Orkumuffins

Þessi uppskrift er dálítið tímafrek þannig að gefið ykkur góðan tíma ef þið ætlið að fara að baka hana. Hún er reyndar alveg þess virði og það er fátt betra en að gæða sér á nýbökuðum muffins, kaffi og appelsínusafa :) Þessir muffinsar eru mjög hollir og stútfullir af vítamínum (úr hnetunum, ávöxtunum, speltinu, sojamjólkinni o.s.frv.), hollri fitu, trefjum og flóknum kolvetnum. Þeir eru frekar hitaeiningaríkir því þeir innihalda kókosmjöl og hnetur og rúsínur og eru því upplagðir t.d. í gönguferðina eða útileguna. Þessir muffinsar eru líka alveg stórfínir sem morgunmatur því þeir eru svo saðsamir og orkumiklir.

Þessi uppskrift er:

 • Án mjólkur
 • Vegan

Orkumuffins

Gerir um 12 muffins

Innihald

 • 2 stórar gulrætur,skrældar og rifnar
 • 1 epli, afhýtt og rifið
 • 150 g ananaskurl í eigin safa
 • 50 g pecanhnetur eða valhnetur, saxaðar gróft
 • 350 g spelti
 • 1 msk kanill
 • 2 tsk vínsteinslyftiduft
 • 0,5 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
 • 150 ml sojamjólk eða önnur mjólk
 • 1 msk vanilludropar (úr heilsubúð)
 • 200ml lífrænt framleiddur barnamatur án sykurs; epla-, peru-, eða aprikósumauk
 • 2 egg
 • 100 g rapadura hrásykur (eða annar hrásykur)
 • 2 msk agavesíróp
 • 30 g kókosmjöl (má sleppa)
 • 50 g rúsínur

Aðferð

 1. Skrælið gulrætur og rífið gróft á rifjárni.
 2. Afhýðið epli, kjarnhreinsið og rífið á rifjárni.
 3. Saxið hneturnar frekar smátt.
 4. Sigtið safann frá ananskurlinu (safinn ekki notaður).
 5. Sigtið saman í stóra skál; spelti, vínsteinslyftiduft, salt og kanil. Bætið kókosmjöli út í og hrærið vel.
 6. Í annarri skál skuluð þið hræra eggjunum létt saman. Bætið vanilludropum, barnamat, sojamjólk og rapadura hrásykri saman við. Hrærið vel og hellið varlega út í stóru skálina.
 7. Bætið rúsínum, rifnu gulrótunum, rifna eplinu, ananaskurlinu og hnetunum saman við og veltið deiginu til (ekki hræra). Deigið má vera ljótt og kekkjótt og á að vera það blautt að það leki af sleif í stórum kekkjum en ekki t.d. það þurrt að hægt sé að hnoða það. Ef deigið er of þurrt má setja svolítið af ananassafnum eða sojamjólk út í.
 8. Takið til silicon muffinsform. Setjið nokkra dropa af kókosolíu í eldhúsþurrku og strjúkið holurnar að innan.
 9. Fyllið hverja holu nánast upp að rönd með deigi. Gott er að nota ískúluskeið.
 10. Bakið við 190°C í 30-35 mínútur.

Gott að hafa í huga

 • Ef maður notar ekki olíu eða smjör í deigið þá getur maður hvorki notað venjuleg muffins pappírsform, né muffinsbökunarplötu úr járni. Það fást sem sé ekki muffins pappírsform sem maður getur bakað í án þess að þurfa að nota smjör eða olíu í deigið. Það sem þið getið gert er að sníða hringi úr bökunarpappír. Strikið með penna utan um undirskál og klippið út. Setjið svo í hverja muffinsholu. Það er hægt að nota muffinspappírinn í allt að sex skipti. Ef þið notið silicon muffinsform þurfið þið ekki bökunarpappír.
 • Nota má undanrennu, hrísmjólk, haframjólk eða möndlumjólk í staðinn fyrir sojamjólk.
 • Ég nota Hipp Organic, Organix eða Holle barnamat. Þessi merki eiga það sameiginlegt að vera lífrænt framleidd og eru ekki með viðbættum sykri.
 • Í staðinn fyrir barnamat má nota eplamauk (enska: Apple sauce) úr heilsubúð eða heilsudeildum matvöruverslana.
 • Ef afgangur er af barnamatnum má frysta hann í ísmolabox og nota í drykk síðar (smoothie).
 • Nota má hreint hlynsíróp (enska: maple syrup) í staðinn fyrir agevesíróp.
 • Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.