Páskaegg

Ég hef stundum gert páskaegg úr súkkulaði í gegnum tíðina. Ég er samt mjög mikill klaufi þegar kemur að páskaeggjagerð og ég held að það sem mér finnst mest pirrandi er að ná skeljunum úr mótinu án þess að þær fari í spað og verði mattar og ljótar. Ég á ekki páskaeggjamót úr siliconi en þau eru, að ég held, fáanleg erlendis. Að búa til sitt eigið egg er ekkert endilega sérstaklega ódýrt, nema maður geri lítil egg og noti ódýrt hráefni (sem lífrænt framleitt, gott súkkulaði er ekki). Mitt mót er álíka og avocado að stærð og maður þarf nánast 200 g af súkkulaði svo að vel sé, með botni, samskeytum og öllu. Ef maður gerir 2 egg er það fljótt að koma í verði. Það er samt skemmtilegt að búa til egg og maður ætti ekki að sleppa því þó það kosti eitthvað pínulítið meira...það er þess virði. Það sem mér finnst skemmtilegast að gera er að útbúa nokkur lítil egg, ásamt heimatilbúnu konfekti og setja saman í körfu. Það er líka fallegra finnst mér því stærri páskaegg geta verið svolítið klunnaleg (en það er kannski bara af því ég er klaufi). Annað sem ég á alltaf í erfiðleikum með, er að láta súkkulaðið storkna þannig að hægt sé að nota það í skreytingar. Það tekur óratíma svo maður þarf að gefa sér góðan tíma. Þetta á a.m.k. við Green & Black's og Rapunzel súkkulaðið. Gott er að bræða það tvisvar, það er auðveldara í meðhöndlun þannig. Athugið að plastmótin fyrir páskaegg fást í stærri matvöruverslunum. Gott er að nauta tauhanska ef þið eigið svoleiðis, eða fínan klút. Þið getið notað dökkt eða ljóst súkkulaði, allt eftir smekk og þið getið líka stýrt framleiðslunni þannig að hún henti t.d. þeim sem hafa mjólkuróþol. Athugið að páskaeggjagerðin virkar hroðalega flókin en hún virkar flóknari en hún er því ég er búin að brjóta undirbúninginn niður í mörg stig til að hún verði sem auðveldust fyrir ykkur, skref fyrir skref.


Páskaegg með heimatilbúnu konfekti

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án eggja
  • Án hneta

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

  • Án mjólkur
  • Vegan (fyrir jurtaætur)

Páskaegg

Gerir 1 egg (eins og stórt avocado að stærð) eða fleiri minni

Innihald

  • 200 g dökkt (eða ljóst), lífrænt framleitt súkkulaði með hrásykri (t.d. Rapunzel eða Green & Black's)
  • Heimatilbúið konfekt, þurrkaðir ávextir eða annað gotterí úr heilsubúð
  • 1 eða 2 páskaeggjamót (skeljar álíka stórar og stórt avocado/mango eða minni) og botn (en má sleppa honum)

Aðferð

Skeljarnar:

  1. Setjið mótin í ísskáp á meðan þið bræðið súkkulaðið.
  2. Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði. (Setjið svolítið vatn í lítinn pott. Setjið skál ofan á pott þannig að skálin sitji á brúnunum. Setjið súkkulaðið ofan í skálina og bræðið yfir vægum hita). Gætið þess að ofhita ekki súkkulaðið og það má alls ekki fara dropi af vatni ofan í skálina. Gott er að bræða súkkulaðið tvisvar sinnum (láta storkna alveg og bræða aftur).
  3. Látið súkkulaðið storkna aðeins.
  4. Hellið nokkrum matskeiðum ofan í annað plastmótið, látið súkkulaðið renna vel um kalt mótið. Einnig getið þið penslað súkkulaðinu. Látið súkkulaðið storkna (getið sett í ísskápinn í nokkrar mínútur).
  5. Endurtakið tvisvar í viðbót (þ.e. penslið súkkulaðið og kælið).
  6. Setjið að lokum eina góða rönd af súkkulaði meðfram brúninni (mesta hættan á broti).
  7. Setjið í ísskáp í nokkrar mínútur.
  8. Endurtakið með hitt plastmótið. Ef þið eruð einungis að nota eitt, þurfið þið að láta súkkulaðið storkna vel áður en þið notið mótið aftur. Gætið þess að enginn raki, fingraför eða ryk sé í mótinu.

