Sesam- og döðlu orkubitar
Sesamfræ eru kalk- og próteinrík og valhnetur eru fullar af omega 3 fitusýrum sem eru svo góðar til að sporna gegn hjartasjúkdómum og of háum blóðþrýstingi. Þar sem líkaminn framleiðir ekki þessar mikilvægu fitusýrur er nauðsynlegt fyrir okkur að hjálpa honum aðeins með því að borða t.d. lúku af valhnetum öðru hvoru. Valhnetur hafa einnig þótt hjálpa einstaklingum með exem og önnur húðvandamál sem og fólki með astma. Valhnetur innihalda einnig ellagic acid sem eru sýrur sem eiga að hjálpa til við að sporna gegn krabbameini en einnig styðja þær við ónæmiskerfið.  Þessir bitar eru upplagðir þegar mann langar í eitthvað hollt en gott svona á milli mála. Mér finnst best að frysta bitana og borða þá nánast frosna því þeir verða svolítið klístraðir. Það má einnig nota blönduna sem kökubotn eða sem konfekt. Nota má sólblómafræ á móti sesamfræjunum.
Athugið að nauðsynlegt er að nota matvinnsluvél fyrir þessa uppskrift. Einnig þurfið þið 20 sm ferkantað form.
Sesambitar, pakkfullir af vítamínum og hollustu
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án eggja
- Vegan
- Hráfæði
Sesam- og döðlu orkubitar
Innihald
- 100 g valhnetur
- 100 g sesamfræ
- 180 g döðlur (mjúkar, eða lagðar í bleyti í um klukkustund)
- 240 g rúsínur
- 2-4 msk hreinn appelsínusafi (ef þarf)
Aðferð
- Setjið valhnetur og sesamfræ í matvinnsluvél. Malið í nokkrar sekúndur eða þangað til hneturnar eru smátt saxaðar (en ekki maukaðar). Setjið í stóra skál.
- Ef döðlurnar voru í bleyti, hellið þá af þeim og setjið þær í matvinnsluvélina ásamt rúsínum. Blandið í um 10 sekúndur eða þangað til döðlurnar eru smátt saxaðar án þess að vera maukaðar. Bætið svolitlu af appelsínusafa við ef illa gengur að blanda (athugið samt að blandan má ekki vera of blaut). Setjið út í stóru skálina.
- Setjið bökunarpappír eða plastfilmu ofan í 20 sm ferkantað form.
- Þrýstið blöndunni mjög fast ofan í botninn.
- Frystið í 30 mínútur.
- Takið úr frystinum og skerið í 12-16 bita.
- Geymið í frysti eða kæli.
Gott að hafa í huga
- Það má einnig nota blönduna sem kökubotn eða í konfekt.
- Nota má sólblómafræ á móti sesamfræjunum.
- Nota má pecanhnetur í staðinn fyrir valhnetur.
Ummæli um uppskriftina
28. júl. 2011
Sæl Sigrún,
heldur þú að það sé ekki í lagi að minnka rúsínu magnið og setja meira af döðlum og öðrum þurrkuðum ávöxtum í staðinn?
29. júl. 2011
Það ætti að vera í fínu lagi, getur meira að segja sleppt rúsínunum og notað hina ávextina í staðinn :)
03. feb. 2012
Ég prófaði að búa til kúlur og velta uppúr kókosmjöli, alveg svakalega gott :)
04. feb. 2012
Sniðugt að velta upp úr kókosmjöli :)