Suðrænn fiskiréttur
27. febrúar, 2003
Þetta er voða einföld, holl og góð uppskrift, fín svona í miðri viku þegar tímaleysið háir okkur einna mest. Fiskurinn og reyndar rétturinn allur er magur og ekki sakar að hann er líka próteinríkur og fullur af C vítamíni.
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án eggja
- Án hneta
Suðrænn fiskiréttur
Fyrir 2
Innihald
- 1 bolli soðin hýðishrísgrjón eða bygg
- 8 msk jógúrt ásamt 1 msk af maísmjöli (enska: corn flour en einnig má nota arrow root)
- 3 tsk karrí
- 200 ml ananassafi (eða hluti appelsínusafi)
- 400 g hvítur fiskur (t.d. ýsa) roð- og beinhreinsaður
- 10 sveppir, sneiddir þunnt
- 150 g ananas úr dós, í bitum (án sykurs). Geymið safann
- Hálf rauð paprika, sneidd frekar þunnt
- 100 g magur ostur, rifinn
- 0,5 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
- 5 svartar ólífur, sneiddar (má sleppa)
Aðferð
- Sjóðið um 1 dl hýðishrísgrjón þannig að þið fáið um 1 bolla soðin grjón. Sjóðið samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum og setjið svo til hliðar.
- Hrærið saman jógúrti, maísmjöli, karríi og ananassafa. Setjið til hliðar.
- Sneiðið sveppi og ólífur frekar þunnt.
- Bútið ananasinn ef hann er í heilum hringjum. Geymið safann.
- Skerið paprikuna langsum, fræhreinsið og skerið í frekar þunnar sneiðar.
- Rífið ostinn og skerið fiskinn í stóra bita.
- Setjið grjónin í botninn á eldföstu móti (óþarfi að smyrja mótið).
- Raðið sveppum og ananasbitum ofan á grjónin. Dreifið ólífusneiðunum yfir.
- Setjið fiskinn ofan á grænmetið og hellið sósunni yfir fiskinn.
- Raðið paprikusneiðunum ofan á fiskbitina og setjið rifna ostinn yfir allt saman. Saltið eftir smekk.
- Bakið við 175°C í um 25-30 mínútur eða þangað til fiskurinn er orðinn hvítur og svolítið laus í sér og osturinn bráðinn.
Gott að hafa í huga
- Berið fram með salati og snittubrauði.
- Í staðinn fyrir jógúrt má nota sojajógúrt eða sýrðan sojarjóma (eða venjulegan 5% sýrðan rjóma, án gelatíns, frá Mjólku).
- Nota má annan fisk í réttinn, t.d. lúðu, steinbít, þorsk o.fl.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2025
Ummæli um uppskriftina
27. mar. 2012
Þessi er mjög góður, hlutlaust bragð og fljólegur í matreiðslu. Mun pottþétt gera hann aftur :)
27. mar. 2012
Gott að heyra :)