Pistachiomjólk

Þetta er frábær morgundrykkur, mátulega sætur og afar saðsamur. Gefið ykkur nokkurra klukkustunda fyrirvara áður en þið gerið drykkinn því það er gott að mýkja pistachiohneturnar upp í vatni áður en maður blandar þær.

Athugið að þið þurfið blandara til að útbúa þessa uppskrift.

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án mjólkur
 • Án eggja
 • Vegan

Pistachiomjólk

Fyrir 2

Innihald

 • Nokkrir ísmolar
 • 50 g pistachiohnetur, ósaltaðar
 • Volgt vatn
 • 1 vel þroskaður banani
 • 1 msk agavesíróp
 • 300 ml sojamjólk (eða önnur mjólk)

Aðferð

 1. Hellið volgu vatni yfir pistachiohneturnar og látið þær liggja í vatninu í 2-3 klukkustundir.
 2. Fjarlægið brúna hýðið af hnetunum ef eitthvað hýði er á þeim (hægt að nudda af með fingrunum).
 3. Þegar hneturnar eru orðnar mjúkar og lausar við hýði, hellið þá vatninu af hnetunum og setjið þær í blandara ásamt 50 ml af sojamjólk. Blandið í um 20 sekúndur eða þangað til pistachiohneturnar eru orðnar að mauki. Þeim mun maukaðri sem hneturnar eru þeim mun mýkri áferð verður á drykknum.
 4. Setjið ísmolana í blandarann ásamt 50 ml af sojamjólkinni og blandið í 5 sekúndur.
 5. Bætið banana, agavesírópi og afganginum af sojamjólkinni út í blandarann. Blandið í um 1 mínútu á fullum krafti.
 6. Hellið í glös og berið fram strax. Gott er að setja skeiðar í glösin þar sem svolítið af hnetunum sest í botninn.

Gott að hafa í huga

 • Nota má undanrennu, hrísmjólk, haframjólk eða möndlumjólk í staðinn fyrir sojamjólk.
 • Sigta má mjólkina í gegnum fíngata sigti til að losna við hratið og stærri hnetubita en mér finnst bara gott að hafa það í glösunum.
 • Nota má sömu aðferð til að útbúa mjólk úr öðrum hnetum sem og möndlum.