Skyrkrem á kökur

Þetta krem passar á nánast allar kökur nema kannski ostakökur. Það kemur í stað flórsykurs- eða smjörkrema sem ég myndi aldrei í lífinu láta inn fyrir mínar varir. Þetta krem er fullt af próteini, er mjög létt í maga og inniheldur einungis sætt bragð úr þurrkuðum ávöxtum og hlynsírópi ásamt stevia. Hvernig fólk hefur samvisku að borða kökukrem sem inniheldur flórsykur, smjör, rjóma og eitthvað álíka gáfulegt ofan á sykursjokkskökur er langt út fyrir minn skilning. Ef þið eruð að leita að svoleiðis kremi eruð þið augljóslega ekki á réttri vefsíðu :)

Athugið að nauðsynlegt er að nota matvinnsluvél til að útbúa þessa uppskrift.

Þessi uppskrift er:

Skyrkrem á kökur

Fyrir eina köku

Innihald

  • 75 g döðlur, saxaðar gróft
  • 75 g aprikósur (þessar brúnu, lífrænt ræktuðu), saxaðar gróft
  • 200 g hreint skyr
  • 1 tsk vanilludropar (úr heilsubúð)
  • 60 ml hreint hlynsíróp eða hrátt agavesíróp
  • 3 dropar stevia án bragðefna

Aðferð

  1. Saxið döðlur og aprikósur gróft og leggið í sjóðandi heitt vatn í um 30 mínútur eða lengur.
  2. Hellið öllu vatninu af (geymið nokkrar matskeiðar ef þarf) og setjið ávextina í matvinnsluvél. Blandið í um 30 sekúndur eða þangað til vel maukað. Ef illa gengur að mauka ávextina er gott að setja nokkrar matskeiðar af vatninu út í. Einnig má nota appelsínusafa.
  3. Skafið hliðar matvinnsluvélarinnar, setjið skyr og vanilludropa saman við og maukið í um 1 mínútu.
  4. Á meðan vélin vinnur skuluð þið hella hlynsírópinu út í, í mjórri bunu. Maukið í um 1 mínútu eða þangað til kremið er orðið vel blandað og mjúkt. Bætið steviadropunum út í og blandið aðeins áfrma. Það ætti helst ekki að vera hægt að greina döðlubita eða aprikósubita en ef þið eruð ekki með öfluga matvinnsluvél er líklegt að þið sjáið einhverja bita. Kremið verður ljósgulbrúnt á lit.
  5. Kælið kremið í um klukkustund (eða lengur ef það er mjög lint). Það er auðveldara að smyrja kreminu á köku ef það er stíft.

Gott að hafa í huga

  • Kremið geymist í allt að viku í ísskáp ef það er pakkað inn í plast.
  • Gott er að setja svolítinn kanil út í kremið ef það á t.d. að vera ofan á gulrótarköku.
  • Kremið passar sérlega vel á gulrótarkökur sem og á formkökur (cupcakes).
  • Mikilvægt er að nota lífrænt framleiddar aprikósur (þessar brúnu) því þessar appelsínugulu hafa verið meðhöndlaðar með efnum svo þær líti betur út. 
  • Sleppa má aprikósunum og nota einungis döðlur í staðinn.
Ekkert, notaði: 5