Pönnsur (pönnukökur)

Hér er fín uppskrift af speltpönnukökum. Pönnukökur með góðri hindberja- eða jarðarberjasultu (og svolítilli slettu af þeyttum rjóma) er eitt það besta sem ég fæ. Nammi namm. Ég borða aldrei nokkurn tímann rjóma nema í pönnukökur en einhvers staðar verða vondir að vera ekki satt? Uppskriftin er blanda úr mörgum því ég er búin að prófa margar í gegnum tíðina og þessi er best finnst mér. Pönnukökubakstur er ekki endilega auðveldur í fyrstu skiptin svo það er að ýmsu að huga (sjá ráð hér að neðan).&; &;

Það er gott að æfa sig nokkrum sinnum áður en þið fáið gesti í pönnsukaffi, þannig er minna stress þegar stóra stundin rennur upp! Hafið í huga að bestu pönnsubakararnir eru ömmur og afar sem hafa bakað pönnsur í 40 ár svo það gildir hér eins og í mörgu að æfingin skapar meistarann. Amma hans Jóhannesar gerði til dæmis heimsins fallegustu pönnukökur, jafnar, sléttar og ljósbrúnar. Algjörar vinningspönnukökur. Mínar myndu eflaust ekki einu sinni ná í topp 40 sæti í fegurðarsamkeppni en þær eru bragðgóðar engu að síður. Þær eru heldur þykkari en venjulegar pönnukökur úr hveiti en mér finnst það ekki koma að sök.

Pönnukökupönnur fást í búsáhaldabúðum og víðar.


Er eitthvað betra en pönnsur með sultu og rjóma?

Þessi uppskrift er:

  • Án mjólkur
  • Án hneta

Pönnsur (pönnukökur)

Fyrir 3-4

Innihald

  • 300 g fínmalað spelti
  • 1 msk vínsteinslyfiduft
  • 2 egg
  • 1 tsk vanilludropar (úr heilsubúð)
  • 500-550 ml sojamjólk (eða önnur mjólk), meira eða minna eftir þörfum
  • 1 tsk agavesíróp ef mjólkin er ósæt
  • 1 msk kókosolía
  • 50 ml kaffi (koffeinlaust), má sleppa

Aðferð

  1. Sigtið saman í stóra skál; fínmalað spelti og lyftiduft. 
  2. Í annarri skál skuluð þið hræra saman eggjum, vanilludropum og a.m.k. 500 ml af mjólkinni ásamt agavesírópi ef mjólkin er ekki sæt. Hellið varlega út í stóru skálina og hrærið allan tímann. Notið sósupískara til að hræra alla kekki út.
  3. Bætið kókosolíunni saman við og hrærið vel, deigið á að vera eins kekkjalaust og hægt er. Ef kekkir eru í því er óhætt að baka pönnukökurnar en þær verða ekki mjög fallegar.
  4. Athugið að deigið á að vera frekar þunnt þannig að ef þið stingið skeið ofan í ætti deigið að leka umsvifalaust af bakhliðinni, í þunnri bunu en samt ekki það þunnt að deigið sé eins og mjólk. Bætið meiri mjólk ef þarf meiri vökva og/eða kaffi.
  5. Hitið pönnukökupönnuna í hæsta hita og lækkið svo niður í miðlungshita. Stundum þarf að stilla hitann af þ.e. hækka aðeins hitann og lækka aftur á meðan er verið að baka pönnukökurnar.
  6. Berið kókosolíu með þurrku á pönnuna, örþunnt.
  7. Setjið u.þ.b. eina ausu af deigi á pönnuna og látið þekja alla pönnuna. Gerið þetta hratt svo að þið getið látið afganginn af deiginu leka aftur niður í deigskálina, annars verður pönnukakan of þykk. Hún á að vera eins þunn og hægt er.
  8. Þurrkið deigafgang af pönnukökupönnunni með ausunni (fjarlægið köggulinn því annars verður deigið kekkjótt).
  9. Losið pönnukökuna með pönnukökuspaða og setjið á disk.
  10. Sjá ráð hér fyrir neðan varðandi það ef baksturinn er ekki að takast sem skyldi.
  11. Endurtakið með afganginn af deiginu, ef það er of þykkt (þykknar oft þegar neðar dregur) má bæta meira kaffi eða mjólk út í.
  12. Berið fram með venjulegum rjóma, cashewrjóma (sojarjóma ef þið viljið), bláberjasultu, döðlusultu, rabarbarasultu eða öðrum sultum, hreinu hlynsírópi, agavesírópi, hrásykri og öllu því sem ykkur langar að hafa með!

Gott að hafa í huga

  • Best er að vera með alvöru pönnukökupönnu. Hana má ekki þvo með sápu og helst ekki með vatni heldur. Nóg er að strjúka af henni með þurrku.
  • Hellan þarf að vera nógu stór til að ná alveg út að brúnum pönnunnar til að jafn hiti náist.
  • Hellan þarf að vera á réttum hita þ.e. mjög heit fyrst og lækkið svo niður í meðal hita áður en þið farið að baka pönnukökurnar.
  • Það tekur svolítinn tíma að stilla hitann af því pannan má ekki vera of heit né köld.
  • Ef göt myndast í deiginu um leið og þið setjið deigið á pönnuna, er pannan líklega of heit. Lækkið hitann aðeins og prófið aftur.
  • Ef þið getið ekki losað pönnukökuna frá pönnunni eftir um 10 sekúndur er pannan líklega of köld. Hækkið hitann aðeins og prófið aftur.
  • Ef pönnukakan festist strax við pönnuna er hugsanlegt að deigið sé of þunnt, bætið þá aðeins af spelti út í.
  • Af því tímafrekt er að baka pönnukökur baka ég alltaf meira til að nota í crepes (pönnukökur með mat innan í og set í frystinn. Best er þá að sleppa kaffinu.
  • Best er að nota fínmalað spelti í pönnukökur en það má líka nota grófmalað.
  • Pönnukökur úr spelti verða alltaf aðeins þykkari en þær sem eru úr hveiti því það er öðruvísi glúteinsamsetning í speltinu þ.e. „minni teygja” í speltinu).
  • Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.
  • Nota má undanrennu, hrísmjólk, haframjólk eða möndlumjólk í staðinn fyrir sojamjólk.
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.