Spurt og svarað

Að matreiða úr hollu hráefni getur verið mun flóknara en úr hefðbundinni smjör-, hveiti- og sykursamsetningu. Ég hef eyðilagt grilljón uppskriftir þegar ég hef verið að gera tilraunir í gegnum tíðina. Það er fátt sem getur klikkað með smjöri, hveiti og sykri (nema auðvitað heilsan) og þess vegna þarf maður að vera svolítið sveigjanlegur þegar maður matreiðir úr hollara hráefni. Að ná leikni í að matreiða úr hollu hráefni getur tekið tíma og þolinmæði. Það skyldi þó enginn örvænta og með svolítilli æfingu getið þið orðið mjög flink í heilsueldhúsinu. Ég tala af reynslu því ég opnaði vefinn minn 2003 og árið 2000 var ég enn þá að borða pakkasúpur og borða þurrt og ósoðið pasta því ég kunni ekki að sjóða það. Hér fyrir neðan er safn af spurningum sem ég hef fengið í gegnum tíðina varðandi bakstur, hráefni og fleira.

Smellið á spurningu hér fyrir neðan og svarið mun birtast fyrir neðan spurninguna.

Ef þið finnið ekki svar við spurningunni ykkar hér, getið þið sent mér fyrirspurn.

Hráefni

Hvers vegna notar þú barnamat í bakstur?

Barnamatur, lífrænt framleiddur og án sykurs er frábær í alls kyns rétti og kökur þar sem þarf að nota eitthvað sætt. Hann hentar einstaklega vel t.d. í kökur sem mega vera mjúkar (eins og muffinsa og kökubrauð) en síður í t.d. smákökur sem eiga að vera brakandi harðar. Einnig er gott að nota barnamat sem rakagjafa í staðinn fyrir olíu. Það þarf mun minni olíu með barnamatnum en maður annars þyrfti því barnamaturinn er jú rakagjafi. Gott er að nota barnamat með svipað innihald og þið komið til með að nota í uppskriftina. Til dæmis er gott að nota bláberjamauk í bláberjamuffins eða bananamauk í bananabrauð. Góð merki eru til dæmis Hipp Organic, Holle, Babynat og Organix. Ég nota almennt ekki önnur merki því þau innihalda gjarnan sykur og barnamaturinn er ekki framleiddur úr lífrænum ræktuðum afurðum.

Kjöt af lífrænt ræktuðum og „hamingjusömum” (free range) dýrum

Hægt er að fá íslenskt, lífrænt framleitt kjöt að Neðri Hálsi í Kjós en svo að ég best veit þá er aðeins um að ræða nautakjöt. Ég veit ekki til þess að það sé hægt að fá lífrænt framleiddar (enska: organic) eða hamingjusamar hænur (enska: free range) á Íslandi því miður. Ég þverneita að matreiða nokkurt annað kjöt (ég borða aldrei kjöt en maðurinn vill gjarnan kjúkling og nautakjöt) en kjöt af dýrum sem hafa haft það gott um ævina. Ég elda heldur ekki neitt annað kjöt fyrir aðra. Ég geri stundum kjúklingarétti og hér í London er auðvelt að fá hamingjusamar hænur. Mér finnst skömm að því að ekki sé hægt að fá svona kjöt á Íslandi. Það er einnig skömm að því að neytendur hugsi einungis um verðmiðann og ekki um velferð dýranna og þetta er ein meginástæðan fyrir því að ég gerðist grænmetisæta. Ég hvet neytendur til að láta heyra í sér varðandi þetta. Einnig væri fróðlegt að hafa samband við Neðri Háls, fyrst þeir eru í þessum hugleiðingum og athuga hvort þeir séu ekki til í að bæta aðeins við búskapinn sinn? Þeir gefa mjög gott fordæmi með búskapnum sínum, ekki hægt að segja annað. Íslenska lambakjötið er einnig ómenguð afurð af dýrum sem ekki hafa lifað í búri um ævina svo það er góður kostur ef þið viljið kjöt. Ef þið heyrið um ræktun á hamingjusömum kjúklingum endilega látið mig vita svo ég geti komið því á framfæri hér hið fyrsta. Ég matreiði ekki kjúkling á Íslandi af fyrrgreindum ástæðum en ég matreiði hann í London, þar sem ég er búsett. Þess vegna eru kjúklingauppskriftir á vefnum.

Má nota matarsóda í staðinn fyrir lyftiduft?

Almennt er hægt að nota lyftiduft í stað matarsóda en ekki matarsóda í staðinn fyrir lyftiduft. Þegar matarsódi blandast við eitthvað súrt myndast koltvísýringur sem þenst út í hita. Ef þið bakið ekki það sem er með matarsóda í, strax hverfur “gasið” og muffinsarnir eða það sem þið eruð að baka verða flatir. Lyftiduft inniheldur matarsóda en hefur líka það súra (cream of tartar) sem þarf til að setja efnin af stað og þegar þú setur vökvann út í, gerist það sama þ.e. gas myndast og þið verðið verðið að baka það sem þið eruð að útbúa, mjög fljótt. Þið sjáið það ef þið látið deigið standa aðeins á borðinu að loft myndast í því. Ef maður notar matarsóda eingöngu til að láta deigið lyftast verður maður að nota eitthvað súrt eins og jógúrt, sítrónusafa eða súrmjólk. Matarsódi er yfirleitt notaður í kexkökum þ.e. í það sem á að vera stökkt. Lyftiduft notar maður í flest annað og þá er gott að nota t.d. sojamjólk með sem er frekar mild (þarf ekki að nota súrt með). Það má alltaf búa til lyftiduft með því að blanda saman 1 hlutum matarsóda á móti tveimur af cream of tartar. Mér hefur fundist, með vínsteinslyftiduftið að það sé best að nota eitthvað súrt á móti því. Kannski er það ímyndun í mér (en er allavega ekki verra að mínu mati). Þess vegna blanda ég annað hvort jógúrt, AB mjólk, súrmjólk o.fl. út í deigið og ef ég á ekki neitt slíkt, blanda ég saman sítrónusafa og t.d. sojamjólk þangað til hún fer að mynda litla kekki. Mér finnst það ekki hafa nein áhrif á bragð en gefur góða, loftkennda áferð.

