Orðalisti

Hér má finna lista yfir orð/innihaldsatriði sem gætu verið notendum framandi, sérstaklega þeim sem eru að gera breytingar í mataræði sínu. Smellið á orðið sem þið viljið fræðast um nánar og útskýring á orðinu mun birtast sjálfkrafa fyrir neðan það.

Athugið að þessar upplýsingar eru aðeins til glöggvunar og koma ekki í staðinn fyrir upplýsingar frá aðilum mér fróðari!!

Tamari sósa

Tamari sósa (enska: Tamari Sauce) er afbrigði af sojasósu. Hún er bragðmikil, sölt og dökk a lit. Tamari sósa er útbúin úr miso (gerjuðum sojabaunum) þ.e. vökva sem drýpur af misoinu þegar það er látið gerjast yfir langan tíma. Tamari sósa ætti ekki að innihalda nein aukaefni, bragðefni, litarefni né sykur og aldrei hveiti. Það er glúeinlaust frá náttúrunnar hendi (ólíkt sojasósu).

Notkun: Nota má tamari sósu í staðinn fyrir sojasósu og er sniðugt fyrir þá sem eru með glúteinóþol. Lesið ávallt innihaldslýsingu vel þar sem ódýr afbrigði tamari sósu geta innihaldið hveiti. Nota má tamari sósu í marineringu, sem krydd, í sósur eða sem salt. Tamari sósa fæst í öllum heilsubúðum og í heilsuhillum stærri matvöruverslana. Nota má sojasósu í staðinn fyrir tamari sósu (í sama magni) ef ekkert glúteinóþol er til staðar. Athugið að rugla tamari sósu ekki við tamarind/tamarind mauk.

Tamarind mauk

Tamarind mauk (enska: Tamarind Paste/Concentrate) er útbúið úr fræjum tamarind trésins sem vex í Afríku og víðar. Maukið er afar súrt og þarf að blanda því saman við eitthvað sætt eins og agavesíróp eða ávaxtasafa svo að hægt sé að nota það í matargerð. Tamarind er mikið notað í thailenskri og indverskri matargerð en er einnig notað í ávaxtadrykki í Afríku og víðar.

Notkun: Ég nota tamarind mauk ekki mikið því það er erfitt að fá maukið hreint. Gætið þess að rugla tamarind mauki ekki saman við tamari sósu (sem er svipuð sojasósu). Tamarind mauk má kaupa í verslunum sem sérhæfa sig í austurlenskri matvöru (er oft pakkað í umbúðir sem eru álíka að stærð og spilastokkur og er rauðbleikt a lit). Gætið þess að maukið innihaldi ekki hvítan sykur.

Undanrennuduft (próteinduft)

Undanrennuduft (enska: Whey Protein/Whey Powder/Dried Whey) er blanda af próteinum sem unnin eru úr undanrennu (eftir að osturinn hefur verið búinn til). Fitan er fjarlægð og undanrennan er framleidd fyrir neytendur, yfirleitt með því að þurrka hana. Undanrennuduft er nokkuð notað af fólki sem stundar vaxtarækt/líkamsrækt eða af þeim sem vilja auka inntöku próteins því það er afar rík uppspretta flókinna próteina (sem stækka vöðvana).

Notkun: Í próteindrykki, bakstur o.fl. Það er afar sniðugt að taka með sér undanrennuduft í fjallgöngur og blanda svo út í vatn þegar á áfangastað er komið. Þannig getur maður notað undanrennu í te, kaffi, kakó, muesli, á hafragraut o.fl. Undanrennuduft fæst í stærri matvöruverslunum (í mjólkurkælinum) en einnig má stundum finna það í heilsubúðum.

