Spaghetti með sveppum

Þetta er fín og einföld uppskrift og þurrkuðu sveppirnir gefa sterkt og gott sveppabragð. Ef þið hafið glúteinóþol má skipta út spaghetti fyrir þykkar hrísgrjónanúðlur eða bókhveitisnúðlur (soba núðlur). Rétturinn er ódýr og fljótlegur og hentar vel í miðri viku þegar maður er á hraðferð en vill eitthvað gott í magann. Ef þið eruð klár á villta sveppi er upplagt að nota þá í réttinn.

Þessi uppskrift er:

 • Án mjólkur
 • Án eggja
 • Án hneta
 • Vegan

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

 • Án glúteins

Spaghetti með sveppum

Fyrir 2-3

Innihald

 • 150 g spelt spaghetti 
 • 1 laukur, saxaður
 • 2 hvítlauksgeirar, pressaðir
 • 1 msk kókosolía
 • 500 g sveppir, sneiddir eða saxaðir
 • 25 g þurrkaðir sveppir (t.d. blanda af Shiitake og Porcini sveppum)
 • Nóg af heitu vatni til að þekja þurrkuðu sveppina
 • 1 tsk steinselja (enska: parsley)
 • 0,25 tsk múskat (enska: nutmeg)
 • Salt (Himalaya eða sjávarsalt)
 • Hellingur af svörtum pipar
 • 1 tsk tamarisósa
 • Ferskur parmesan ostur, rifinn

Aðferð

 1. Látið þurrkuðu sveppina liggja í bleyti í 30 mínútur (ekki hella vatninu af)
 2. Afhýðið laukinn og hvítlaukinn. Saxið smátt.
 3. Hitið kókosolíu og smávegis af vatninu af þurrkuðu sveppunum. Steikið laukinn þangað til hann verður mjúkur.
 4. Bætið hvítlauknum út í og látið krauma í 1 mínútu.
 5. Sneiðið eða saxið sveppina (venjulegu sveppina). Gott er að nota bæði saxaða og sneidda sveppi fyrir fjölbreyttari áferð.
 6. Bætið þurrkuðu sveppunum saman við ásamt smávegis af vatninu. Gætið þess að steikja sveppina þannig þeir steikist í gegn (5-7 mínútur á háum hita).
 7. Bætið venjulegu sveppunum út í og hitið í nokkrar mínútur.
 8. Kryddið með salti, svörtum pipar, steinselju, múskati og tamarisósu. Sveppirnir mega verða frekar saltir þar sem þeir eru það eina sem gefur bragð í réttinum. Leyfið sveppunum að malla aðeins á pönnunni.
 9. Sjóðið spaghettiið samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum og hafið tilbúið um leið og sveppirnir eru tilbúnir þ.e. þannig að það sé sjóðandi heitt.
 10. Setjið spaghetti á diska og hellið sveppablöndunni ofan á. Magn fer eftir smekk.
 11. Rífið ferskan parmesan yfir sveppina.
 12. Skreytið með svolítið af steinselju ef þið viljið (ekki verra ef hún er fersk).

Gott að hafa í huga

 • Einnig má hita spaghettiið með sveppunum eftir að spaghettiið er tilbúið ef þið viljið frekar.
 • Gott er að bera fram snittubrauð með þessum rétti.
 • Ef þið hafið mjólkuróþol getið þið notað sojaparmesan eða rifið annan sojaost yfir.
 • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
 • Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.
 • Nota má sojasósu í staðinn fyrir tamarisósu en athugið að sojasósan inniheldur hveiti.
 • Nota má heilhveiti spaghetti í staðinn fyrir spelt spaghetti.
 • Ef þið eruð með glúteinóþol má nota hrísgrjónanúðlur eða bókhveitinúðlur í staðinn fyrir spaghetti.