Nektarínu- og perudrykkur

Perur eru trefjaríkar og fullar af C og K vítamínum. Fæstir vita að perur er sá ávöxtur sem veldur hvað minnsta fæðuofnæmi af öllum ávöxtum. Þess vegna er hann talinn hentugur ávöxtur í mauk fyrir ungbörn. Í nektarínum er mikið af A vítamíni og í bönunum er einnig A vítamín sem og kalíum (potassium) sem er mikilvægt í baráttu við of háan blóðþrýsting. Mikið er af steinefnum í bæði perum og nektarínum og þessir ávextir innihalda einnig járn og kalk ásamt því að virka hreinsandi á innvolsið í okkur. Þessi drykkur er hreinlega yfirfullur af vítamínum og hollustu!!

Athugið að þið þurfið blandara til að útbúa þennan drykk.
&;

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án mjólkur
 • Án eggja
 • Án hneta
 • Vegan

Nektarínu- og perudrykkur

Fyrir 2

Innihald

 • 1 vel þroskuð nektarína, þvegin og skorin í stóra bita
 • 1 vel þroskuð pera, þvegin og skorin í stóra bita
 • 1 vel þroskaður banani
 • Nokkrir ísmolar
 • 100-200 ml sojamjólk (eða önnur mjólk)
 • 1 msk agavesíróp (má sleppa ef ávextirnir eru sætir)

Aðferð

 1. Þvoið nektarínu og peru, kjarnhreinsið og skerið í stóra bita. Afhýða má ávextina en það er ekki nauðsynlegt.
 2. Setjið ísmolana í blandarann og hellið 50 ml af sojamjólkinni út á. Blandið í nokkrar sekúndur.
 3. Setjið banana, nektarínu og peru í blandarann ásamt afganginum af sojamjólkinni (setjið fyrst 100 ml og bætið 50 ml til viðbótar út í ef ykkur finnst drykkurinn mega vera þynnri).
 4. Smakkið til með agavesírópi (á ekki að þurfa ef ávextirnir eru nægilega sætir og þroskaðir).


 

Gott að hafa í huga

 • Það má sleppa sojamjólkinni og nota t.d. appelsínusafa í staðinn.
 • Til að búa til góðan krapís má frysta þessa blöndu í um 3 tíma (bætið 2 msk af agavesírópi út í til viðbótar) og setja svo í blandarann í nokkrar sekúndur.
 • Nota má undanrennu, hrísmjólk, haframjólk eða möndlumjólk í staðinn fyrir sojamjólk.