Spurt og svarað

Að matreiða úr hollu hráefni getur verið mun flóknara en úr hefðbundinni smjör-, hveiti- og sykursamsetningu. Ég hef eyðilagt grilljón uppskriftir þegar ég hef verið að gera tilraunir í gegnum tíðina. Það er fátt sem getur klikkað með smjöri, hveiti og sykri (nema auðvitað heilsan) og þess vegna þarf maður að vera svolítið sveigjanlegur þegar maður matreiðir úr hollara hráefni. Að ná leikni í að matreiða úr hollu hráefni getur tekið tíma og þolinmæði. Það skyldi þó enginn örvænta og með svolítilli æfingu getið þið orðið mjög flink í heilsueldhúsinu. Ég tala af reynslu því ég opnaði vefinn minn 2003 og árið 2000 var ég enn þá að borða pakkasúpur og borða þurrt og ósoðið pasta því ég kunni ekki að sjóða það. Hér fyrir neðan er safn af spurningum sem ég hef fengið í gegnum tíðina varðandi bakstur, hráefni og fleira.

Smellið á spurningu hér fyrir neðan og svarið mun birtast fyrir neðan spurninguna.

Ef þið finnið ekki svar við spurningunni ykkar hér, getið þið sent mér fyrirspurn.

Hráefni

Ég er með mjólkuróþol en í uppskriftinni er gefin upp súrmjólk, get ég notað eitthvað í staðinn?

Þið getið sett 1 tsk af sítrónusafa út í sojamjólk (eða aðra mjólk) og látið standa á borðinu í 10 mínútur. Við það myndast kekkir í mjólkinni sem gefa aukna lyftingu í bakstri.

Ég hef ekki fundið Kvarg á Íslandi, er hægt að nota eitthvað annað?

Kvarg (enska: Quark) er fitulaus, mjúkur ostur, unninn úr undanrennu og líkist helst skyri nema er ekki eins basískt. Kvarg fékkst eitt sinn í matvöruverslunum á Íslandi (getið athugað í Ostabúðinni Bitruhálsi). Ég hef notað skyr í staðinn fyrir kvarg og það hefur gefist vel en er aðeins bitrara á bragðið.

Hvar fæst hreint, lífrænt framleitt hlynsíróp (enska: maple syrup)

Hreint hlynsíróp fæst í öllum heilsubúðum og í heilsuhillum stærri matvöruverslana. Hægt er að kaupa hlynsíróp sem ekki er lífrænt framleitt en gætið þess að það sé hreint og án viðbætts sykurs, bragðs eða litarefna. Hlynsíróp er ægilega dýrt en alveg hryllilega gott og hægt að nota í margt. Það hentar vel í drykki alls konar sem og í smákökur.

Hvað er Curd cheese (íslenska: ystingur, hleypiostur)

Curd cheese er afar sniðug afurð, unnin úr mjólk. Þessi ostur er mjúkur, frekar fitulítill (um 12%) og líkist helst smurosti. Curd ostur (kallaður ystingur eða hleypiostur) fæst ekki svo ég viti, á Íslandi. Ég hef notað þennan ost í ostakökur enda mjög heppilegur til baksturs í ofni þar sem hann heldur sér alveg í hita og maður þarf ekki matarlím. Ég held að þessi ostur fáist því miður ekki á Íslandi, er búin að spyrjast fyrir í Ostabúðinni (reyndar dáldið langt síðan). Nota má Philadelphia Light smurostinn í staðinn. Ég er almennt ekki hrifin af slíkum afurðum en í ostaköku öðru hvoru (og ef úrvalið leyfir ekki annað) finnst mér þær þess virði.

Hvað er gelatín og í hvað er það notað?

Gelatín er prótein sem er yfirleitt unnið úr dýraafurðum (aðallega nautum og svínum) og inniheldur yfirleitt mulning úr beinum, liðum, brjóski, skinni, æðum og jafnvel hornum og klaufum. Mér er AFAR illa við að nota gelatín og myndi aldrei í lífinu borða það eða nota sjálf. Maður veit ekkert hvaðan þessi mulningur kemur og hvort að það séu einhverjir sjúkdómar tengdir honum (til dæmis Creutzfeldt-Jakob). Það eru alveg ótrúlega margar vörur sem innihalda gelatín og má þar nefna lýsistöflur (hylkin), hlaupkarlar, matarlím og þangað til fyrir stuttu, ýmsar íslenskar mjólkurvörur (því var hætt eftir mikil mótmæli frá neytendum fyrir nokkrum árum). Einnig er gelatín notað í ljósmyndafilmur sem og í húðina til að gera spil glansandi. Það er meira að segja notað af sundfólki sem stundar listdans í vatni því gelatínið leysist ekki upp í köldu vatni. Gelatín hefur einnig verið notað í snyrtivörur og kallast þá hydrolyzed collagen. Gelatín unnið úr sundmaga fiska er notað í bjór- og víngerð.