Botninn:

  1. Hellið súkkulaði í botninn. Látið það storkna.

Að ná súkkulaðinu úr plastmótunum:

  1. Nú skuluð þið taka mótin tvö og leggja þau á hvolf ofan á disk. Leggið höndina yfir kúpta hlutann þannig að hlýja handarinnar hiti súkkulaðið eilítið. Losið mótið varlega frá (gott er að nota tauhanska til að káma ekki út eggið) og gætið þess að brjóta ekki skeljarnar. Þetta hefur reynst svolítið erfitt stundum og þá er bara að sýna þolinmæði.
  2. Ef eggið brotnar, má bræða súkkulaðið og byrja aftur.
  3. Endurtakið með hina skelina sem og botninn.

Fyllingin:

  1. Hafið til konfekt, þurrkaða ávexti eða annað gotterí sem þið viljið setja í eggið. Það er hægt að fá alls kyns gotterí í heilsubúðum sem fylla má svona egg með. Einnig er gaman að skrifa skemmtilegan og persónulegan málshátt og setja inn í eggið.

Hliðarnar (ekki skreyttar með sprautupoka):

  1. Ef ekki á að skreyta hliðarnar með súkkulaði úr sprautupoka: Setjið konfekt eða annað gotterí í aðra skelina. Penslið súkkulaði á brún skeljarinnar. Leggið hina skelina ofan á. Látið storkna. Penslið svolitlu (nánast storknuðu) súkkulaði ofan á botninn og leggið eggið ofan á. Haldið við í smá stund.

Hliðarnar (skreyttar með sprautupoka)

  1. Ef skreyta á hliðarnar með súkkulaði úr sprautupoka: Setjið konfektið í aðra skelina.
  2. Setjið nokkra dropa af súkkulaði á brúnir annarrar skeljarinnar. Leggið hina skelina varlega ofan á. Þær ættu að festast aðeins saman.
  3. Leggið allt til hliðar á meðan afgangurinn af súkkulaðinu storknar. Það þarf að vera þannig að hægt sé að draga skeið í gegnum súkkulaðið og það haldi enn þá lagi sínu án þess þó að vera hart.
  4. Setjið súkkulaði í sprautupoka og sprautið aðra hlið páskaeggsins. Látið storkna.
  5. Sprautið hina hlið páskaeggsins og látið storkna.
  6. Sprautið smá klessu ofan á botn páskaeggsins og leggið eggið ofan á. Haldið við í smástund á meðan það stífnar.

Skreyting ofan á:

  1. Ef þið viljið setja unga á toppinn (eða strump eða eitthvað annað smádót), setjið þá smá klessu af súkkulaði á toppinn og látið skrautið ofan á. Einnig má skreyta eggið með fallegum borða. Ef þið gerið nokkur lítil egg má raða þeim í fallega körfu, ásamt öðru gotteríi og skreyta svo með borða, páskaliljum eða öðru páskalegu dóti.

Gott að hafa í huga

  • Gott er að bræða súkkulaðið tvisvar, það er auðveldara í meðhöndlun þannig.
  • Plastmótin fyrir páskaegg fást t.d. í stærri verslunum (t.d. Hagkaupum).
  • Páskaeggin (allavega mín) verða mött fljótlega eftir að þau koma úr mótinu.
  • Þið getið notað dökkt eða ljóst súkkulaði, allt eftir smekk og þá getið þið stýrt því þannig að það henti t.d. þeim sem hafa mjólkuróþol.
  • Nota má carob í stað súkkulaðis og kakós. Carob hentar þeim sem eru viðkvæmir fyrir örvandi efnum kakósins og hentar því börnum vel. Carob fæst í heilsubúðum og heilsuhillum matvöruverslana. Það fæst bæði sem duft (eins og kakó) og í plötum (eins og súkkulaði).

Ummæli um uppskriftina

Berghildur Fanney Hauksdóttir
11. apr. 2011

Hæ hæ
Dóttir mín er með bráðaofnæmi fyrir hnetum þannig að ég ætla að gera eitt svona egg handa henni:)
En er ekki hægt að setja plastfilmu í botnin til að auðveldara sé að ná skeljunum úr?
kveðja
Fanney

sigrun
12. apr. 2011

Sæl Fanney

Það er hægt að setja plastfilmu í botninn en eggin verða ekki mjög falleg við það. Ef útlitið skiptir ekki máli þá auðvitað breytir það engu en eggið verður annars krumpað og svolítið ljótt :)

Kveðja

Sigrún