fyrir örvandi efnum kakósins og hentar því börnum vel. Carob fæst í heilsubúðum og heilsuhillum matvöruverslana. Það fæst bæði sem duft (eins og kakó) og í plötum (eins og súkkulaði).
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Ef þið eigið til cashewhnetumauk (enska: cashew butter) getið þið notað það (sama magn) í staðinn fyrir að mauka hneturnar sjálf. Cashewhnetumauk fæst í heilsubúðum.
  • Nota má undanrennu, hrísmjólk, haframjólk eða möndlumjólk í staðinn fyrir sojamjólk.

Ummæli um uppskriftina

gestur
21. júl. 2012

Hvað á svo að gera við hnetumaukið ? Það stendur ekkert hvenær það á að blandast í ?

sigrun
21. júl. 2012

Það var smá ruglingur hjá mér.....ég gleymdi að taka út " Setjið maukið til hliðar" því það átti ekki að vera. Uppskriftin ætti að vera skýr núna (vonandi) :)