Sams konar efni er til fyrir grænmetisætur og kallast þá agar/agar agar/agar flakes eða pectin en er ekki prótein heldur kolvetni. Ef vörur eru merktar grænmetisætum (vegeterian) eða vegan (fyrir fólk sem borðar engar dýraafurðir þ.e. ekki mjólk, fisk, egg o.s.frv.) þá væru þær merktar með agar eða pectin í staðinn fyrir gelatín.

Hvað er MSG, er það hættulegt?

MSG (Monosodium Glutamate) er ekki lífshættulegt í sjálfu sér en þó hefur verið sýnt fram á (að því að talið er) að ýmis heilsufarsvandamál tengjast neyslu á MSG eins og til dæmis krabbamein (sumar tegundir), vandamál tengd nýrum, hjarta, maga, höfuðverkir, húðkvillar eins og ofnæmi og bólgur, mígreni, stirðleiki í liðum, stækkun á skjaldkirtli, snöggar breytingar í blóðþrýstingi (bæði hækkun og lækun) öndunarerfiðleikar, athyglisbrestur í börnum sem og hegðunarvandamál og svo mætti lengi, lengi telja. MSG er krydd sem er notað sem bragðauki og lítur út eins og salt. MSG finnst til dæmis í mörgum tegundum af kartöfluflögum, kryddum eins og Aromati og í alls konar tilbúnum réttum. Til dæmis gætu venjulegar pakkasúpur og matur af austurlenskum veitingastað (þó ekki Nings) innihaldið MSG. Það er góð regla að lesa á innihaldslýsingar og sneiða fram hjá öllu MSG, Monosodium Glutamate og öllum E-600 efnum. Mjög algengt er að sjá í Bretlandi að heilu veitingastaðirnir auglýsa að þeir séu ekki að nota MSG í matinn sinn enda fólk oft áhyggjufullt yfir notkun þess. Ef ykkur líður illa eftir að hafa borðað mat á veitingastað (höfuðverkur, þrútnir fingur, kláði) þá má hugsanlega kenna MSG um en einnig gæti ógreint fæðuofnæmi auðvitað spilað hlutverk. Ef þið eruð áhyggjufull, fáið að tala við kokkinn á veitingastaðnum og ef þeir geta ekki svarað til um það hráefni sem þeir eru að nota í matinn, myndi ég persónulega snúa viðskiptum mínum annað.

Það má geta þess að nokkrar tilraunir hafa verið gerðir í Bretlandi varðandi mataræði barna. Ein rannsókn var gerð á börnum sem bjuggu í athvarfi fyrir börn með afar erfið hegðunarvandamál. Prófað var að taka út öll aukaefni og sérstaklega E-600 efni í einn mánuð. Hegðun barnanna gjörbreyttist á stuttum tíma úr því að vera algerlega brjáluð í það að vera rólegri og hlýðnari. Þetta er ekki eina rannsóknin sem ég les varðandi þetta en talið er að athyglisbrestur og ofvirkni (ADHD attention deficit hyperactive disorder) megi að einhverju leyti skýra með mikilli aukningu á MSG í mat á síðustu árum. Auðvitað hljóta fleiri þættir að spila inn í og þó að rannsóknir séu ekki heilagar finnst mér þetta afar mikilvægur punktur. Afhverju ættu börnin (og við) að borða aukaefni í fyrsta lagi?

Hvað er spelti, er það ekki það sama og heilhveiti? Hvar fæst spelti?

Spelti er ekki það sama og heilhveiti þó það sé af skyldum stofni og líti nánast eins út malað. Spelti er elsta mjöltegund sem til er og hefur verið notað í meira en 7000 ár. Spelti er þeim eiginleikum gætt að það inniheldur fleiri B vítamín og meira af trefjum og 10-25% meira af próteinum en venjulegt hveiti og heilhveiti, þar sem vinnsluaðferðirnar eru ekki þær sömu og við hefðbundið hveiti. Spelti hefur afar sterkt, lokað hýði sem þýðir að ekki þarf að sprauta skordýraeitri á það við ræktun. Þeir sem þola illa hveiti þola gjarnan spelti í einhverju magni, jafnvel þeir sem hafa glútein ofnæmi. Ef þið hafið ekki reynslu af spelti er gott að blanda saman heilhveiti/hveiti og spelti til að byrja með og gera tilraunir með það áður en lengra er haldið. Ég nota nánast eingöngu grófmalað spelti (nema ég taki annað fram) en fínmalað hentar betur í pönnukökur og vatnsdeigsbollur. Þar sem ég nota ekki ger getur verið erfitt að fá spelti til að lyfta sér og það er aðeins viðkvæmara fyrir rakabreytingum en hveiti. Að öðru leyti nota ég spelti alveg nákvæmlega eins og ég myndi nota heilhveiti, sama magn og sömu vinnsluaðferðir. Spelti fæst í heilsuhillum allra matvöruverslana og auðvitað í heilsubúðum. Það er frekar dýrt svo gott er að drýgja það með t.d. íslensku byggmjöli (nota fjórðung af byggmjöli á móti spelti) en einnig má blanda því saman við heilhveiti.