Notarðu enga fitu í mat?

Jú ég nota fitu, en ekki hvaða fitu sem er og ekki mikið af henni. Ég nota yfirleitt kókosolíiu í það sem ég baka og hita og stundum nota ég líka ólífuolíu&; en aðallega á rétti sem eru kaldir. Ég hef líka notað repjuolíu og vínberjakjarnaolíu og þær olíur þola einnig háan hita. Hnetuolíur, avocadoolíu og fleiri olíur finnst mér góðar á salöt. Smjör dettur mér ekki í hug að nota (finnst það vont) og smjörlíki hef ég aldrei á ævinni keypt. Smjör og smjörlíki inniheldur mikið af mettuðum fitusýrum (á ensku saturated fat) á meðan ólífuolían inniheldur bæði fjölómettaða (á ensku polyunsaturated fat) og einómettaða (á ensku monounsaturated fat). Þessi ómettaða fita hækkar góða kólesterólið og lækkar slæma kólesterólið á meðan smjörið stíflar æðarnar. Fita er þó nauðsynleg til að bæði viðhalda liðleika í liðum, passa upp á hjarta- og æðakerfið sem og til að brenna fitu. Já við þurfum fitu til að brenna fitu! Það þýðir ekki að það sé komin ástæða til að hella olíu út á morgunmatinn heldur þýðir það að hún er góð í hófi. Eins og flest. Þessi sama fita, holla fitan finnst líka í avacado, feitum fiski eins og lúðu og laxi og hnetum og maður ætti að neyta slíkrar fitu á hverjum degi. Mér finnst gott að miða við að nota aldrei meira en 2 matskeiðar af olíu í hverja uppskrift sem ég geri en undantekning þar á eru smákökur sem er hreinlega vonlaust að gera almennilegar nema að nota a.m.k. um 5-6 matskeiðar.

Þegar þið skoðið innihaldslýsingu aftan á vörum, athugið þá að kíkja alltaf á fituinnihaldið. Heildarmagn fitu segir ekki alla söguna þ.e. Total fat því hlutfall fjölómettaðra og einómettaðra fitusýra þarf að vera hærra en mettaðra fitusýra. Góð regla er að fjölómettaðar fitusýrur hafi hæsta hlutfallið, því næst einómettaðar og að lokum ættu mettaðar fitusýrur að vera með lægsta hlutfallið. Transfitusýra ætti maður aldrei að neyta.

Notkun á myndum og uppskriftum

Má ég birta uppskrift frá þér á vefnum mínum?

Já alveg sjálfsagt, svo lengi sem vitnað er í upprunalegu uppskriftina (www.cafesigrun.com) eða tengt í hana beint af vefnum mínum með tengli. Það má birta uppskriftina í blöðum, bæklingum, á vefsíðum og til persónulegra nota ef getið er hvaðan uppskriftin er. Það má EKKI birta uppskrift án þess að geta hvaðan hún kemur. Slíkt er auðvitað ritstuldur og ég verð afar, afar reið og sár ef ég sé slíkt. Það að eigna sér verk og vinnu annarra er afar ósvífið. Ég leyfi öllum að nota uppskriftirnar án endurgjalds og þetta er það sem ég bið um í staðinn.

Má nota myndirnar þínar?

Nei, ekki nema með leyfi frá mér. Það eru þó allar líkur á að ég veiti leyfið!

Tölvupóstar og fyrirspurnir

Ég skráði mig á póstlistann en ég fékk ekki staðfestingu?

Athugið ruslpósthólfið (spam folder/junk mail). Það er líka gott að samþykkja www.cafesigrun.com og allan póst frá vefnum sem „öruggan aðila” (misjafnt eftir póstforritum hvernig maður gerir slíkt).

Þú svaraðir ekki tölvupósti frá mér?

Það er tvennt sem kemur til greina. Tölvupósturinn barst mér ekki (og ég svaraði honum því ekki þess vegna) EÐA ég fékk tölvupóstinn en svarið barst ykkur ekki. Meginreglan er sú að ef þið fenguð ekki svar frá mér, fékk ég ekki bréfið. Ég svara öllum tölvupósti, yfirleitt innan sólarhrings (meira að segja á fæðingardeildinni svaraði ég fyrirspurnum) og ég hef svarað fyrirspurnum þegar ég hef verið stödd í Japan sem og í fjallaþorpum í Afríku. Athugið ruslpósthólfið (spam folder/junk mail) til að sjá hvort að svarið hafi farið þangað.

Fjölmiðlar

Veitir þú viðtöl?

Stundum, ef ég er í skapi fyrir viðtöl. Stundum nenni ég því alls ekki. Mér leiðist að tala í síma svo sendið mér tölvupóst og ég skal svara honum. Ég svara alltaf tölvupósti.

Það er ekkert símanúmer á vefnum þínum, hvernig næ ég sambandi við þig?

Mér leiðist að tala í síma svo sendið mér tölvupóst á sigrun@cafesigrun.com, ég svara um hæl. Ef ég svara ekki hefur pósturinn EKKI borist mér (eða svarpósturinn frá mér hefur farið í ruslpósthólfið (spam folder/junk mail) hjá ykkur).