Vínsteinslyftiduft

Vínsteinslyftiduft (enska: Gluten Free and Aluminium Free Baking Powder). Mér líkar ekki bragðið af áli í bakstri og því nota ég ekki hefðbundið lyftiduft en þau innihalda stundum ál. Ég er ekki heldur viss um að það sé gott fyrir líkamann að fá of mikið af áli í líkamann. Einhverjar rannsóknir hafa bent til þess að málmarnir safnist fyrir í líkamanum og hafi slæm áhrif á taugakerfið og almennt á líffærin okkar t.d. á nýru og meltingarkerfi. Einnig hafa sumar rannsóknir tengt saman eiturefni í áli og heilahrörnun sem og Alzheimer's sjúkdóminn. Vínsteinslyftiduft inniheldur ekki glútein svo ef þið hafið glúteinóþol er betra að nota vínsteinslyftiduft. Hefðbundið lyftiduft inniheldur oft hveiti.

Notkun: Nota skal sama magn af vínsteinslyftidufti og venjulegu lyftidufti þ.e. 1 tsk á móti 1 tsk. Best er að setja eitthvað súrt í deigið með vínsteinslyftiduftinu (t.d. 1 tsk af sítrónusafa). Eftir að þurrefnin blandast vökvanum verður deigið að fara strax inn í ofn og má ekki bíða á borðinu. Það er vegna þess að loftbólurnar sem myndast (sem er nauðsynlegt til að fá loft í baksturinn), falla og þar með verður baksturinn flatur. Einnig er það ástæðan fyrir því að deig með vínsteinslyftidufti er best að hræra eins lítið og hægt er. Auðvelt er að útbúa sitt eigið lyftiduft. Ein teskeið af lyftidufti: ½ teskeið vínsteinn (cream of tartar), ¼ teskeið bökunarsódi (án áls) og ¼ tsk maísmjöl. Vínsteinslyftiduft fæst í heilsubúðum og stærri matvöruverslunum.

Wakame þang

Wakame þang (enska: Wakame Sea Weed) er þang sem er t.d. mikið notað í miso súpur Japana. Það er afar ríkt af steinefnum og næringarefnum og er bæði hitaeiningasnautt og fitulaust. Þang inniheldur eitt mesta magn af steinefnum sem þekkist í nokkurri afurð og það eru sömu steinefni og má finna í hafinu sem og í blóði okkar þ.e. magnesium, joð, kalk og járn. Það er einnig ríkt af A, C, E og K vítamíni sem og fólinsýru og ríbóflavíni. Sumir fræðingar vilja meina að þangið eigi að getað hjálpað til við að hindra ákveðnar gerðir krababmeins (sérstaklega brjóstakrabbamein). Wakame á einnig að hafa mikilvægt hlutverk í þyngdartapi þar sem það brýtur fitu niður á fljótlegan hátt.

Notkun: Wakame er yfirleitt selt þurrkað (og mjög salt) svo best er að leggja það í bleyti í um 30 mínútur áður en það er notað og svo sigta salta vatnið frá. Best er að klippa þangið í minni búta áður en það er lagt í bleyti því það mun drekka í sig vökva og tútna út. Fleygið hörðu stilkunum. Þangið má nota í súpur, brauð, pasta, salöt o.fl. Wakame þang fæst í flestum heilsubúðum sem og í verslunum sem sérhæfa sig í austurlenskri matvöru.

Þurrkaðir (heilir) bananar

Þurrkaðir, heilir bananar (enska: Sundried Bananas) eru látnir þorna heilir í langan tíma, án aukaefna eða bragðefna. Þeir líta út eins og brúnir, mjóir fingur. Þeim ætti ekki að rugla saman við bananaskífurnar sem seldar eru sem heilsuvara og eru oft hlaðnar sykri/hunangi og bragðefnum. Þær nota ég aldrei.

Notkun: Skerið í þunnar sneiðar til að nota í muesli, orkustangir, konfekt, sem orkuríkt snarl o.fl. Ef þið finnið ekki þurrkaða banana getið þið sleppt þeim og notað þurrkaðar aprikósur í staðinn. Þurrkaðir bananar fást í stærri heilsubúðum.