Hvað er strásæta, er hún hættuleg?

Það eru til margar gerðir af strásætu t.d. Sakkarín og Aspartam en algengustu vörumerkin eru sennilega Canderel og Nutra Sweet strásætur og töflur. Aspartam var fyrst sett á markað 1963 og hefur verið notað æ síðan sem sætuefni í bakstur og matargerð. Sumir segja hana baneitraða, aðrir segja strásætu ekki eitraða. Ég nota&; aldrei strásætu sjálf enda er ég hrifnari af náttúrulegum vörum og afurðum. Flestar rannsóknirnar hafa verið gerðar á sætuefninu Aspartam (t.d. í Canderel) og er af sumum talið „hættulaust” nema fyrir þá sem þjást af phenylketonuria (það eru voða fáir sem þjást af þessum arfgenga sjúkdómi og er það mælt við fæðingu). Efnið Phenylalanine finnst í flestum strásætum og er ein af aminosýrunum sem er okkur nauðsynleg. Sumir hafa ekki ensímið sem þarf til að brjóta niður þessar aminosýrur og getur fólk, ef það fær ekki meðhöndlun og gætir ekki mataræðis, orðið þroskaheft. Aðrar rannsóknir hafa sýnt fram á tengsl ýmissa sjúkdóma og heilsufarsvandamála og sætuefna svo maður þarf eiginlega að treysta sinni eigin dómgreind og lesa sér til um málið til að taka afstöðu. Flestir þeir sem huga að heilsunni eru þó á móti tilbúnum sætuefnum. Sjálf nota ég frekar náttúruleg sætuefni eins og döðlusíróp, agavesíróp, hreint hlynsíróp, bygg-maltsíróp (enska: barley malt syrup), hrísgrjónasíróp (enska: brown rice syrup) og hunang. Mér finnst einhvern veginn eðlilegra fyrir líkamann að nota það sem er náttúrulegt heldur en það sem er búið til á tilraunastofu. Það verður bara hver að velja hvað hentar sér og sínum!

Hvað er tofu? Er tofu ekki bragðlaust?

Tofu er upprunalega japönsk afurð unnin úr sojabaunum, fyrst notuð upp úr 8. öld. Tofu er ekkert ósvipað mjúkum osti bæði í útliti og áferð en er þó alls ekki mjólkurvara. Hægt er að fá stíft eða mjúkt tofu. Tofu er nánast alveg bragðlaust, lyktarlaust og í hreinskilni sagt frekar ógeðfellt svona eitt og sér. Tofu er hins vegar afar gott í til dæmis drykki (sett í matvinnsluvél), í buff og sem uppfylling í alls kyns rétti eins og fylltar paprikur, í bakaðar kartöflur og fleira. Sumir marinera tofu og borða eitt og sér en mér finnst það persónulega ekki gott. Mér finnst áferðin eitthvað óspennandi og hálfpartinn klígjulegt að bíta í það. Tofu inniheldur frekar hátt hlutfall próteina en er auðvitað ekki unnið úr dýraafurðum. Ég nota bæði stíft og mjúkt tofu í þessa rétti mína en ef á að marinera tofubita þá þarf að nota stíft. Mjúkt tofu passar t.d. í staðinn fyrir skyr í alla drykki (sniðugt t.d. að nota ef þið hafið mjólkuróþol). Hægt er að fá reykt tofu en ég er ekkert rosalega hrifin af svona barbikjú bragði og oft er aukaefnum og bragðefnum bætt við. Áður en þið gefið mjög ungum börnum tofu eða aðrar sojavörur skuluð þið ráðfæra ykkur við lækni eða næringarfræðing.

Hvaða sykur er best að nota í bakstur?

Ég er hrifin af rapadura hrásykri sem er hráasta form af hörðum sykri sem til er. Hann hentar vel í allan bakstur nema marengs (því hann er brúnn að lit en þá má nota ljósan hrásykur í staðinn). Rapadura fæst í heilsubúðum sem og í heilsuhillum stærri matvöruverslana. Einnig má nota annan hrásykur.