Sætar kartöflur og spergilkál

Sætar kartöflur eru yfirleitt mjög vinsælar hjá yngstu sælkerunum. Þær eru auðmeltar, góðar og sætar og innihalda fullt af vítamínum. Til að koma járnríkri fæðu eins og spínati og spergilkáli í börnin getur verið gott að bæta sætum kartöflum við. C vítamínið í sætu kartöflunni aðstoðar einnig við upptöku á járninu. Þetta mauk hentar um 7-8 mánaða börnum en með því að mauka það meira má gefa maukið frá 6 mánaða aldri (fyrr ef þau eru farin að fá fasta fæðu). Gjarnan má bæta við öðru grænmeti eins og steinseljurót, rófum, gulrótum o.fl. Maukið hentar einnig vel sem grunnmauk með kjöti eða fiski sem viðbót.

Athugið að skammtastærðin er einungis viðmið. Sum börn þurfa meira og önnur minna. Einnig getur skipt miklu máli hvort barn er byrjað að skríða og hreyfa sig, varðandi hversu mikið það borðar.
 


Sætar kartöflur og spergilkál

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án eggja
  • Án hneta

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

  • Án mjólkur
  • Vegan (fyrir jurtaætur)

Sætar kartöflur og spergilkál

Gerir 6-8 skammta

Innihald

  • 175 g spergikál (brokkolí), þvegið og brotið í sprota
  • 175 g sætar kartöflur, skrældar, þvegnar og saxaðar gróft
  • 1-2 tsk soðvatn eða móðurmjólk/þurrmjólk/stoðmjólk
  • 1 tsk kókosolía (eða önnur olía) eða smjör
     

Aðferð

  1. Þvoið spergilkálið og brjótið í sprota.
  2. Skrælið sætu kartöflurnar, þvoið og saxið gróft.
  3. Gufusjóðið spergilkálið og kartöflurnar í 15-20 mínútur eða þangað til grænmetið er orðið mjúkt.
  4. Notið töfrasprota til að mauka hráefnið en einnig má nota matvinnsluvél eða blandara. Fyrir yngri börn skal gæta þess að engir stórir bitar séu eftir en fyrir börn sem eru nær 9 mánaða mega vera litlir bitar í maukinu.
  5. Bætið olíu og mjólk saman við og hrærið vel.

Gott að hafa í huga

  • Maukið má frysta en athugið að það verður ekki fallegt á litinn.
  • Gott er að frysta maukið í ísmolabox. Setjið svo molana í góða frystipoka. Merkið pokana með innihaldi og dagsetningu. Í góðum frysti geymist frosinn barnamatur í nokkra mánuði.
  • Börn eiga misjafnlega auðvelt með að kyngja mat svo bætið við meira af vatni/mjólk ef ykkur finnst það henta.
  • Gott getur verið að bæta við meira magni af móðurmjólk/þurrmjólk/stoðmjólk út í maukið í fyrstu skiptin, þannig fæst kunnuglegt bragð sem sumum börnum líkar vel.
  • Gott er að blanda svolitlu af hrísmjöli/maísmjöli/hirsimjöli saman við grautinn til að fá matarmeiri graut.
  • Ég nota einungis lífrænt ræktað hráefni í barnamat og ég gufusýð alla ávexti og allt grænmeti.
  • Vörur frá Holle, Babynat, Baby Organic og Organix eru mjög góðar og mæli ég með þeim.
  • Ef þið eruð stödd þar sem þið getið ekki blandað hráefnið má bjarga sér með hvítlaukspressu (fyrir litla skammta)!