Paprikumauk með svörtum ólífum

Þetta er hollt og gott mauk, tilvalið ofan á snittur í boð eða ofan á ristabrauð í hádeginu. Best er að nota matvinnsluvél eða töfrasprota til að mauka. Maukið má frysta.

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta
  • Vegan

Paprikumauk með svörtum ólífum

Fyrir 2-3 á brauð sem meðlæti

Innihald

  • 2-3 rauðar paprikur
  • 1 msk sítrónusafi
  • 2 tsk capers, látið vökvann renna af
  • 1 hvítlauksrif, pressað
  • Ein lúka fersk steinselja, söxuð
  • 1 tsk cumin (ekki kúmen, kallast stundum jeerah)
  • 2 msk agavesíróp
  • 40 g svartar ólífur, skornar í þunnar sneiðar

Aðferð

  1. Skerið paprikurnar í 4 hluta, langsum. Hreinsið fræin og annað innan úr.
  2. Grillið paprikurnar í efstu rim í ofninum (skinnið á að snúa upp) undir mjög háum hita (helst á grillstillingu eða á hæsta hita) þangað til paprikurnar verða pínulítið svartar og blöðrur farnar að myndast utan á þeim. Best er að nota eldfast mót. Gæti tekið um 30-40 mínutur eða svo.
  3. Setjið paprikurnar heitar í plastpoka í 5 mínútur og plokkið svo skinnið af og hendið.
  4. Setjið nú paprikur, cumin, sítrónusafa, capers, steinselju og agavesíróp í matvinnsluvél (allt nema ólífurnar) þangað til allt er ágætlega blandað saman. Blandið lengur fyrir maukaðri áferð.
  5. Sneiðið ólífurnar og hrærið þær saman við.

Gott að hafa í huga

  • Gott er að bera maukið fram með hrökkbrauði, ristuðu brauði, setja ofan á snittur og margt fleira.
  • Gætið þess að bera ekki maukið fram of kalt því það missir svolítið bragð þannig.
  • Geymist í viku í ísskáp í lokuðu íláti.

Ummæli um uppskriftina

Þurý
02. okt. 2012

Þessi réttur er meiriháttar góður og get ég mælt með honum og er búin að' gera hann 2x, seinnaskiptið 3faldaði ég uppskriftina. :)

sigrun
02. okt. 2012

Gaman að heyra Þurý :)