Sítrónugraste úr kryddskóginum á Zanzibar

Þetta te fékk ég á Zanzibar haustið 2007. Þar fórum ég og Jóhannes að skoða kryddskóg, svonefndur af því að í honum vaxa kryddjurtir eins og negull, kanill, kardimommur, vanilla, pipar, sítrónugras, turmeric, múskat og margar fleiri jurtir. Það eru nokkrir svona um Zanzibar ásamt kaffiskógum sem við skoðuðum líka. Að vera í svona kryddskógi er eins og að vera í ævintýri og maður trúir því varla að maður sé að horfa á vanillujurtina eða að maður hafi óþroskaða negulnagla í höndunum, að klóra börkinn af kaniltrénu o.s.frv. Maður nuddar blöðum kryddjurtanna á milli fingranna og búmm...kryddlyktin stígur upp eins og fyrir galdur. Í tæpum 40 stigum og steikjandi sól er ekkert skrýtið þó að skógurinn ilmi eins og kryddbúð. Dásamlegt. Í þessum skógi býr fólk sem vinnur við að rækta kryddplöntur og selja. Við vorum með leiðsögumann með okkur sem sýndi okkur alla töfra kryddanna og þegar við vorum alveg að verða búin í kryddferðinni (sem tók alveg 2 tíma) þá fór hann með okkur í hús þar sem kona kom með heitan vökva í bolla (bollann sem þið sjáið á myndinni). Fyrst fannst mér skrýtið að drekka heitan vökva í þessum hita en af því að við vorum farin að venjast hitanum vel eftir 3ja vikna veru í Afríku þá var þetta allt í lagi og meira en það. Drykkurinn var dásamlega ferskur. Aðeins heitt vatn, sítrónugras og hrásykur (ég nota agave síróp). Þennan drykk á ég eftir að gera oft, ekki síst á veturna.


Þessa mynd tók ég af teinu sem ég fékk í skóginum

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án mjólkur
 • Án eggja
 • Án hneta
 • Vegan

Sítrónugraste úr kryddskóginum á Zanzibar

Fyrir 2

Innihald

 • Tveir stilkar sítrónugras (enska: lemon grass), saxaðir í 2-3 bita
 • 400 ml vatn
 • 1-2 msk agavesíróp

Aðferð

 1. Skerið sítrónugrasið í nokkra búta. Setjið sítrónugrasið í pott ásamt vatninu og sjóðið í um 5 mínútur.
 2. Sigtið sítrónugrasvatnið í stóra könnu. Fleygið sítrónugrasinu.
 3. Blandið agavesírópinu út í eftir smekk.
 4. Berið fram heitt.
 5. Til að fá auka sítrusbragðið má setja smá skvettu af límónusafa út í.

Gott að hafa í huga

 • Teið má einnig drekka kalt, með ísmolum. Bætið þá aðeins af agavesírópi við út í teið.