Skyr (kvarg) bollur

Kvarg (Quark) er fitulaus mjúkostur sem fæst t.d. í London. Hann fékkst eitt sinn á Íslandi en sölu hans var hætt, því miður enda er hráefnið eðalgott t.d. í bakaðar ostakökur. Eitt sinn sem oftar var ég á leið til Íslands frá London (flaug á tveggja ára tímabili, heim einu sinni í mánuði). Ég átti til svolítið af kvargi (var í London) og næstum hálfan lítra af jógúrti og ég vissi ekkert hvað ég átti að gera við það (ég tími aldrei að henda hráefni). Ég ákvað að prófa það bara í brauðbollur og kom bara nokkuð vel út. Kvargið er nokkuð beiskt/rammt svo það þarf að setja a.m.k. 1 msk af agavesírópi til að vinna á móti beiska bragðinu. Hægt er að nota skyr í stað kvargs.

Þessi uppskrift er:

 • Án eggja
 • Án hneta en með fræjum
 • Án hneta

Skyr (kvarg) bollur

Gerir 12-15 bollur

Innihald

 • 550 g spelti
 • 50 g hveitiklíð (má nota meira spelti í staðinn)
 • 2 tsk vínsteinslyftiduft
 • 1 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
 • 30 g haframjöl
 • 400 ml hrein jógúrt
 • 100 ml skyr (eða kvarg)
 • 1 mtsk agavesíróp
 • 200-300 ml vatn eða undanrenna eftir þörfum, deigið á að vera frekar blautt
 • 40 g „rúgflögur” (enska: rye flakes) eða haframjöl
 • 30 g sólblómafræ

Aðferð

 1. Hrærið saman í stóra skál; spelti, vínsteinslyftidufti, hveitiklíð, salti og haframjöli. 
 2. Þurristið rúgflögurnar á pönnu þangað til þær eru orðnar vel brúnar (1-2 mínútur). Bætið þeim í skálina.
 3. Hrærið saman agavesíróp, jógúrti, skyri og helmingnum af vatninu.
 4. Bætið vökvanum út í. Gætið þess að deigið verði ekki of blautt. Deigið á að vera þannig að það hægt sé að móta bollur með góðu móti án þess að hægt sé að hnoða það. Bætið meiri vatni í deigið ef þarf.
 5. Hrærið deigið gætilega (aðeins 8-10 sinnum), alls ekki má hræra deigið of mikið.
 6. Bætið sólblómafræjunum út í og hrærið nokkrum sinnum.
 7. Skiptið deiginu í 12 búta og mótið bollur. Einnig er gott að nota ískúluskeið.
 8. Setjið bökunarpappír á bökunarplötu.
 9. Búið til bollur úr deiginu og setjið á plötuna.
 10. Bakið við 180°C í 30-35 mínútur.

Gott að hafa í huga

 • Það má setja hvað sem er í þetta brauð, prófið t.d. gulrætur, sesamfræ, hörfræ, hirsi, birkifræ o.s.frv.
 • Til að þurrrista á pönnu er best að hita pönnu á fullum hita og rista flögurnar í 1-2 mínútur. Gott er að hrista pönnuna öðru hvoru.
 • Í staðinn fyrir venjulega jógúrt og skyr má nota gríska jógúrt.