Soba núðlusalat með wakame, engifer og grænmeti

Af því að ég er nýkomin frá Japan þá gat ég ekki annað en sett inn japanskan núðlurétt. Soba núðlur eru mikið notaðar í Japan og wakame sömuleiðis en wakame er þangtegund. Soba núðlur sem eru úr 100% bókhveiti henta þeim sem hafa glúteinóþol. Þetta salat er kalt sem þýðir að ekki þarf að eyða miklum tíma fyrir framan pottana og allt vítamínið úr grænmetinu fær að njóta sín til fulls þar sem það er hrátt. Þetta er sannkallað detox-salat. Japanar borða oft kaldar núðlur yfir sumarið og bera yfirleitt sósuna fram sér. Það er fátt sem mér finnst meira frábært í nestisboxið en þetta salat.

Uppskriftin er merkt sem&;án hneta&;en inniheldur sesamolíu og sesamfræ sem sumir hafa ofnæmi fyrir. Sleppa má olíunni og fræjunum ef þið hafið ofnæmi. Nota má aðrar núðlutegundir en soba núðlur í réttinn, t.d. hrísgrjónanúuðlur.

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta en með fræjum
  • Án hneta
  • Vegan

Soba núðlusalat með wakame, engifer og grænmeti

Fyrir 3-4

Innihald

  • 12 g wakame (fæst í flestum heilsubúðum, er brimsalt þang, dökkgrænt og hart)
  • 100 g soba núðlur (eða aðrar núðlur eftir smekk)
  • 1 stór gulrót sneidd í mjóar lengjur (eins og langar eldspýtur)
  • 1 gúrka, fræhreinsuð (miðjan skafin úr), sneidd í mjóar lengjur (eins og eldspýtur)
  • 2 msk þurrristuð sesamfræ
  • 2 vorlaukar, saxaðir smátt (grænu endarnir)
  • Lítill bútur (um 2 grömm) ferskt engifer, rifinn á rifjárni (má sleppa)
  • 2 tsk sesamolía
  • 4 msk límónusafi
  • 2 msk tamarisósa

Aðferð

  1. Leggið wakame í bleyti í kalt vatn í um 10 mínútur.
  2. Hellið vatninu af, fjarlægið harða stilka. Saxið þangið gróft.
  3. Saxið grænu enda vorlaukanna smátt.
  4. Flysjið gulrætur og skerið í mjóar lengjur eins og stórar eldspýtur.
  5. Flysjið gúrkuna, skafið miðjuna úr og skerið gúrkuna í mjóar lengjur eins og stórar eldspýtur.
  6. Afhýðið engiferið og rífið á rifjárni.
  7. Sjóðið núðlurnar samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum.
  8. Kælið núðlurnar í nokkrar sekúndur undir köldu, rennandi vatni þegar þær eru tilbúnar. Hellið af þeim og látið standa í sigtinu.
  9. Blandið saman núðlunum, saxaða vorlauknum, gulrótinni, gúrkunni og rifna engiferinu í stóra skál.
  10. Blandið saman sesamolíunni, límónusafanum og tamarisósunni og hellið yfir salatið eða berið fram í sér skál (eins og Japanar gera).
  11. Berið fram í djúpum skálum með prjónum.

Gott að hafa í huga

  • Nota má annað grænmeti í staðinn fyrir gúrku og gulrót, t.d. paprikur, kúrbít, baunaspírur og einnig má nota brokkolí, blómkál o.fl.
  • Einnig má nota blaðlauk í staðinn fyrir vorlauk og svört sesamfræ í staðinn fyrir ljós.
  • Nota má sojasósu í staðinn fyrir tamarisósu en athugið að sojasósa inniheldur hveiti.