Spergilkáls- og blómkálsréttur í ofni

Ég fékk þessa uppskrift af netinu fyrir hundrað árum. Þetta er bara svona ódýr grænmetisréttur í miðri viku, engin flottheit, ekkert flókið, bara hollt og gott. Rétturinn er líka fínn sem meðlæti.

Þessi uppskrift er:

  • Án eggja
  • Án hneta

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur

Spergilkáls- og blómkálsréttur í ofni

Fyrir 2

Innihald

  • 175 g blómkál, brotið í sprota
  • 175 g spergilkál (brokkolí), brotið í sprota
  • 125 ml hrein jógúrt
  • 100 g magur ostur, rifinn
  • 1 tsk hreint sinnep
  • 1 tsk agavesíróp
  • 2 msk brauðrasp (ristið spelt brauðsneið)
  • 0,5 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
  • 0,5 tsk svartur pipar

Aðferð

  1. Skerið blómkál og spergilkál í bita og sjóðið í söltu vatni í 8-10 mínútur. Kælið.
  2. Rífið ostinn og blandið honum saman við jógúrt, sinnep og agavesíróp.
  3. Kryddið með salti og pipar og hellið svo yfir grænmetið.
  4. Ristið spelt brauðsneið og myljið (getið sett í augnablik í matvinnsluvél eða blandara). Setjið brauðraspið yfir sósuna.
  5. Setjið í eldfast mót (óþarfi að smyrja mótið).
  6. Hitið við 200°C í 10-15 mínútur.

Gott að hafa í huga

  • Það er gott að bera fram tamarisósu og ferskt salat með þessum rétti.
  • Það er hægt að nota spelt hrökkbrauð í staðinn fyrir spelt brauðsneið. Mylja má hrökkbrauðið í höndunum eða setja það í poka og lemja með einhverju þungu.
  • Ef þið hafið mjólkuróþol getið þið notað sojaost og einnig getið þið notað sojajógúrt eða hafrarjóma í staðinn fyrir jógúrtina.
  • Nota má meira grænmeti í réttinn og t.d. er gott að setja sveppi, papriku, lauk o.fl. út í.
  • Ef þið hafið glúteinóþol getið þið notað glúteinlaust brauðrasp.