Rúsínuhafrakökur

Þessar smákökur eru svo, svo góðar og jólalegar og það kemur hreint út sagt yndisleg lykt í húsið þegar maður bakar þær. Smákökurnar eru líka nokkuð hollar miðað við smákökur og ég lauma oft nokkrum í nestisboxið í kringum jólatímann.


Hollar smákökur fyrir jólin

Þessi uppskrift er:

 • Án mjólkur
 • Án hneta

Rúsínuhafrakökur

Gerir um 40 kökur

Innihald

 • 250 g rúsínur, saxaðar frekar smátt
 • 150 g haframjöl
 • 125 g spelti
 • 1 msk kanill
 • 0,5 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
 • 2 tsk vínsteinslyftiduft
 • 200 g rapadura hrásykur (eða annar hrásykur)
 • 130 ml lífrænt framleiddur barnamatur án sykurs; epla-, peru-, eða aprikósumauk
 • 3 egg
 • 5 msk kókosolía
 • 3-4 msk appelsínusafi (hreinn) ef þarf

Aðferð

 1. Saxið rúsínurnar nokkuð smátt.
 2. Sigtið saman í stóra skál: kanil, spelti, lyftiduft og salt. Hrærið haframjölinu saman við.
 3. Í annarri skál skuluð þið hræra saman eggjum, rapadura hrásykri, kókosolíu og barnamat. Hrærið vel og hellið út í stóru skálina.
 4. Hrærið varlega og bætið rúsínunum varlega út í. Bætið appelsínusafa út í ef deigið er of þurrt. Deigið á að vera þannig að það klístrist við skálina og sé of blautt til að hnoða það, samt ekki það blautt að það myndi leka af sleif.
 5. Kælið deigið í um klukkustund.
 6. Setjið bökunarpappír á bökunarplötu. Búið til kúlur með teskeið og setjið á plötuna. Hafið um 1 sm bil á milli.
 7. Þrýstið létt ofan á hverja kúlu með gaffli (gott að bleyta hann á milli).
 8. Bakið við 200°C í um 20 mínútur eða þangað til kökurnar eru orðnar gullbrúnar.

Gott að hafa í huga

 • Athugið að smákökurnar eru bestar nýbakaðar. Frystið þær smákökur sem þið borðið ekki samdægurs og hitið svo upp síðar. Þær verða eins og nýbakaðar.
 • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
 • Ég nota Hipp Organic, Organix eða Holle barnamat. Þessi merki eiga það sameiginlegt að vera lífrænt framleidd og eru ekki með viðbættum sykri.
 • Í staðinn fyrir barnamat má nota eplamauk (enska: Apple sauce) úr heilsubúð eða heilsudeildum matvöruverslana.
 • Ef afgangur er af barnamatnum má frysta hann í ísmolabox og nota í drykk síðar (smoothie).
 • Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.
 • Nota má saxaðar hnetur (t.d. valhnetur) í smákökurnar.
 • Nota má smátt saxaðar döðlur eða aprikósur í staðinn fyrir rúsínur (eða á móti þeim).

Ummæli um uppskriftina

Kaja
15. des. 2010

Frábært að finna svona,
er akkúrat í nammi og kökubindi, sýnist þetta henta mjög vel ;)
og auðvita líka hinar uppskriftirnar