Starbucks samloka

Kaffihúsamatur er enginn hollustumatur enda fáum við okkur afskaplega sjaldan mat á kaffihúsum enda dýr og of óhollur fyrir minn smekk! Þessi samloka er hollari útgáfa af Starbucks samlokunni sem í boði er á öllum kaffihúsum Starbucks í Bretlandi. Þetta er ein vinsælasta samlokan þeirra og inniheldur grilljón hitaeiningar. Mín útgáfa er heldur léttari þar sem ég nota heimatilbúið majones (eða sýrðan rjóma 5%, án gelatíns), magran ost eða léttan mozzarella í staðinn fyrir feitustu útgáfu af osti og ég nota sólþurrkaða tómata án olíu. Athugið að ég nota annað hvort speltpítubrauð eða grófa brauðhleifa en hægt er að nota alls kyns brauð. Þeir sem þola ekki ger þurfa að vara sig á pítubrauðum og keyptum brauðum nema þau séu merkt gerlaus.

Athugið að í pestói eru furuhnetur sem sumir hafa ofnæmi fyrir. Auðvelt er að kaupa eitthvað annað, gott grænmetismauk í staðinn fyrir pestó. 


Aðeins hollari en á Starbucks og bara ekkert síðri!!

Þessi uppskrift er:

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

  • Án eggja
  • Án hneta

Starbucks samloka

Fyrir 2-3

Innihald

  • 3 stórir spelt brauðhleifar, skornir í tvennt (þannig að verði lok og botn), eða pítubrauð
  • 3 msk grænt pestó (úr heilsubúð)
  • 4 msk majones eða sýrður rjómi, 5% (án gelatíns, frá Mjólku)
  • Nokkrar svartar ólífur í sneiðum
  • 100 g magur ostur, rifinn
  • 50 g mozzarella ostur, sneiddur þunnt
  • 10 sólþurrkaðir tómatar, (án olíu), sneiddir í mjóar sneiðar

Aðferð

  1. Skerið brauðið í tvennt langsum.
  2. Blandið saman pestóinu og majonesinu eða sýrða rjómanum.
  3. Sneiðið ólífurnar.
  4. Rífið magra ostinn á rifjárni.
  5. Sneiðið mozzarella ostinn þunnt.
  6. Skerið sólþurrkaða tómata í þunnar sneiðar.
  7. Smyrjið pestóblöndunni í lokið og botninn á brauðinu.
  8. Raðið ólífum, sólþurrkuðum tómötum í botninn og setjið því næst rifna ostinn og mozzarella ostinn ofan á. Leggið lokið ofan á og þrýstið vel.
  9. Grillið brauðið í nokkrar mínútur á samlokugrilli þangað til osturinn er orðinn bráðinn.

Gott að hafa í huga

  • Hægt er að nota alls kyns grænmeti t.d. paprikur, sveppi og kúrbít.
  • Einnig má nota rautt pestó í staðinn fyrir grænt.
  • Ef þið hafið eggjaóþol má nota sýrðan rjóma í staðinn fyrir majones.
  • Ef þið finnið aðeins sólþurrkaða tómata í olíu má annað hvort þerra olíuna með eldhúsþurrku en einnig hef ég notað þessa aðferð: Setjið sólþurrkuðu tómatana í sigti og hellið sjóðandi heitu vatni yfir þá (um 500 ml eða svo). Þerrið með eldhúsþurrku.